BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þolinmæðin þrautir vinnur allar!

25.02.2021 image

Blikar unnu þolinmæðissigur á baráttuglöðum Eyjamönnum 2:0 í Lengjubikarnum á Kópavogsvelli í dag. Bæði mörkin komu undir lok leiksins þegar stanslaus sókn Blika skilaði loks árangri.  Fyrst skoraði Gísli á tíu mínútum fyrir leikslok eftir langa og harða sókn Blika.

image

Gísli Eyjólfsson spilaði í dag 150. mótsleikinn með Breiðabliki.

Og svo setti Guðjón Pétur eitt kvikindi úr vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar. Þar með erum við Blikar á toppnum á okkar riðli með 9 stig og markatöluna 11:0.

image

Guðjón Pétur að skora úr vítaspyrnunni. Mynd: Hulda Margrét ljósmyndari

Vestmanneyingar létu okkur hafa vel fyrir hlutunum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir börðust vel, lokuðu vel á sóknirnar okkar og við náðum ekki nægjanlegum opnunum til að skora mark. Við vorum reyndar miklu meira með boltann en gestirnir áttu samt 1-2 hættulegar sóknir. Í síðari hálfleik hertist takið á Eyjamönnum. Þreytan fór að segja til sín hjá gestunum og fljótir sóknarmenn okkar gerðu þeim hvítklæddu erfitt fyrir.

Óskar Hrafn eftir sigur á ÍBV: Þetta var þolinmæðisvinna

En það var ekki fyrr en Guðjón Pétur átti snilldarsendingu á Damir úti á kanti sem ísinn var brotinn. Damir átti fasta sendingu fyrir þar sem Jason Daði fékk knöttinn en sá að Gísli var í betra færi. Miðjumaðurinn snjalli gerði engin mistök og kom knettinum örugglega í markið. Nokkrum mínútum síðar var brotið á Viktori Erni innan teigs og dómarinn dæmdi víti eftir smá hik. Guðjón Pétur skoraði örugglega úr vítinu. Hann hafði komið inn á sem varamaður og breytti töluverðu í spili Blikaliðsins. Það er mikill munur að hafa svona spilandi leikmann til taks þegar lið liggja mjög aftur.

Mörk og atvik úr leiknum í boði BlikarTV:

Þetta var fyrsti leikur sem áhorfendur voru leyfðir. Það var slæðingur af fólki sem mætti og var gaman að hafa líf í stúkunni á nýjan leik.

Næsta verkefni Blikaliðsins er gegn Fjölni í Egilshöllinni föstudaginn 5. mars.

Umfjallanir netmiðla.

-AP

Myndaveisla í boði Huldu Margrétar ljósmyndara

image

Myndir: Hulda Margrét ljósmyndari

Til baka