Mikið fyrir peninginn!
11.02.2022
Blikar þurftu að sætta sig við 4:3 gegn stórliði FCK frá Kaupmannahöfn í lokaleik Atlantic Cup mótsins.
Fyrri hálfleikur var nánast gallalaus hjá þeim grænklæddu. Liðið spilaði fasta og örugga vörn og sótti svo hratt þegar tækifærið gafst. Mikil ákefð einkenndi strákanna og greinilegt að þeim leið vel inn á vellinum. Einu skiptin sem einhver hætta skapaði var þegar Anton Ari átti í smávægilegum örðugleikum að koma knettinum frá marki. En hann bætti fyrir það með öruggum leik á milli stanganna.
Byrjunarliðið:
Gísli setti fyrsta markið strax á áttundu mínútu eftir að Anton Logi átti snilldarsendingu inn fyrir vörnina. Gísli stakk dönsku hafsentana af eins og 60 metra hlaupari og átti svo skot í hlaupinu sem markvörður FCK reiknaði alls ekki með. Gísli kórónaði með þessu marki frábæra Portúgalsdvöl og var hann að öllum öðrum ólöstuðum besti leikmaður Blika á þessu móti.
Leikurinn hélt áfram á svipuðum nótum. Danirnir voru meira með knöttinn en náðu ekki að opna Kópavogsvörnina. Síðan kom annað markið á margan hátt eins og það fyrra. Blikar sóttu hratt og Davíð Ingvars kom sér í góða stöðu upp kantinn. Hann renndi knettinum fyrir þar sem Gísli kom honum áfram á Viktor Karl og þaðan á Höskuld. Fyrirliðinn lét vaða og inn fór boltinn með smá aðstoð frá ráðvilltum miðverði Kaupmannahafnarliðsins. Staðan óvænt orðin 2:0 fyrir Blika og fögnuðu því allir góðir menn.
En það var eins og búið væri á tankinum hjá Blikum í síðari hálfleik. Danirnir settu ferskar fætur inn á og greinilegt að farið var að draga af lykilmönnum Blika enda búnir að hlaupa úr sé lungun í öllum leikjunum. Pressan var mikil á okkur og FCK menn nýttu vel öll mistök okkar. Staðan breyttist því fljótt úr því að vera 2:0 yfir í að vera 4:2 og þar með var ballið búið. Að vísu áttum við 2-3 ágætar sóknir í hálfleiknum og úr einni þeirra skoraði snillingurinn Kristinn Steindórsson gott mark eftir að Höskuldur fyrirliði hafði skotið að marki. En 4:3 tap staðreynd og við féllum niður í fjórða sætið á mótinu. En það er ekki hægt að segja annað en að áhorfendur hafi fengið mikið fyrir peninginn. Sjö mörk og mikil barátta. Hvað er hægt að biðja um meira !
Í heildina getum við því verið mjög ánægðir með Atlantic Cup 2022. Ferðin hristi hópinn vel saman og frábærar aðstæður í Portúgal munu skila sér langt fram á árið. Strákarnir spiluðu í flestum leikjunum frábærlega þótt að hálfleikarnir væru dálítið misjafnir. Nýir leikmenn fengu að spreyta sig og sýndu að þeir eru góðir knattspyrnumenn. Blikaliðið heldur nú heim reynslunni ríkara.
Næsti leikur liðsins er í Lengjubikarnum gegn Skagamönnum á Kópavogsvelli föstudaginn 25. febrúar kl.19:00!
Highlights: Breidablik 3-4 FCK