Meistarar meistaranna 2025
31.03.2025


Tvö seigustu lið síðasta tímabils áttust við í Meistarakeppni KSÍ, meisturum meistaranna. Okkar grænu og glöðu Íslandsmeistarar sem seigluðust við toppinn allt mótið í fyrra og kláruðu svo dæmið eftirminnilega af yfirvegun og öryggi í hreinum úrslitaleik í Fossvogsdal. KA byrjaði Bestu deildina með miklum hörmungum í fyrra en enduðu í efsta sæti neðri hlutans. Bikarkeppnin var þeim gjöfulli þar sem liðið henti hverju efstudeildarliðinu á fætur öðru út úr keppninni og lögðu svo bikarsnauða Víkinga í úrslitaleik.
Það veitti ekki af seiglu því sjaldan hefur athyglisbrestur veðurguða verið jafn áberandi og þetta vorsíðdegi í Kópavogsdal. Langdregnar þrumur hristu glerið í Turninum og eldingar bættu nokkrum lúxum tímabundið við vallarlýsinguna. Á Arnarneshæð mældust hviður 25 metrar á sekúndu þannig að bolti hefði getað feykst endilangan völlinn á u.þ.b. fjórum sekúndum. Fljótlega eftir að leikur hófst dúraði þó aðeins og viti menn, sólarglennur sýndu sig í kringum hálfleikshléið.
Hér má sjá mörkin úr leik Breiðablik og KA í Meistarar meistaranna. Breiðablik vann 3-1 sigur ???? pic.twitter.com/1L3JPtRVhF
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) March 31, 2025
Hér má sjá mörkin úr leik Breiðablik og KA í Meistarar meistaranna. Breiðablik vann 3-1 sigur
Frábært að sjá Anton Loga aftur í grænu. Unglingurinn Gabríel var í byrjunarliði, Valgeir úr grannliðinu fékk líka að byrja, Höggi kominn á miðjuna aftur og lofandi framherjapar í þeim Óla Val fyrrum Stjörnustrák og hinum danska Tobíasi leit dagsins ljós. Og Andri Rafn í hópnum <3
Gulklæddir gestir stilltu upp fimm manna vörn. Þetta yrði þolinmæðisverk þó framan af leik hefðu okkar menn algera yfirburði í að halda boltanum. Fengum þó gula viðvörun númer tvö (sú fyrsta var frá Veðurstofunni) þegar Anton Ari mátti verja maður á móti manni frá Viðari Erni. Það hefði svo auðveldlega getað farið öðruvísi og Anton Ari átti afar góðan leik.
Samsvarandi leikur á Englandi – meistarar meistaranna – var kenndur við Góðgerðarskjöld árum saman. Það voru einmitt góðgerðir norðanmanna sem komu okkar mannskap í forystu í leiknum. Eftir að hafa yfirspilað þá allan leikinn brast loksins einbeiting í vörninni hjá þeim og fyrirgjöf eftir horn var skölluð í eigið mark.
Stöðugur þrýstingur grænna skilaði sér í frekari athyglisbresti gulra varnarmanna þegar Valgeir stakk sér framfyrir einn slíkan en var tekinn niður. Höggi skoraði af miklu öryggi úr vítinu. 2-0 og manni fannst þetta í raun vera komið í hús þegar ekki tók nema þrjár mínútur að skora tvö mörk. Sú tilfinning styrktist enn frekar þegar bráðfellegt ekta Breiðabliksmark leit dagsins ljós. Góð pressa skilar unnum bolta ofarlega og nýi sóknardúettinn tengir fallega þegar Óli Valur gefur fyrir og Tobias skallar í markið á 41. mínútu. 3-0.
Í hálfleiknum hitti maður satt best að segja ekki mjög margt fólk. Uppi í fínimannastúku voru formenn og framkvæmdastjórar allskonar en niðri í græna herbergi alseigustu stuðningsmenn. Fyrir utan hitti ég hinn pípureykingamanninn á Íslandi og goðsögnina Kidda Lár en Kristófer, hans ágæti sonur, er á batavegi eftir erfiðar aðgerðir í haust og vetur.
Sem sólin fór að glenna sig héldu Blikar áfram ágengum sóknarbolta í seinni hálfleik. Þrjár stólpaskiptingar voru gerðar í hálfleik og framan af þeim seinni gekk okkar mönnum áfram stórvel að spila út úr vörninni og setja pressu á KA-menn. Þarna hefðu nokkur mörk mátt líta dagsins ljós úr gráupplögðum færum.
Þegar leið á hálfleikinn virtist mér orka okkar manna aðeins dvína. Verr gekk að spila upp völlinn, færri seinni boltar unnust og þegar hann brast á með storméljum og skýfalli tókst norðanmönnum að skora. Þá var líka orka þeirra búin og fleira markvert gerðist ekki í leiknum. Þrumur hljómuðu samt þunglamalega yfir dalnum og léku einskonar sorgarmars fyrir KA-menn
Þetta er fimmti svona meistaraleikurinn sem Breiðablikskarlar spila. Sá fyrsti vannst 2023 (KA vann svona leik 1990.) Það er hlýlegt að fá þessa tegund silfurbúnaðar aftur á Kópavogsvöll og verðlaunapeninga í safn strákanna og aðstandenda liðsins.
Til hamingju þið. Til hamingju við.
Besta deildin byrjar svo með snúnum heimaleik gegn nýliðum Aftureldingar á laugardaginn, 5. apríl kl. 19:15. Það gerðist fyrir leikinn í dag að þegar einn steig út úr græna herberginu með öl í glasi, þá fauk froðan af honum u.þ.b. 12,3 metra til vesturs. Það var aðdáunarvert hvað strákarnir spiluðu góðan bolta í þessari tíð og ég hlakka mikið til sumarsins.
@breidablikfc MEISTARAR MEISTARANNA ????????
♬ Elli Egils - Herra Hnetusmjör