BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þríliða á þriðjudagskvöldi

07.08.2024 image

6. ágúst 2024 átti að vera dagurinn þegar sumarið kæmi í bæinn. Að morgni var blíða og eftir hádegi rjómablíða. Þeir sem létu glepjast af þessu sprelli veðurfræðinga og laumuðust í Leirdalinn síðdegis komust hins vegar að því að æðri máttarvöld höfðu ákveðið að bleyta hressilega í gjörvöllum Kópavogi – eins og þau treystu ekki vallarstarfsmönnum í Smáranum til að stilla af vökvagjöfina fyrir leik kvöldsins. Þegar hann hófst hafði hins vegar birt til á ný, nægu vatni verið ausið á gervigrasið, og engu líkara en áhorfendum hefðu verið boðin hlutabréf í sólarlaginu, svo vitnað sé í ljóðabók eftir eitt af afmælisbörnum dagsins, Dag Sigurðarson.

Liðin sem gengu inn á Kópavogsvöll voru í ólíkri stöðu. Heimamenn að anda ofan í hálsmálið á Víkingum á toppnum en gestirnir í grimmri fallbaráttu. Vissulega voru sigurlíkurnar með okkar mönnum – en Fylkismenn eru sýnd veiði en ekki gefin. Aron Bjarnason var heiðraður fyrir að hafa rofið 100 leikja múrinn áður en dómarinn setti allt í gang. 

Lið Breiðabliks var þannig skipað:

Í fögrum boga

Okkar menn tóku þegar í upphafi öll völd á vellinum. Á annarri mínútu var brotið á Ísaki þegar hann braust upp vinstri kantinn og hrópaði stúkan einum rómi á gult spjald. Þetta var ekki síðasta brotið á þessum skæða sóknarmanni. Nánar um það á eftir. Þremur mínútum síðar átti Damir skot yfir eftir góða sókn, litlu síðar skaut Höskuldur rétt framhjá með vinstri fæti svo að kliður fór um stúkuna. En þó að Fylkismenn kæmust varla í boltann var spil okkar manna í rólegri kantinum, svo mjög að eftir 14 mínútur reyndi Halldór að snúa lærisveina sína í gang eins og gamlan traktor. Þetta virtist hafa einhver áhrif því að Höskuldur átti lúmskt skot af eigin vallarhelmingi sem stefndi í fögrum boga í netið en markverði Fylkis tókst naumlega að slá boltann í horn.

Á átjándu mínútu áttu gestirnir sitt fyrsta skot en það var hátt yfir. Rifjaðist þá upp fyrir tíðindamanni Blikar.is  að hann þóttist hafa heyrt söng frá búningsklefa gestanna fyrir leik. Þar ómuðu þessar línur: „geym drottinn okkar dýra land / er duna jarðarstríð.“ Það þarf ekki nema meðalgreindan bókmenntaáhugamann til að túlka þetta sem svo að Fylkismenn hafi með þessu leitað ásjár hjá sömu máttarvöldum og höfðu reynt að drekkja vellinum (svo að mörgum skrikaði fótur í leiknum) í von um að þau myndu geyma /  vernda mark þeirra á meðan jarðarstríðin / sóknir heimamanna dunuðu. Svo skemmtilega vill til að höfundur ljóðsins, skáldkonan Hulda, hefði einmitt orðið 143 ára á þessum degi.

Einföld stærðfræði

Bænakvak gestanna dugði enn um sinn. Ísak skallaði yfir eftir aukaspyrnu Höskuldar. Skot Arons Bjarnasonar endaði í horni. Á 30. mínútu dansaði Kristinn Jónsson hins vegar í gegnum vörn gestanna eins og hann væri mættur á ballið sem Jörundur hundadagakonungur hélt í Reykjavík á þessum degi árið 1809 og var felldur. Ekkert var dæmt, enda barst boltinn á sama augnabliki til Ísaks í teignum en áður hann náði að gera sér mat úr því var hann líka þrumaður niður. Réttsýnn dómari leiksins dæmdi að sjálfsögðu víti (sem hefðu eiginlega átt að vera tvö) og skoraði Höskuldur úr því af miklu öryggi. Staðan orðin 1-0 og hálftími liðinn af leiknum.

