BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Montrétturinn aftur í Kópavoginn!

17.02.2023 image

Blikar unnu öruggan 3:1 sigur gegn FH á Kópavogsvelli í kvöld í Lengjubikarnum. Sigurinn var mjög öruggur og vorum við mun betra liðið allan leikinn. Blikaliðið sýndi gamla Íslandsmeistaratakta í leiknum og lét knöttinn rúlla hratt og örugglega. Gestirnir voru í erfiðleikum allan leikinn og máttu í þakka fyrir að tapa ekki leiknum stærra.

Blikaliðið var mun beittara í sóknaraðgerðum sínum en í síðustu leikjum. Það skilaði sér í þremur mörkum í fyrri hálfleik. Höskuldur setti fyrsta úr vítaspyrnu eftir að Stefán Ingi hafði fiskað hendi á einn andstæðinginn. Síðan átti Gísli snilldarsendingu á Jason Daða sem setti knöttinn listavel á Stefán Inga sem ekki brást bogalistinn frekar en fyrri daginn. Skömmu fyrir leikhlé settu síðan FH-ingar knöttinn í eigið net á frekar klaufalegan hátt. En við kvörtum ekki undan því!

Hins vegar voru veikleikar vinstra megin í varnarlínunni hjá okkur og það náðu FH-ingar að nýta sér einu sinni. Reyndar fengu þeir tvö önnur góð tækifæri en sem betur náðu þeir einungis að skora þetta eina mark. Á móti náðu Blikar að spila sig upp skemmtilega gegn varnarlínu Hafnfirðinga og hefðu í raun með smá heppni getað skorað 1-2 mörk til viðbótar í fyrri hálfleik.

Yfirburðir okkar drengja voru miklir í síðari hálfleik. Við sóttum hratt á þá hvítklæddu úr öllum stöðum og það var í rauninni með ólíkindum að við skyldum ekki bæta við fleiri mörkum. Á sama tíma lokuðum við fyrir vörnina og áttu gestirnir í raun ekkert færi fyrr en undir blálokin. Sem sagt öruggur 3:1 sigur okkar pilta og hefndum við þar með fyrir tapið í úrslitum Þungavigtarbikarnum. En það er stutt stórra högga á milli hjá Blikaliðinu. Næsti leikur liðsins er gegn Leikni í Breiðholtinu á þriðjudagskvöldið kl.19.00. Blikar.is verður á staðnum en hvað með þig?

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Myndaveisla í boði Fótbolta.net

image

Til baka