BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Mikilvægur sigur í Mjólkurbikarnum

18.05.2023 image

Blikar unnu mikilvægan 0:3 sigur gegn 1. deildarliði Þróttar í Mjólkurbikarkeppni karla á hallarflötinni í Laugardalnum í dag. Við erum því komnir áfram í 8-liða úrslit og verður spennandi að sjá á móti hverjum við lendum að þessu sinni. Sigurinn var reyndar ekki eins öruggur eins og tölurnar gefa til kynna því þeir rauðröndóttu börðust vel og voru í raun óheppnir að skora ekki í leiknum.

Ekki er hægt að segja að veðurguðirnir hafi leikið við hvurn sinn fingur í Laugardalnum í dag. Suðvestan vindur með rigningarskúrum barði bæði leikmenn og áhorfendur þannig að flestir voru fegnir þegar dómarinn flautaði til leiksloka. Það bjargaði þó málum að hallarflötin í Laugardalnum er frábær staðsetning fyrir knattspyrnuvöll því gróinn dalurinn veitir vörn gegn flestum vindáttum..

Eins og við mátti búast fengu margir leikmenn, sem þurft hafa orðið að sætta sig bekkjasetu í upphafi tímabilsins, tækifæri í leiknum. Segja má með sanni að nokkrir þeirra hafi staðið sig með sóma og má þar fremstan meðal jafningja telja Brynjar Atla Bragason markvörð sem varði meðal annars tvívegis meistaralega í leiknum og kom í veg fyrir að Þróttara kæmust inn í leikinn. Miðvarðarparið Viktor Örn og Oliver stóðu sig líka vel og kom sá síðarnefndi nokkrum sinnum í veg fyrir mark með góðum staðsetningum. 

Það má þó gagnrýna Blikaliðið fyrir mjög hægan leik og litla ákefð, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við héldum boltanum og vorum að dúlla með hann fram og aftur en lítið gerðist fram á við. Það var ekki fyrr en Viktor Karl skoraði stórglæsilegt mark vel fyrir utan vítateig á 31. mínútu að líf færðist í sóknarleikinn. En fram að því höfðum við nokkrum sinnum lent í vandræðum þegar heimapiltar hirtu knöttinn af okkur og voru í raun óheppnir að skora ekki. Sem betur fer!

Við skiptum aðeins um gír í síðari hálfleik en vorum á löngum stundum að spila innanhúsknattspyrnu út við hliðarlínuna án þess að ógna í raun markinu. En að lokum kom fyrirgjöf, sem annars ágætur markvörður Laugardalsliðsins, missti klaufalega frá sér og Klæmint sýndi það og sannaði með góðri bakfallsspyrnu að hann er alvöru markaskorari.

Það dróg nokkuð úr ákefð Þróttara við þetta mark en við létum samt ekki kné fylgja kviði. Gísli vildi til dæmis ekki klára leikinn strax og lét markvörðinn verja frá sér vítaspyrnu.  En annar alvöru markaskorari Stefán Ingi Sigurðarson kom inn á skömmu fyrir leikslok og hann var ekki lengi að koma sér í færi. Á lokaandartökum leiksins fékk hann góða sendingu frá öðrum varamanni, fyrirliðanum Höskuldi Gunnlaugssyni, inn fyrir vörn þeirra rauðklæddu og sendi Stefán knöttinn örugglega í markið 0:3.

Það er frábært að við séum komnir áfram í bikarnum og auðvitað á ekki að kvarta undan þriggja marka sigri. En Blikaliðið getur meira en það sýndi í þessum leik en á margan hátt líta á þetta sem upphitun fyrir KA-leikinn á sunnudag kl.17.00 á Kópavogsvelli.  Þá reynir meira á Blikaliðið og einnig áhorfendur sem voru of fáir Blikamegin að þessu sinni. Þar getum við stuðningsmenn tekið okkur hressilega á!

Það var ánægjulegt að sjá Kristinn Steindórsson skokka inn á tuttugu mínútum fyrir leikslok. Við höfum saknað þessa snjalla knattspyrnumanns og á hann örugglega eftir að reynast okkur vel í öllum þessum verkefnum framundan í Bestudeild karla, Mjólkurbikarnum og svo Evrópukeppninni. Velkominn aftur Kristinn!

Við verðum því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitum eftir helgi. Önnur lið sem eru komin áfram eru Stjarnan, Þór Akureyri, Víkingur R., KA, Grindavík, FH og KR.

-AP

Til baka