Pepsi MAX 2020: Fjölnir - Breiðablik laugardag kl.13:00!
02.09.2020Pepsi MAX deild karla 2020. Fjölnir - Breiðablik á Extra vellinum laugardag kl.13:00!
Næsti leikur okkar manna í Pepsi karla er gegn Fjölnis-mönnum á Extra vellinum í Grafarvogi á laugardaginn 5. september kl.13:00! Þetta er tvífrestaður leikur í 15. umferð sem nú er loksins kominn á dagkrá. Leikurinn er í miðju landsleikjahléi sem vekur athygli. Það vekur líka athygli að A-landsleikur Íslands og Englands fer fram kl.16:00 sama dag. En er ekki gert til að láta hlutina ganga upp á þessum stórfurðulegum tímum sem við erum að upplifa. Sem sagt kjörinn sófadagur fyrir framan sjónvarpið á laugardaginn: Fjölnir – Breiðablik kl.13:00! / Ísland – England kl.16:00!
Ólík staða liðanna í Pepsi MAX 2020
Lið Fjölnis er með 4 stig 12. sæti deildarinnar eftir 12 leiki. Fjölnisliðið hefur gert 4 jafntefli og tapað 8 leikjum. Liðið er enn án sigurs og er í bullandi fallbaráttu.
Lið Breiðabliks er með 20 stig í 4. sæti deiladrinnar eftir 11 leiki. Með sigri fara Blikar í annað sætið 23 stig - 5 stigum á eftir toppliði Vals eftir jafn marga leiki.
Leikurinn á Extra vellinum á laugardaginn er mjög mikilvægur fyrir bæði lið. Fjölnismenn þurfa á stigum að halda til að lyfta sér úr fallsæti. Blikaliðið þarf á sigri að halda til að halda sér við top deildarinnar.
Tölfræði
Leikur Fjölnis og Breiðablisk í Grafarvoginum á mánudagskvöld verður 25. mótsleikur liðanna frá upphafi. Nánar.
Heilt yfir hafa liðin spilað 24 mótsleiki frá upphafi. Breiðablik leiðir þar með 17 sigurleiki. Jafnteflin eru 5 og Fjölnismenn hafa unnið 2 leiki
Efsta deild
Sagan fellur með Blikum. Í 15 efstu deildar viðureignum liðanna leiða Blikar með 10 sigra gegn 2 sigrum Fjölnismanna. Jafnteflin eru 3.
Hér er samantekt yfir nokkra leiki liðanna undanfarin ár. Hægt er að smella á plúsmerkið til að skoða nánari upplýsingar einsog myndir, myndbönd, umfjallanir netmiðla, leikskýrslur og fl.:
2020: Kristinn Steindórsson skoraði mark strax á 9. mín. Anton Ari varði vítaspyrnu frá Jóhanni Árna á 51. mín. sem ella hefði komið Fjölninsmönnum í 1:1 stöðu. Blikar fengu svo víti á 57. mínútu. Thomas steig á punktinn og skoraði örugglega. Á 72. mín. fá Fjölnismenn dæmda aðra vítaspyrnu og skora. Á 84. mín skorðai Gísli Eyjólfsson glæsilegt mark og tryggði Blikum 3:1 digur.
2018: Blikar sluppu með skrekkinn þegar þeir unnu Fjölni á Kópavogsvelli 2018. Glæsilegt aukaspyrnumark Olivers Sigurjónssonar skömmu fyrir leikslok tryggði okkur stigin þrjú:
Í byrjun maí 2017 tapa Blikar fyrri viðureign liðanna í 0-1 í leik sem hefði kannski átt að enda með jafntefli. En Blikar vinna svo heimaleikinn í lok júlí 2-1 með 2 mörkum frá Martin Lund Pedersen - fyrrverandi leikmanni Fjölnis:
Í júlí 2016 vinna Blikar öruggan 3-0 sigur í fyrri leik liðanna í Grafarvogi. Mörkin skoruðu Andri Rafn Yeoman, Gísli Eyjólfsson og Daniel Bamberg. Gunnleifur varði vítaspyrnu í upphafi seinni hálfleiks í stöðunni 0-2. Árni Vilhjálmsson lék sinn fyrsta leik með Blikum, eftir að hann kom á ný til félagsins í félagaskiptaglugganum 15. júlí, og gerði sér lítið fyrir og átti allar 3 stoðsendingar leiksins. Leikurinn var 250. mótsleikur Arnórs Sveins Aðalsteinssonar með Breiðabliki. Í síðari leiknum árið 2016, sem var jafnframt lokaleikur tímabilsins, töpuðu Blikar 0-3:
2015: Blikar vinna báða leikina 2015 2-0. Fyrri leikurinn var á Kópavogsvelli. Mörk Blika skoruðu Oliver Sigurjónsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Gísli Eyjólfsson kom inn á í leikum í sínum fyrsta efstu deildar leik. Gunnleifur Gunnleifsson var valinn maður leiksins. Gunnleifur varð fertugur daginn eftir leikinn og nýtti tækifærið til að skrifa undir nýjan samning við Breiðablik. Nánar um það hér. Síðari leikur liðanna árið 2015 var í síðustu umferð Pepsi-deildarinnar. Leikurinn vannst 0-2 með mörkum frá Jonathan Glenn, markið sem hann skoraði var 8. markið hans í 9 leikjum með Blikum. Það var svo Andri Rafn Yeoman innsiglaði sigurinn með marki í uppbótartíma:
Jafntefli í báðum leikjum 2014; 2-2 í Kópavoginum og 1-1 í Grafarvoginum. Mörk Blika í þessum viðureignum skoruðu: Árni Vilhjálmsson 2 mörk og Davíð Kristján Ólafssson 1 mark, en mark Davíðs var sérlega glæsilegt og fagnið hans ekki síður fallegt:
Árið 2009 gerða liðin 0:0 jafntefli á Kópavogsvelli. Blikar vinna seinni leikinn 0-2 með mörkum frá Kidda Steindórs og Gumma P.:
2008: Blikar vinna 1-2 í miklum rokleik í Grafarvoginum með hörku sigurmarki frá Árna Kristni Gunnarssyni. Árni lék svo með Fjölni árin 2012-2014. Blikar vinna seinni leikinn á Kópavogsvelli 4-1 með mörkum frá Guðmundi Kristjánssyni, Nenad Zivanovic, Prince Rajcomar og sjálfsmarki:
Leikurinn
Vegna fjöldatakmarkanna fá færri en vilja miða á leikinn, en leikurinn verður sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.
Vonandi sjá sem flestir Blikar sér fært að fylgjast með leiknum og hvetja okkar menn til sigurs á einhvern hátt þrátt fyrir fjarlægð frá leikstað.
Leikurinn hefst kl.13:00!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!