Þolinmæðin þrautir vinnur allar!
01.03.2022
Blikar unnu baráttuglatt Fjölnislið 4:2 í Lengjubikarnum í kvöld. Sigurinn var nokkuð torsóttur enda vorum við gjafmildir í vörninni og flækjufótar í sókninni framan af leik. En með seiglu skoruðum við tvö mörk á síðustu mínútum leiksins og innsigluðum sanngjarnan sigur. Marga fastamenn vantaði í Blikaliðið en hópurinn er stór þannig að nýir leikmenn fengu að spreyta sig í byrjunarliði.
Við ákváðum að gefa gestunum eitt mark í forgjöf strax á fimmtu mínútu þegar Brynjar Atli markvörður átti misheppnaða sendingu út úr vörninni og gestirnir sögðu pent takk! Annars stóð Brynjar sig vel að öðru leyti en hann leysti Anton Ara af í markinu í dag enda var Anton Ari ásamt konu sinni að fjölga Íslendingum um tvo í dag! Hjartanlega til hamingju með tvíburana Anton Ari.
Byrjunarliðið og bekkur:
Það voru ekki liðnar nema um fimm mínútur frá marki gestanna þar til Dagur Dan jafnaði leikinn með harðfylgni eftir snilldarsendingu frá Davíði Ingvars. Við héldum boltanum meirihlutanum af hálfleiknum en létum svo gestina fella okkur á eigin bragði. Snörp skyndisókn þeirra skömmu fyrir leikhlé færði þeim forystuna í leiknum.
Við hertum smám saman tökin á leiknum í síðari hálfleik. En Blikar voru aðeins farnir að ókyrrast í stúkunni því við fórum afskaplega illa með færin. En aftur átti Davíð Ingva góða sendingu og í þetta sinn á Sölva Snæ sem snéri sér snilldarlega í teignum og setti knöttinn í netið. Þar með var ljóst hvernig leikurinn myndi fara. Dagur Dan skoraði þriðja markið með fallegu skoti utan úr teignum og í lokin bætti Ísak Snær við marki með snyrtilegu skotið fram hjá markverði gestanna.
Þess má geta að þetta voru fyrstu mörk Dags, Sölva Snæs og Ísak Snæs fyrir Breiðablik. Þess má einnig geta að Ásgeir Galdur átti stoðsendingarnar í síðustu tveimur mörkunum. Davíð Ingvars átti báðar stoðsendingar fyrstu 2 mörkunum. Vel gert strákar!
Þrátt fyrir að sigurinn væri torsóttur var hann fyllilega sanngjarn. Nokkrir nýir leikmenn fengu að spreyta sig og athygli vakti að starfsmannadeild Breiðabliks setti sína menn inn á í lokin. Tumi Fannar Gunnarsson kom inn á 86. mín og einnig Ásgeir Helgi Orrason (Hlöðverssonar fyrrverandi formanns deildarinnar) og Lúkas Magni Magnason (Hrafnhildarson fjármálastjóra Breiðabliks) fengu sínar fyrstu mínútur með meistaraflokki Breiðabliks og stóðu sig vel. Reyndar ákvað Lúkas Magni í lokin að henda í eina groddalega tæklingu og fékk beint rautt spjald fyrir. Fall er oft fararheill og það er samt eiginlega alveg óþarfi að enda leikina alltaf að minnsta kosti einum manni færri en andstæðingarnir!
Við erum með fullt hús stiga eftir þessa leikjatörn en það er stutt í næsta leik. Við höldum þá norður yfir heiðar og mætum þrumuguðunum úr Þór í Boganum á sunnudaginn kl.16.00. Væri ekki ráð að bregða sér á skíði í Hlíðarfjall yfir helgina og enda það síðan á því að sjá Blikana mæta rauðum og hvítum Þórsurum.
-AP
Mörkin úr leiknum í boði BlikarTV: