Sigurmark stjörnunnar í uppbótartíma
24.04.2025


Óneitanlega var nokkur spenna fyrir leikinn við Stjörnuna. Ekki svo að skilja að ég hafi nokkru sinni upplifað einhvern sérstakan ríg á milli félaganna, eins og margir virðast gera ráð fyrir að sé til staðar.
Fyrir leik
Þeir heimaleikir Blika sem eru búnir, við KA í meistarakeppni KSÍ, Aftureldingu í Bestu deildinni og Fjölni í Mjólkurbikarnum hafa allir verið fínir – veit að vísu ekki mikið um Fjölnisleikinn, hann var ekki sýndur og ég var (aldrei þessu vant) á flakki – en ef eitthvað var þá fannst mér að færanýtingin hefði mátt vera betri og sigrarnir þar af leiðandi stærri.
Eini útileikurinn var nokkuð furðulegur og kannski / vonandi ekki til að dvelja lengi við.
En Stjörnumenn eru með góðan þjálfara, Jökul Elísabetarson, sem átti stóran þátt í fyrsta Íslandsmeistaratitli Blika í karlaflokki og Stjarnan hefur spilað skemmtilegan og góðan fótbolta undir hans stjórn.
Stjörnumenn hafa byrjað vel, þrír sigrar – sá fyrsti reyndar í boði furðulegrar gjafar í fjarveru marklínutækni og bikarsigur eftir framlengingu í boði markvarðar mótherjanna. Kannski jafnast svona út – kannski gefur þetta þeim sjálfstraust. Best að vera ekkert að láta á það reyna!
Mesta forvitnin við liðsuppstillingu Blika snerist um miðverðina. Þjálfararnir hafa þann lúxus hausverk að hafa úr mjög mörgum frábærum leikmönnum að velja, ekki bara í miðvarðarstöðuna. Ég á eins von á að Daniel eða Ásgeir komi inn í miðja vörnina. Sóknarmenn Stjörnunnar eru nokkuð útsjónarsamir og skæðir þannig að kannski er vissara að hafa leikmenn sem þekkja þessar stöður vel.
Upphitun
Ég mætti svo tímanlega í upphitun vel fyrir leik, kannski aðeins of fljótur að kaupa hamborgara, svona af gömlum vana – steikin frá Brasserie Kársnes leit nokkuð vel út og sama gilti um bökurnar frá Arctic Pies. En fínt spjall við Gylfa og fleiri áður en Dóri kom og sagði aðeins frá uppstillingu liðsins. Ásgeir kom í miðvörðinn, Aron, Viktor Karl og Anton Logi byrjuðu á bekknum og Ágúst Orri fékk tækifæri í byrjunarliðinu. Meira spjall við fleiri stuðningsmenn og kannski varkár bjartsýni hafi legið í loftinu.
Pétur Ómar þurfti svo að undirbúa að afhenda Antoni Ara viðurkenningu fyrir tvö hundraðasta mótsleikinn fyrir Breiðablik. Við Björgvin kváðum aðeins, Anton Ari?? Er hann ekki nýkominn? En þetta stóðst auðvitað skoðun…
Fyrir leikinn afhenti Ragna Björg Einarsdóttir, stjórnarmaður í knattspyrnudeild Breiðabliks, Antoni Ara Einarssyni viðurkenningu fyrir 200 mótsleiki með Breiðabliki en Anton náði þeim áfanga í opnunarleik Bestu deildarinnar á Kópavogsvelli gegn uppeldisfélaginu - Aftureldingu
Andri Rafn lék sinn þrjú hundraðasta leik í efstu deild og þar með kominn í fámennan hóp – og ekki betur séð en að hann eigi nóg eftir.
Leikurinn
Leikurinn byrjaði rólega en Blikar náðu fljótlega yfirhöndinni, vörn Stjörnunnar tók tvö skot úr þokkalegum færum og Árni Snær markvörður þeirra varði vel í eitt skiptið.
Svo kom þetta furðulega mark.. ég sá boltann fara fram hjá og var farinn að líta annað þegar Sverrir byrjaði að fagna fyrir aftan mig – og jú, mikið rétt, boltinn hafði einhvern veginn lekið í netið.
Stjörnumenn reyndu að rífa sig í gang en eftir nokkrar mínútur tóku Blikar öll völd á vellinum, fleiri skot sem vörn og markvörður Stjörnunnar vörðu, nokkur fram hjá í álitlegri stöðu og lítið sem ekkert að frétta á hinum helmingi vallarins.
Fínasta kaffi hjá Blikaklúbbnum í Smáranum og almennt voru menn sáttir við góðan leik og fína frammistöðu. Forskotið hefði mátt vera meira og ekki mátti vanmeta öfluga sóknarmenn gestanna. Ætli Smári hafi ekki orðað þetta ágætlega, sagðist hafa verið mun rólegri í hálfleik á Framleiknum.
Enda fór svo að Stjarnan náði þessu leiðindamarki fljótlega eftir leikhlé.
