Ólafur Pétursson framlengir samningi við Breiðablik
18.11.2020Ólafur Pétursson hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Breiðablik til næstu tveggja ára
Ólafur mun áfram vera markmannsþjálfari meistaraflokks karla og kvenna ásamt því að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna.
Ólafur hefur verið markmannsþjálfari hjá Blikum frá árinu 2005. Á þessum 15 árum hefur Ólafur þjálfað markmenn yngri flokka félagsins ásamt því að vera markmannsþjálfari meistaraflokks karla frá árinu 2008 og kvenna frá árinu 2012.
Frá haustinu 2014 hefur Ólafur einnig verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna eða frá því að Þorsteinn Halldórsson tók við liðinu. Undir þeirra stjórn hefur Breiðablik orðið Íslandsmeistari í þrígang auk tveggja bikarmeistaratitla.
Auk þess að þjálfa hjá Blikum hefur Ólafur verið markmannsþjálfari A-landsliðs kvenna á undanförnum árum.
Ólafur hefur unnið frábært starf fyrir Breiðablik á síðastliðnum 15 árum og því mikið fagnaðarefni að hann sé búinn að skrifa undir nýjan samning við félagið.
Við Blikar óskum Ólafi til hamingju með samninginn.
Það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir því að Ólafur Pétursson er einn sigursælasti þjálfari landsins. Hann hefur unnið til hvorki fleiri né átta Íslandsmeistaratitla og átta Bikarmeistaratitla með þeim liðum sem hann hefur þjálfað. Óli leysti frá skjóðunni í viðtali við Blikahornið í lok mars á þessu ár. Smella á HÉR eða á myndina til að nálgast viðtalið.