BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

SÖGULEGUR SIGUR Í SAMBANDSDEILDINNI

12.12.2025 image

Er dyrnar að nýju vestari stúku Laugardalsvallar opnuðust sléttum klukkutíma fyrir leik flæddu u.þ.b. 250 hressir, skemmtilegir og umfram allt kurteisir Írskir stuðningsmenn Shamrock Rovers inn. Við vorum þrír á bjórvaktinni Íramegin og má sannarlega segja að salan hafi gengið vel enda Írar með eindæmum frægir fyrir bjórþorsta sinn. Talið er að um 35-40% Íslendinga séu runnir undan rifjum Íra og fór því leikurinn innan sem utan vallar fram í hinu mesta bróðerni.

Byrjunarlið Breiðabliks:

Okkar menn byrjuðu leikinn að miklum krafti, vorum að komast í frábærar stöður sem við vorum algjörir klaufar að nýta ekki betur. Stephen Bradley þjálfari Shamrock leist svo illa á blikuna að hann skipaði markverði liðsins að leggjast í grasið eftir ekki nema fimm mínútur og kallaði alla leikmenn sína til sín í eiginlegt leikhlé. Endurskipulagning þjálfarans virkaði þar sem Írarnir rönkuðu sér við þarna og unnu sig inn í leikinn.

Eftir 15. mínútur og kafla sem Shamrock einokuðu boltann gerði Ágúst Orri vel og tók frábærlega á móti boltanum, komst í gott færi en skaut rétt framhjá. Hefði verið glæsilegt mark. Eftir þetta færi jafnaðist leikurinn nokkuð út. Þar sem liðin skiptust á að vera með yfirhöndina á köflum leiksins.

Á 32. mínútu, sóttu Shamrock hratt eftir að hafa unnið boltann á sínum vallarhelming. Rory Gaffney, framherjinn nr. 20 hjá Shamrock gerði þar vel og bar boltann upp völlinn og kom honum fyrir sem endaði með að Graham Burke sem náði að snúa og koma með gott skot á nærstöngina. 1-0. Við tókum þessu þó ekki þegjandi og svöruðum strax á 35. mínútu. Stutt horn Davíðs á Óla Val, þeir voru komnir tveir gegn einum íranum Óli keyrði upp að endalínu og hamraði honum fyrir þar sem Viktor Örn Margeirsson gerði sitt fyrsta evrópumark! Svona á að gera þetta!

Staðan hélst 1-1 fram að hálfleik og tók þá við hörkuvakt hjá undirrituðum að selja þeim írsku öl. Eitt sem verður svo að nefna er hversu gott hybridgrasið á Laugardalsvelli er. Það er komið djúpt inn í desember og völlurinn var glæsilegur. Það má alveg kasta fram þeirri hugmynd hvort að Kópavogsvöllur þurfi ekki að fá slíkt gras.

Við komum sterkir út í fyrri hálfleik og var mikil barátta og ákefð allan leikinn. Shamrock voru fyrri til að gera skiptingar og virtust Blikarnir inn á vera að byrja að þreytast, sérstaklega fremstu menn sem höfðu hlaupið verulega mikið. Shamrock virtust líklegri þegar við náðum upp góðum spilkafla á 73. mínútu sem endaði með að Ágúst Orri færði boltann frá vinstri kanti inn á miðju á Viktor Karl sem kom honum út til hægri á Óla Val sem fór inn á vinstri fótinn og mundaði. Hnitmiðað skot hans söng í fjærhorninu 2-1. Fáranlega vel gert hjá Óla Val!

Eftir markið kom Kristófer Ingi inn fyrir Aron Bjarnason og var það okkar fyrsta skipting. Nú tók stressið við. Full langt var til loka leiks, Írarnir voru þó hvergi líklegir. Beittu í sífellu löngum boltum úr innköstum eða aukaspyrnum, jafnvel á eigin vallarhelming, sem auðvelt var að verjast. Varnarlínan með Damir og Viktor Örn í broddi fylkingar stóð eins og klettur sem ekkert gat haggað. Á 88. mínútu gerðum við skiptingu er Gabríel Snær og Kristinn Jónsson komu inn á fyrir Andra Rafn og Ágúst Orra. Ágúst Orri hafði verið mjög líflegur allan leikinn og réðu Shamrock menn oft illa við hann.

Nú sló klukkan 90 mínútur og tilkynntu dómarar að fjórum mínútum væri bætt við. Hugmyndasnauðir Shamrock menn fengu hornspyrnu á 91. mínútu, og fullbráður markvörður Shamrock keyrði upp til að fjölga í sókninni. Inn kom hornspyrnan og markvörðurinn náði næstum að flugskalla boltann en við náðum að hreinsa til Kidda Jóns sem stormaði upp völlinn og yfir á vallarhelming Íranna og tók mjög hnitmiðað skot sem ég hélt að væri að fara langt framhjá en söng í hliðarnetinu. Fyrsta evrópumark hans. 3-1 leik lokið og fyrsti sigur okkar í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar staðreynd. Sögulegt.

Stígandi í leik liðsins hefur verið áberandi síðan Ólafur Ingi tók við þjálfun liðsins. Leikmenn sem voru rúnir sjálftrausti eru að stíga upp og verða að bestu mönnum inn á vellinum, vil ég nefna Óla Val hér sérstaklega sem var klárlega maður leiksins í gærkvöldi. Séð úr stúkunni virkar Ólafur Ingi vera frábær í að stappa stálið í mönnum, er það einungis metið út frá því þegar leikmenn fara út af vellinum, rosalegar móttökur sem Ólafur veitir þeim áður en sest er á bekkinn.

Leikurinn í gærkvöldi var seinasti heimaleikur Damir Muminovic, hann hefur staðið sem klettur í vörn Breiðabliks í 11 ár. Fólk mun lengi tala um samband hans og Elfars Freys og síðar Viktors Arnar í vörn Blika. Tveir íslandsmeistaratitlar, tvær úrslitakeppnir Sambandsdeildar. Hann er besti varnarmaður í sögu félagsins, takk fyrir allt kæri Damir og gangi þér vel í Grindavík.

Á opnum fundi Breiðabliks með Ólafi Inga í nóvember spurði ég hann tvíþátta spurningu, annars vegar hvað honum fyndist vera raunhæft að sækja mörg stig það sem eftir væri að deildakeppni Sambandsdeildarinnar. Hann sagði að stig gegn Samsonspor og sigur gegn Shamrock væri vel raunhæft. Hann hefur staðið við það. Hin spurningin sneri að markmiðum næsta sumars. Allir sem þetta lesa eiga að vita hverju hann svaraði…

Freyr Snorrason

Til baka