Stór áfangi hjá Andra Rafni
03.10.2022Einn af þeim gaurum sem eru að berjast við að landa Íslandsmeistaratitli í hinni nýju úrslitakeppni Bestu deildarinnar er Andri Rafn Yeoman. Hið breska ættarnafn var víst notað yfir miðaldakarla sem voru þekktir af hollustu, vinnusemi og fjölhæfni. Þess höfum við stuðningsmenn Breiðabliks heldur betur notið.
400 leikir
Sigurleikurinn gegn Stjörnunni í hinni nýju úrslitakeppni Bestu deildarinnar var leikur Andra Rafns númer 400 í grænu treyjunni. Hann er langleikjahæstur okkar manna en leikirnir skiptast þannig að 255 eru deildarleikir, 58 í deildabikar, 33 á FotboltaNet mótinu, 30 bikarleikir og 24 Evrópuleikir. Svo var það reyndar nú í ár að Andri Rafn skoraði sitt fyrsta Evrópumark, úti í Andorra um miðjan júlí.
Þessi leikjafjöldi kemur Andra Rafni í afar fámenna sveit fótboltaspilara á Íslandi. Fyrir utan okkar mann eru þeir eru ekki nema þrír, að okkur telst til, sem hafa afrekað að spila 400 leiki fyrir eitt og sama félagið. Þeir geta því tekið bridds saman Andri Rafn, KR-ingurinn Þormóður Egilsson, Hornfirðingurinn Gunnar Ingi Valgeirsson og svo Víkingurinn Halldór Smári Sigurðsson. Sá síðast taldi náði þessum áfanga nú á dögunum en Andri Rafn er yngstur þessa kvartetts að ná árangrinum.
Og Andri Rafn er enn sá eini sem hefur spilað yfir 200 leiki með Breiðabliki í deildinni. Hann hefur nú spilað 255 leiki í deildinni og er aðeins fimmtándi leikmaðurinn í sögu Íslandsmótsins sem hefur náð þeim leikjafjölda.
2022
Andri Rafn er nefnilega ekki nema þrítugur síðan fyrr á árinu og hátíðleikinn yfir þessu ári hefur ekki verið síðri þegar ungi maðurinn varð faðir í fyrsta sinn.
Framan af sumri byrjaði Andri Rafn marga leiki á bekknum en þátttaka hans í leikjum hefur aukist smátt og smátt eftir að hann náði sér af meiðslum og hann verið í byrjunarliði Óskars Hrafns upp á síðkastið. Vinnusemi, útsjónarsemi og fjölhæfni eru líklega orð sem okkur flestum finnst passa einna best við Anda Rafn en það eru ófáar stöðurnar á vellinum sem honum hefur verið treyst til að leysa í gegnum tíðina.
Þekkir titla
Andri Rafn byrjaði að spila með meistaraflokki karla hjá Breiðabliki um mitt sumar 2009, fyrir 13 árum rúmum. Það þýðir vitaskuld að hann varð bikarmeistari með Breiðabliki 2009 og Íslandsmeistari 2010. Það er mikilvæg reynsla sem munað getur um á lokametrunum nú.
Við stuðningsfólk Breiðabliks kunnum Andra Rafni bestu þakkir fyrir ósérhlífni innan vallar sem utan og hlökkum til að fylgjast með honum skrýðast grænni treyju sem oftast í viðbót.
Markaskorarinn Andri Rafn Yeoman fagar (laumu) markinu sem hann skoraði gegn UE Santa Coloma. Mynd; HVH
Við stuðningsfólk Breiðabliks kunnum Andra Rafni bestu þakkir fyrir ósérhlífni innan vallar sem utan og hlökkum til að fylgjast með honum skrýðast grænni treyju sem oftast í viðbót.