Einföld þríliða þýddi að á níutíu mínútum ættu Blikar samtals að skora þrjú mörk – nema stærðfræðin væri eitthvað að vefjast fyrir tíðindamanni Blikar.is. Það væri þá ekki í fyrsta skipti.

Áfram bönkuðu okkar menn á dyrnar hjá Fylkismönnum. Damir þrumaði í varnarvegginn úr aukaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Ísaki við teiginn. Aron spólaði sig í gegnum vörnina en skot hans var varið. Gestirnir klóruðu í bakkann á lokasekúndum fyrri hálfleiks, sendu fastan bolta fyrir en Damir bægði hættunni frá. Frekar en ekki neitt renndi sóknarmaðurinn sér í netið með höfuðið á undan en dómarinn neitaði að dæma mark.

Nauðvörn

Í hálfleik fannst ýmsum sem okkar menn væru á hálfum hraða, þeir ættu að geta keyrt yfir lið Fylkis sem virtist litla trú hafa á því að þeir gætu sótt gull í greipar Kópavogspilta. Enda voru áhorfendur varla sestir þegar Kristinn Jónsson óð upp kantinn, gaf fyrir þar sem Ísak kom aðvífandi en skot hans fór í horn. Höskuldur tók hornspyrnuna og upp úr henni hrökk boltinn fyrir fætur Viktors Arnar sem skoraði algjörlega fumlaust. Staðan orðin 2-0.

Við þetta virtist trú Fylkismanna á því að þeir myndu hafa erindi sem erfiði á Kópavogsvelli dvína enn. Aron og Höskuldur prjónuðu sig í gegnum vörnina þannig að Kristinn  Steindórsson fékk boltann í miðjum teig en skaut í varnarmann. Aftur var hann á ferð nokkrum mínútum síðar en aftur komst varnarmaður fyrir skotið.

Þegar 60 mínútur stóðu á klukkunni kom Davíð Ingvarsson inn á fyrir Kristófer Inga. Mínútu síðar skutu gestirnir á markið en Anton Ari var með þetta allt á hreinu. Á 66. mínútu kom langur vonarbolti út úr vörninni sem virtist ekki neitt sérstaklega úthugsaður. Hann sveif meðfram hliðarlínunni og bjuggust áhorfendur ekki við öðru en að varnarmaður gestanna myndi leysa úr þessari einföldu stöðu. Nema hvað. Kom þá ekki Ísak Snær aðvífandi, ógnandi með hraða sínum og krafti, spyrnti boltanum upp kantinn og tók á rás. Varnarmaðurinn hafði ekki hugmynd um hvaðan á sig stóð veðrið og reyndi að hefta för Ísaks. Það endaði með nauðvörn innan teigs sem kostaði víti og gult. Aftur fór Höskuldur á punktinn og skoraði af enn meira öryggi en í fyrri hálfleik.

Ef andstæðingurinn fær ekki boltann

Ísak, Kiddi Steindórs og Viktor Karl fóru út af og inn á komu Patrik, Stokke og Arnór Gauti. Skömmu síðar fór Aron Bjarnason út af fyrir Tuma Fannar sem fagmenn myndu líkega kalla „youngster“, enda fæddur árið 2005. Litlu síðar spændi hann sig í gegnum vörn gestanna eins og hann hefði umbreyst í annað afmælisbarn dagsins, Robin van Persie, en skot hans fór í varnarmann. Undir lokin áttu Patrik og Davíð hvor sitt skotið án þess að úr yrði mark – enda hafði þríliðan þá þegar gengið upp.

Leikurinn á Kópavogsvelli á þessu þriðjudagskvöldi mun líklega ekki rata í sögubækurnar fyrir leiftrandi fjör en hann sannaði að það minnkar líkurnar töluvert á því að andstæðingurinn skori að hann komist ekki í boltann. Blikar leystu þetta fagmannlega af hendi, sigurinn var aldrei í hættu og gengu áhorfendur glaðir út í kvöldið með hlutabréf sín í sólarlaginu. Framundan er útileikur á móti Stjörnunni og er hætt við því að Garðbæingar mæti þar eins og öskrandi ljón eftir hrakfarir sínar í Úlfarsárdal í kvöld á móti Fram. Okkar menn þurfa því á öflugum stuðningi að halda á sunnudaginn í eltingarleiknum við Fossvogspilta.

PMÓ

Til baka