BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

SLYS Í ÚLFARSÁRDAL

14.04.2025 image

Stundvísasti maður Íslands flautaði fyrir utan Digranesheiði 39 kl. 18.27 sunnudaginn 13. apríl. Fimm mínútum fyrir áætlaða brottför. Fyrir vikið gleymdi tíðindamaður Blikar.is að taka með sér ullarteppi í þá langferð sem fyrir höndum var. Framundan var reisa upp í Úlfarsárdal en fyrir þá sem ekki vita liggur hann sunnan við Mosfellsdal, undir Úlfarsfelli. 

Við stýrið var sem sagt gamalgróinn Kópavogsbúi, kennari, ökukennari og hestamaður en nýtur að öðru leyti nafnleyndar, – nema hvað hann er líka mágur tíðindamannsins. 

„TENERIFE NORÐURSINS“

Við vorum á leið á leik Fram og Breiðabliks í annarri umferð Bestu deildar karla. Það var hugur í mönnum, okkur fannst vel hafa tekist til við að endurnýja liðið, komnir væru ungir og ferskir piltar og reynslumikill stormsenter – þetta yrði frábært sumar.

Hitinn nálgaðist frostmark, það var norðaustan garri, sólin gægðist í gegnum skýin. Þó hefði ekki átt að væsa um áhorfendur í stúkunni í efra, enda hefur fremsti fótboltaskríbent landsins margoft lýst veðurblíðunni á þessum bletti þannig að maður hefur trúað því að þarna sé Tenerife norðursins.

Óhætt er að setja gæsalappir utan um þá nafngift. Það er skemmst frá því að segja að í stúkunni var mjög kalt og betra hefði verið láta þann stundvísa bíða og stökkva aftur inn eftir ullarteppi.

Halldór og hans menn tefldu fram sömu mönnum og á móti Aftureldingu, nema hvað Andri Rafn kom inn fyrir Gabríel í vinstri bakvörð (þeir skiptu í hálfleik) en annars var liðið þannig skipað:

Byrjunarlið: 1. Anton Ari Einarsson (m) - 6. Arnór Gauti Jónsson - 7. Höskuldur Gunnlaugsson (f) - 8. Viktor Karl Einarsson - 9. Óli Valur Ómarsson - 11. Aron Bjarnason - 13. Anton Logi Lúðvíksson - 17. Valgeir Valgeirsson - 21. Viktor Örn Margeirsson - 30. Andri Rafn Yeoman - 77. Tobias Thomsen

Varamenn: 12. Brynjar Atli Bragason (m) - 2. Daniel Obbekjær - 4. Ásgeir Helgi Orrason - 10. Kristinn Steindórsson - 15. Ágúst Orri Þorsteinsson - 24. Viktor Elmar Gautason - 25. Tumi Fannar Gunnarsson - 29. Gabríel Snær Hallsson - 31. Gunnleifur Orri Gunnleifsson.

GAMMUR Á FJÆRSTÖNGINNI

Það kom fljótlega í ljós að annað liðið á vellinum er ríkjandi Íslandsmeistari en hitt hafði barist í neðri hlutanum í fyrra. Léttleikandi Blikar héldu heimamönnum í heljargreipum, spiluðu fallega og hratt á milli sín, ákefðin var mikil, Frammarar fengu engan frið og sendu boltann helst yfir girðinguna niður að Úlfarsánni í sannkallaðri örvæntingu.

Heimamenn spiluðu fast og mátti glöggt sjá fingraför Rúnars Kristinssonar á liðinu – eða fangbrögð, öllu heldur. Á 17. mínútu lentu Arnór Gauti og leikmaður númer 10 í liði Frammara einmitt í nefndum fangbrögðum á miðjum velli. Dómarinn beið með að flauta á Brasilíumanninn og loks hafði okkar maður betur við hávær mótmæli tíunnar. Á meðan geystist Óli Valur upp vinstri kantinn og lúðraði boltanum fagmannlega í hornið fjær. 1-0.

image

Tuttugu mínútum síðar sendi Aron Bjarnason fallega fyrir mark heimamanna. Á fjærstöngina var Tobias Thomsen auðvitað mættur eins og gammur og afgreiddi boltann snyrtilega í netið. 2-0.

image

Að öðru leyti voru okkar menn með boltann. Heimamenn eltu. Þeir fengu að vísu fáeinar hornspyrnur sem ýttu aðeins við hjartanu sem var farið að slá örlítið hægar í kuldanum en það var ekkert að óttast.

