BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Seiglusigur fyrir norðan!

02.09.2024 image

Blikar héldu áfram sigurgöngu sinni í Bestu deild karla þegar þeir lögðu KA að velli 2:3 á Greifavellinum á Akureyri í gær. Sigurinn var torsóttur en með mikilli seiglu og krafti náðum við að knýja fram sigur undir lok leiksins, annan leikinn í röð.  Þar með höldum við toppsætinu í deildinni og lofar þessi sigur góðu fyrir framhaldið.

Það blés ekki byrlega í orðsins fyllstu merkingu þegar Blikaliðið mætti snemma út á Reykjavíkurflugvöll á sunnudagsmorguninn.  Vélarbilun olli því að allt flug norður fór úr skorðum. Það var ekki fyrr en eftir hádegi að bunka af ferþegum var smalað í þotu og flogið í hendingskasti til Akureyrar. Eins og gefur að skilja voru þetta ekki úrvalsaðstæður til undirbúnings en Blikahópurinn lét þetta ekki slá sig út af laginu.

Hávaðarok var á Akureyri í gær og það setti auðvitað svip sinn á leikinn. En markavélin Daníel Obbekjær skoraði fyrsta markið í leiknum í gær þegar hann fylgdi vel á eftir aukaspyrnu Kristins Jónssonar á 21 mínútu. Ótrúlega tölfræði þessa geðþekka Dana sem hefur skorað í öllum leikjum sínum með Blikaliðinu þegar hann hefur verið í byrjunarliðinu. Reyndar var mark hans gegn Skagamönnum í síðustu umferð ranglega dæmt af en engu að síður frábær árangur hjá Baunanum okkar.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Varnarvinna okkar Blika klikkaði illilega þegar einn KA maðurinn fékk að valsa upp nánast allan völlin og það endaði með að rakarasonurinn frá Selfossi setti knöttinn í netið á mjög ósmekklegan hátt að mati allra Blika. Staðan í leikhléi því 1:1.

Baráttan hélt áfram í síðari hálfleik. Á 51 mínútu sýndi Davíð Ingvason snilli sína þegar hann snýtti hægri bakverði heimapilta og sendi þéttingsfasta sendingu inn í teiginn. Þar mætti engin annar en Ísak Snær Þorvaldsson og sendi knöttinn í netið með ákveðinni spyrnu í bláhornið.

Héldu nú Blikar norðan og sunnan heiða að björninn væri unninn. En aftur sofnuðum við á verðinum og létum þá gulklæddu jafna leikinn.

Sem betur ferð eigum við algjöran snilling á varamannabekknum, Kristófer Inga Kristinsson. Hann kom inn á og skoraði sigurmarkið með bylmingsskoti átta mínútum fyrir leikslok þannig að karl faðir hans tárfelldi fyrir fram sjónvarpsskjáinn í Garðabænum! Þetta er annar leikurinn í röð sem Kristófer Ingi kemur inn á sem varamaður og skorar mikilvægt mark.

Þrátt fyrir að Kristófer Ingi hafi staðið sig vel þá getur Blikaliðið, að öllum öðrum ólöstuðum, þakkað Antoni Ara markverði sigurinn í leiknum. Hann stóð sig gríðarlega vel og varði meðal annars tvívegis frábærlega í uppbótatíma frá KA mönnum. Svona frammistaða færir liðum meistaratitla!

Nú tekur við ½ mánaðar pása á Bestu deildinni vegna landsleikjahlés. Þá mætum við grönnum og okkur og vinum úr HK í lokaleik hefðbundinnar deildakeppni. Þeir rauðhvítu unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Fram í gær og lyftu sér úr fallsæti með þeim sigri. Við höfum áður hrasað gegn HK þannig að nú þurfa menn að hafa fókusinn algjörlega í lagi. Við gerðum það í fyrri leiknum gegn þeim og þurfum að endurtaka þá frammistöðu. Ekki þýðir að spila einhvern dúkkufótbolta heldur verður að koma eins og grenjandi ljón i þann leik. Munum að markatala getur ráðið úrslitum hvort við vinnum deildakeppnina eður ei. Og fáum þar með heimaleikjarétt gegn næsta liði!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP           

@breidablikfc

RISA þrjú stig á AK ????????

♬ No Face - Drake

Til baka