BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: KA - Breiðablik

24.08.2021 image

Frestaður leikur úr 7. umferð Pepsi MAX karla 2021. Okkar menn leggja land undir fót og ferðast norður yfir heiðar til að etja kappi við lið KA manna - lið Arnars Grétarssonar. Flautað verður til leiks Greifavellinum á Akureyri kl.18:00 á miðvikudaginn. Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport.

Fyrir leikinn á miðvikudaginn eru Blikar í þriðja sæti Pepsi MAX 35 stig og eiga leik til góða á bæði Val og Víking sem eru í efstu tveimur sætunum með 36 stig hvort lið. Sigur okkar manna tryggir tveggja stiga forustu á toppnum. Reyndar nægir Blikum jafntefli (36 stig) til að ná toppsætinu enda með 20 mörk í plús gegn 10 mörkum Víkings og 12 mörkum Valsmanna. 

Það er óvenjulegt en skemmtilegt og Evrópustemming í kringum það fyrirkomulag að leikir KA og Breiðabliks séu leiknir á 5 dögum - laugardegi og miðvikudegi. Þessi niðurstaða er vegna þess að leik liðanna í 7. umferð, sem vera átti á Akureyri í lok maí, hefur ítrekað verið frestað. 

Leikur liðanna á Kópavogsvelli á laugardaginn var mjög fjörugur. 

Allt um þann leik hér:

Hér er staðan í deildinni þegar öll liðin eru búin með 17 leiki:

image

Sagan

Heilt yfir fellur sagan með Blikum þegar úrslit allra innbyrðis mótsleiki liðanna eru skoðuð. Mótsleikirnir eru samtals 44 í öllum mótum frá upphafi. Blikar hafa yfirhöndina með 28 sigra gegn 10 sigrum KA manna og jafnteflin eru 6. Meira>

A-deild: 21 leikir (14-4-3) / B-deild: 8 leikir (5-0-3) / Bikarkeppni: 4 leikir (1-0-3) / Deildarblikar KSÍ: 8 leikir (6-1-1)

Efsta deild

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru 21 leikir. Blikar leiða þar með 14 sigra gegn 3 sigrum KA manna. Liðin skora mikið í þessum leikjum eða 59 mörk.

Blikaliðið hefur ekki tapað gegn heimamönnum á Akureyri í fjórum leikjum í röð síðan KA kom aftur upp í efstu deild árið 2017.

Heilt yfir eru leikirnir á Akureyri í efstu deild 10 sem dreifast á árin frá 1978 til 2020: 6 Blikasigrar, 2 töp og 2 jafntefli. 

Síðustu deildarleikir gegn KA á á Akureyri:

Leikmenn

Nokkrir leikmenn KA liðsins haf spilað í grænu Breiðablisktreyjunni. Steinþór Freyr Þorsteinsson lék 140 mótsleiki og skoraði 16 mörk með Breiðabliki á árunum 2002-2008.  Elfar Árni Aðalsteinsson lék 105 mótsleiki með Blikaliðinu og skoraði 29 mörk á árunum 2012-2015.

Og Arnar Grétarsson, þjálfari KA manna, deilir þriðja sæti með Elfari Frey Helgasyni yfir leikjahæstu leikmenn Breiðabliks frá upphafi með 289 mótsleiki og 61 skoruð mörk með fyrir Breiaðblik.

Einnig er framkvæmdastjóri KA, Sævar Pétursson, fyrrverandi leikmaður Blika með 119 mótsleiki og 23 mörk með Blikum.

Svo má ekki gleyma því að bræðurnir og Stór-Blikarnir Einar, Hinrik og Þórarinn Þórhallssynir (Huldusynir) hafa allir leikið með báðum liðum. Einar 1979, Þórarinn (Tóti) 1983/1984 og Hinrik lék yfir 100 leiki með KA á árunum 1981 til 1987.

