Stefán Ingi kláraði Selfyssinga
05.02.2023Mynd: Byrjunarlið Blika í leiknum
Blikar unnu Selfyssinga 3:1 í fyrsta leik Lengjubikarsins árið 2023. Leikurinn fór fram í Fífunni við góðar aðstæður og fylgdust fjölmargir áhorfendur með leiknum. Blikar komust yfir með ágætu marki Patriks Johannessen undir lok fyrri hálfleiks eftir góðan undirbúning Kristíns Steindórssonar. Selfyssingar neituðu að gefast upp og jöfnuðu með marki úr vítaspyrnu fljótlega í síðari hálfleik. En Blikar sýndu mátt sinn og megin og Stefán Ingi tryggði þeim grænklæddu sigurinn með tveimur ágætum mörkum. Sérstaklega var fyrra markið hans stórglæsilegt.
Selfyssingar tefla fram ungu og efnilegu liði og þeir létu Blikana hafa fyrir hlutunum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Okkur tókst illa að skapa okkur færi framan af leik og það var ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiks að færin fóru að sjást. Patrik sýndi að hann er baneitraður inn í teignum og kláraði færið sitt vel en undirbúningur Kidda Steindórs var góður. Margir héldu að Blika myndu láta kné fylgja kviði í seinni hálfleik en þrátt fyrir góða byrjun þá tókst okkur ekki að auka við forskotið. Selfyssingar náðu skyndisóknum og úr einni þeirra fiskuðu þeir vítaspyrnu. Það var reyndar strangur dómur en það þýðir ekki að deila við dómarann. En Stefán Ingi sýndi það og sannaði enn aftur hve öflugur framherji hann er. Sóknarleikur Blikaliðsins varð mun beinskeyttari eftir að hann kom inn á eftir leikhlé. Fyrra markið Stefáns Inga var sannkallað augnakonfekt, hann fékk knöttinn út á kantinum, lék i átt að vítaeignum og lét bylmingshögg reiða af og markvörðurinn sá ekki knöttinn fyrr en hann söng í netinu. Síðara markið kom eftir klafst í teignum en Stefán Ingi var réttur maður á réttum stað á réttum tíma og tróð tuðrunni í markið.
Blikaliðið er enn á mótunarstigi. Greinilegt að þjálfararnir eru enn að leita að réttu blöndunni. En það er enn nægur tími til stefnu og þegar baksturinn er tilbúinn þá verðum við illviðráðanlegir Næsti leikur okkar í Lengjubikarnum er gegn Kórdrengjum á Kópavogsvelli á föstudaginn kl.19.00.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
-AP