Svo kom hlé. Og hlé geta breytt leikjum.

ÆRLEGUR SÉRVITRÍNGUR

Áhorfendur þustu inn í hlýjuna og voru langt að komnir Blikar býsna roggnir. Sjálfsöryggið skein úr hverju andliti. Þetta liti vel út, það væri miklu meiri kraftur í okkar mönnum en á móti Aftureldingu og þar fram eftir götum. Með öðrum orðum: það væri ekkert að óttast, frekar að búist væri við fleiri mörkum Íslandsmeistaranna.

Nú er rétt að taka það fram að tíðindamaður Blikar.is er ekki þjálfaður blaðamaður og kannski ekki alltaf með allt á hreinu. Sem dæmi má nefna að hann var enn með sólgleraugu þegar gengið var út úr hlýjunni í skýjað og hrollkalt kvöldhúmið. Hann þóttist greina nokkur skot hinum megin á vellinum á mark okkar manna en þegar komið var fram á 65. mínútu varð ekki lengur undan því vikist að setja upp venjuleg gleraugu. Þá var gerð tvöföld skipting, Kristinn Steindórsson og Ágúst Orri komu inn fyrir Aron Bjarnason og Viktor Karl. 

Eitthvað gekk tíðindamanninum illa að setja upp gleraugun í kuldanum, fingurnir voru loppnir, hendurnar titruðu og ullarteppisins sárt saknað. Í öllu þessu brasi hvarf athyglin af leiknum, sem er auðvitað dauðasynd hjá blaðamanni á slíkum viðburði, og hugurinn reikaði upp í holtið fyrir ofan völlinn. Það rifjaðist upp að Björn Bjarnason hreppstjóri keypti árið 1898 jarðirnar Gröf og Grafarkot og sameinaði í eina og nefndi Grafarholt. Hann var þingmaður Borgfirðinga um skamma hríð og felldi þar sjálfan Grím Thomsen í kosningum (nei, þeir Tobias eru ekkert skyldir). Kannski varð sigurinn á Grími til þess að hann gerðist „eitt þeirra skálda er ort hafa upp ljóð Jónasar Hallgrímssonar í betrumbótarskyni, og segi ég þetta ekki okkar gamla hreppstjóra og föður einnar bestu vinkonu minnar til hnjóðs, heldur til að minna á að núna eru menn svo dauðir úr öllum æðum að eiginn þorir leingur að vera ærlegur sérvitríngur,“ eins og Halldór Laxness skrifaði í minningabók sinni Í túninu heima. Ég fór líka að velta því fyrir mér hvort þetta væri ástæða þess að mikill Frammari og helsti sérfræðingur þjóðarinnar í skáldskap Jónasar Hallgrímssonar (og nýtur nafnleyndar en er reyndar útgáfustjóri Bjarts) forðast það í lengstu lög að sækja leiki sinna manna í ríki Björns Bjarnasonar hreppstjóra, alþingismanns og sýslunefndarmanns til fjörutíu ára sem taldi sig geta lappað upp á ljóð listaskáldsins góða.

KRÓKLOPPNIR EN NOKKUÐ BRATTIR 

Nema hvað, þegar tíðindamaðurinn var loksins búinn að koma gleraugunum á sig var 81 mínúta á klukkunni og staðan allt í einu orðin 4-2 heimamönnum í vil. Að vísu hélt sessunauturinn úr Kópavogi því fram að í stöðunni 2-0 hefðu Blikar átt að fá tvö víti með mínútu millibili en dómarinn ofan af Akranesi ekki þóst taka eftir neinu. Hann nefndi einnig að það hefði myndast hálkublettur við vítateig okkar manna og sitthvað fleira sem hefði verið Blikum mótdrægt.

Ferð Blika í Grafarholtshverfið ofan Grafarvogs var með öðrum orðum ekki til fjár. Okkar menn voru sjálfum sér verstir. (Einhver myndi jafnvel segja „sér grefur GRÖF, þótt grafi“.) Krókloppnir vorum við mágarnir samt nokkuð brattir. Mótið er rétt að byrja og betra að taka út öll vondu mistökin í einum leik en að dreifa þeim yfir lengri tíma. 

Á föstudaginn langa mæta okkar menn Fjölni í bikarnum á Kópavogsvelli og verður það kærkomið tækifæri til að sýna að seinni hálfleikurinn í landi Björns Bjarnasonar hreppstjóra var slys sem ekki gerist aftur. Ekki frekar en að ullarteppið gleymist aftur heima.

PMÓ

Til baka