BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stórsigur á Skaganum

08.05.2022 image

ÍA og Breiðablik mættust í 4.umferð Bestu deildar karla. Það er alveg óhætt að segja að það hafi verið mikill spenningur fyrir leiknum. Fjölmiðlar, og þessir svokölluðu sérfræðingar, voru búnir að teikna leikinn upp sem enn eitt prófið fyrir Blikaliðið. Fyrsta prófið koma raunar í fyrstu umferð og mun líklega halda áfram í hverri umferð út þetta keppnistímabil. Frammistöðumat. Áður en að þessum leik kom voru Blikarnir á góðri leið, 3 sigrar í 3 leikjum.

Óskar og Halldór ákváðu að stilla upp sama byrjunarliði fjórða leikinn í röð.

image

Stuðningsmenn Skagamanna voru mættir í stúkuna í gulum og svörtum jökkum með gul sólgleraugu og höfðu hátt. Miðað við umtalið sem þeir hafa fengið bjóst undirritaður að hann væri að fara labba inn í gin ljónsins eða mæta á leik River Plate og Boca Juniors í argentínsku deildinni. Er gengið var í gegnum þvöguna til að komast að Blikamegin í stúkunni voru móttökurnar nokkur fokkjú merki frá nýfermdum unglingum (ekki mjög kristilegt það). Jæja, áfram gakk Kópacabana voru mættir til að jafna leikinn  stúkunni og gott betur. Clutchtime hélt um gjallarhornið og lét gamminn geisa.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Strax á annarri mínútu leiksins létu Blikarnir til skarar skríða. Damir með einn langan frá hægri á vinstri þar sem Davíð Ingvars fékk boltann úti á vinstri kanti og renndi honum fyrir markið þar sem Kiddi Steindórs tók hann í fyrsta og sendi hann fram hjá Árna í markinu. Kiddi tók færið sitt afar vel og tæknilega fáir sem standast honum snúning í svona færum inni í teig.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Stuðningsmenn Blika í stúkunni fundu á sér að þetta gæti orðið góður dagur og loðinn grasvöllur heimamanna yrði ekki jafn mikil hindrun og sérfræðingarnir höfðu vonað.

Á 6. mínútu varð einn að tveimur. Damir átti aftur lykilsendingu inn í vítateig Skagamanna. Eftir mikinn darraðardans hrökk boltinn til Ísaks sem skaut nánast í autt netið. Sjóðandi heitur Ísak með sitt fimmta mark á tímabilinu.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Á 12. mínútu fengu Skagamenn sitt besta færi og sending inn fyrir á Eyþór Wöhler sem tók léttan flugskalla og boltinn small í tréverkinu. Þetta var nánast fyrsta og eina sókn heimamanna í fyrri hálfleik.

Hið mikilvæga þriðja mark féll Blikamegin og þar var aftur að verki Ísak Snær sem tók hann á lofti inni í teig og smurði honum upp í skeytin. Markið keimlíkt markinu hans gegn FH. Staðan orðin 0-3 og gamla stórveldið sá ekki til sólar.

image

Isak Snæri markahæstur í Bestu með sex mörk

Blikar stjórnuðu leiknum frá A til Ö og fengu nokkur álitleg færi á meðan Skagamenn fylgdust með og þjálfarateymi gulra tóku glósur.

Í hálfleik var fólk almennt hissa á frammistöðu heimamanna því þeir höfðu sýnt gegn Víkingum að þeir gætu barist eins og ljón, það var ekki að sjá í þessum leik og Blikar ofan á í allri baráttu (klisjur).Í seinni hálfleik vonaðist maður eftir áframhaldi á góðri frammistöðu, Óskar talar um að góðar frammistöðu séu mikilvægar. Rétt Óskar! Frammistaðan var heldur betur góð og Jason Daði var nærri búinn að spæna sig í gegnum alla vörn heimamanna en Árni sá við honum. Næstur á mælendaskrá var Dagur Dan, sem hafði komið inn á í fyrri hálfleik fyrir Viktor Karl, hann gegenpressaði Brynjar í vörninni og skoraði fjórða mark Blika. Þetta mikilvæga fjórða mark var komið.

image

Fyrsta mark Dags Dan í efstu deild fyrir Breiðablik

Ísak var nærri búinn að fullkomna þrennuna er hann slapp í gegn. Óskar ákvað að gefa Ísaki hvíld á 68.mínútu. Ísak klappaði fyrir stuðningsmönnum beggja liða og ætlaði svo að fá sér sæti á bekknum hjá heimamönnum. Vanafastur eða huggun?

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

ÍA náði að klóra í bakkann og þar var að verki fyrir lánsmaður frá Blikum. Sjálfsmark frá Viktori Erni. Allt trylltist í stúkunni og nokkrir Monster-drykkir rifnir úr bakpokum ÍA ultras.

Eftir markið bjóst maður allt eins við áhlaupi heimamanna en þess í stað tóku Blikar aftur völdin á vellinum og samvinna tveggja varamanna skilaði fimmta markinu. Omar Sowe sendi boltann á Anton Loga sem þrusaði honum fram hjá Árna. Mikilvæga fimmta markið sagði einhver.

image

Fyrsta mark Antons Loga í efstu deild fyrir Breiðablik

1:5 lokatölur og Blikar tylltu sér á toppinn.

Heilt yfir ofboðslega góð frammistaða allra leikmanna liðsins. Hættulegustu færi ÍA gegn Víkingum voru úr föstum leikatriðum og þeir héldu að þeir gætu einnig stílað á það gegn okkur í dag en Anton Ari hefur verið algjör skepna í markinu og að öðrum ólöstuðum besti markvörður deildarinnar. Bakverðirnir, Höggi og Davíð, hlaupa á við fjóra. Oliver var stórkostlegur í dag og Gísli búinn að færast aðeins aftar á völlinn og vinnur gríðarlega vel fyrir liðið.

GMS

Umfjallanir annarra netmiðla

Myndaveisla í boði Hafliða Breiðfjörð / Fótbolat.net

Mörk og atvik úr leiknum í boði BlikarTV

Til baka