Áfram héldu Blikar að sækja, Óli Valur mjög ógnandi en allt kom fyrir ekki, Árni Snær markvörður þeirra (sennilega besti maður liðsins) varði það sem vörnin tók ekki og ef það dugði ekki til þá endaði boltinn í stöng eða slá.
Venjulegur leiktími liðinn og ég var farinn að semja lokaorðin fyrir þennan pistil á þeim nótum að þetta hafi verið flott frammistaða og það skipti meira máli en úrslitin, ég færi á völlinn til að horfa á skemmtilegan fótbolta, ekki til að lesa úrslit. Auðvitað væri alltaf skemmtilegra þegar frábær frammistaða skilar góðum úrslitum en ég myndi ekki vilja skipta.
Mér fannst nokkuð ljóst að gestirnir yrðu mun sáttari við jafnteflið – ekki svo að skilja að þeir væru ekki að reyna, en þeir voru ólíkir sjálfum sér, amk. ef dæma má af þeim leikjum sem ég hef séð – liðið hefur oft spilað betri og skemmtilegri fótbolta, þarna var meira um langar sendingar fram upp á öfluga framherja og upp á von og óvon. Ekki ætla ég að „saka“ þá um sparka-og-spretta fótbolta með löngum innköstum, en það er einfaldlega lítið annað í boði þegar Blikar mæta þetta öflugir til leiks.
Rétt þegar ég var kominn með lokakaflann á hreint þá steig Höskuldur upp og náði frábæru skoti neðst í hornið.
Verðskuldaður sigur eftir góða frammistöðu – ég hef ekki áhyggjur af sumrinu ef þessi leikur er einhver vísbending – jú, það mætti nýta færin betur en það kemur.
Óli Valur var valinn maður leiksins og ég hef engar athugasemdir við það, mjög öflugur, en margir áttu virkilega góðan leik, Höskuldur var auðvitað frábær, „stjarna“ kvöldsins – hvað sem nafni mótherjanna líður - og hefði kannski verið valinn maður leiksins ef ekki kæmi til þessi undarlegi siður að velja mann leiksins áður en leik er lokið.
Ásgeir spilaði (held ég) sinn fyrst byrjunarliðs leik í deildinni síðan 2023 og var mjög öflugur gegn erfiðu liði, sennilega með betri frumraunum í svona stöðu í langan tíma. Ágúst Orri átti líka mjög góðan fyrsta alvöru byrjunarliðsleik og Andri Rafn er svo „ekkert unglamb að leika sér við“, Kiddi átti mjög góðan leik og… og.. og ætli það sé ekki einfaldara að nefna að það átti í rauninni enginn slakan leik í kvöld.
Tölfræði
Það er stundum sagt að leikir vinnist ekki á tölfræði. Þetta er auðvitað í fyrsta lagi ákveðinn útúrsnúningur, það er enginn að biðja um stig fyrir tölfræðina, en tölfræðin getur verið mjög gagnleg.
En tölfræðin getur lagt grunninn að sigri í næstu leikjum, jafnvel í miðjum leik. Vissulega segir hún sjaldnast meira en glöggt þjálfara auga greinir, en stundum geta augljósir hlutir ekki verið svo augljósir.
Það rifjast upp fyrir nokkuð löngu, eða um þrjátíu árum, þegar ég var að taka saman tölfræði fyrir Blika að á undirbúningstímabilinu var liðið að spila frábæran leik, nánast allan á vallarhelmingi andstæðinganna og mikið til inni í þeirra vítateig. En staðan í hálfleik var 0-0 („staðan er 0-0, leikurinn markalaus, hvorugu liðinu hafði tekist að skora og við biðum enn eftir fyrsta markinu“ – svo ég vísi nú í ástsælan þul). Í leikhléinu benti ég á að við hefðum samt ekki átt eitt einasta skot á mark. Þetta kallaði á augljósa breytingu á nálgun og leikurinn vannst 6-0.
Sem sagt, tölfræði gærdagsins, í boði SofaScore (sem vonandi má vitna til):
-
xG: 2,08-0,29
-
Skot: 21-6
-
Á mark: 8-2
-
Horn: 8-3
-
Markvörslur: 1-6
Þá er ekki verra að hafa tölfræðina til að styðjast við þegar kemur að því að þrasa við stuðningsmenn annarra liða – og jafnvel óánægða Blika. Einn félaginn sagði Blika hafa verið undir í leiknum við Aftureldingu og þakkaði fyrir með gömlu tuggunni að vera feginn að það séu mörkin sem telja. Það var fljótafgreitt með afdráttarlausri tölfræði!
Framhald
Framhaldið lofar góðu, margir erfiðir og spennandi leikir framundan.. verkefni sem ég hef tröllatrú á að liðið leysi vel. Enda hópurinn stór og margir frábærir leikmenn til taks - hvorki Anton Logi, Gabríel né Daniel komu við sögu í kvöld og svo eigum við Davíð, Kristófer og Kristinn Jóns inni. Og ég er ekkert að gleyma mjög mörgum bráðefnilegum leikmönnum.
Mótherjar kvöldsins eru með fínt lið og líklegt að þeir verði í keppninni um amk. Evrópusæti.
Valgarður Guðjónsson