Leikmannahópur Breiðabliks:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 7.umferðar er fæddur í Hafnarfirði en bjó lengst af á Akureyri. Hann spilaði handbolta og fótbolta upp alla yngri flokka með KA og byrjaði að þjálfa handbolta hjá félaginu 13 ára gamall. Hann bjó á Akureyri til ársins 2006, þangað til hann flutti í Kópavoginn og hóf nám í íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík. Frá 2006 hefur hann búið í Kópavogi, ef undanskilin eru þrjú ár sem hann bjó í Noregi og þjálfaði þar meistarflokk kvenna í handbolta. Kristján hefur verið harður stuðningsmaður Breiðabliks frá árinu 2006 og verið ársmiðahafi allan þann tíma. 

Kristján Aðalsteinsson – Hvernig fer leikurinn?

Það er alveg ljóst að KA menn munu leggja allt í sölurnar á sínum heimavelli, í bongóblíðu á Akureyri, næstkomandi miðvikudag. Eins og leikirnir í Pepsi-Max deildinni hafa spilast um helgina, fara Blikar á toppinn með sigri fyrir norðan. Það hefur verið magnað að fylgjast með Blika liðinu í sumar og sjá þann stöðugleika sem hefur hægt og bítandi verið að myndast. Stöðugleikinn, hefur skilað liðinu á þann stað að vera með örlög Íslandsmótsins í hendi sér. Leikur Breiðabliks og KA á Kópavogsvelli um helgina var mikil skemmtun. Blikar byrjuðu betur en KA menn sýndu oft á tíðum hve hættulegir þeir eru og voru síst lakari aðilinn á löngum köflum. Ég reikna með mikilli baráttu, á grasinu á Greifavellinum. KA menn eru ennþá í bullandi séns á Evrópusæti og hafa verið virkilega góðir í sumar. Arnar Grétarsson hefur haldið áfram að byggja á sterkum varnarleik, vinnusemi, aga og baráttu í leik liðsins. Það verður mjög forvitnilegt að sjá hvort að Blikaliðið nái upp því „tempói“ í sínum leik sem þeir byggja á. Aðstæður munu segja mikið til um það.

Þessi leikur er gríðarlega mikilvægur upp á framhaldið hjá báðum liðum. Blika liðið mun þurfa algera topp frammistöðu til að taka með þrjá punkta frá Akureyrarvellinum, ég er algerlega sannfærður um það. Lykilinn að því að sigra KA á útivelli er að mæta þeim á 100% krafti í öllum einvígum, vinna alla seinni bolta, ná upp góðum og stöðugum varnarleik og nýta þau færi sem liðið fær, sem er ekki víst að verði mörg, gegn öguðu liði KA manna.

Það mun veikja Blika liðið umtalsvert að vera án Viktors Arnar og Alexanders en nú verða aðrir að stíga upp og sýna að breiddin sé nægilega mikil til að takast á við það.

Mín spá er sú að leikurinn fari 3-2 fyrir Breiðablik. Ég spái á þennan hátt, því ég vona að leikurinn verði opinn, skemmtilegur, hraður og fullur af tækifærum og baráttu. Þetta er ekki endilega raunsæ spá, ef tekið er mið af því hve fá mörk liðin fá á sig, en ég vona að þetta þróist með þessum hætti. 

Það spáir bongó blíðu á Akureyri á miðvikudag og ég vona innilega að sem flestir Blikar geri sér ferð norður yfir heiðar og sjái okkar menn stíga næsta skref í áttina að þeim stóra, Íslandsmeistaratitlinum!

image

SpáBliki umferðarinnar - Kristján Aðalsteinsson

Dagskrá

Tekið af vefsíðu KA: 

Vegna þeirra sóttvarnarreglna sem nú eru í gildi eru aðeins 400 miðar í boði, 200 í stúku og 200 á grassvæði. Við hvetjum því alla sem hafa áhuga á að mæta á leikinn að tryggja sér miða sem allra fyrst í miðasöluappinu Stubb en miðasala er hafin. Grímuskylda er á leiknum.

Heyrst hefur að Kópcabana stuðningsmanansveit Blikaliðsins ætli að fjölmenn norður á Akureyri á miðvikudaginn og halda uppi stuði á leiknum eins og þeir gerðu svo vel á leiknum í fyrra.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Klippur frá hörku leik liðanna á Akureyri í fyrra:

Til baka