Súr sunnudagur
19.09.2021
Það voru þung spor fyrir leikmenn og stuðningsmenn Blika út af Kaplakrika eftir 1:0 tap gegn heimamönnum. Úrslitin þýða að við eigum litla möguleika á Íslandsmeistaratitlinum í ár þrátt fyrir að ein umferð sé eftir. Við náðum okkur engan vegin á strik í fyrri hálfleik og var engu líkara en ákveðið stress væri í gangi hjá mörgum leikmönnum liðsins. Það glitti hins vegar í gamla, góða Blikaspilið í síðari hálfleik og ef lukkudísirnar hefðu verið með okkur í liði hefðum við að minnsta kosti náð í eitt stig úr leiknum. En glatað víti og fleiri færi fóru forgörðum og því erum við ekki lengur í bílstjórasætinu fyrir Kópavogsslaginn mikla næsta laugardag.
Byrjunarliðið var svona skipað:
Dagurinn byrjaði hins vegar frábærlega. Stelpurnar í 3. flokki kvenna urðu Bikarmeistarar eftir góðan 1:0 sigur á Val á Kópavogsvelli. Kópacabanapiltar fjölmenntu á pallana og studdu stúlkurnar dyggilega. Það dugði til að Brynja Dögg Benediktsdóttir setti knöttinn í netið með góðri kollspyrnu þremur mínútur fyrir leikslok. Á sama tíma fór fram rosalegur úrslitaleikur milli Stjörnunnar og Breiðabliks á Íslandsmóti 3. flokks karla. Ásgeir Galdur Guðmundsson og Kristófer Máni Pálsson skoruðu mörk Blika í venjulegum leiktíma og það var síðan Ágúst Orri Þorsteinsson sem setti sigurmarkið í uppbótartíma. Til hamingju með þessa titla þið ungu Blikar!En þá að martröðinni okkar í Hafnarfirði. Kópavogsbúar fjölmenntu á leikinn og það verður að hrósa Kópacabanasveitinni sérstaklega fyrir frábæran stuðning allan leikinn. Þeir voru mættir rúmlega klukkutíma fyrir leik og sungu og trölluðu allan leikinn. En því miður skilaði sú stemmning sér ekki nægjanlega vel til leikmanna.
Þjálfararnir stilltu upp óbreyttu liði frá undanförnum leikjum enda hefur sá mannskapur verið að skila fjölmörgum mörkum og stigum í hús. En gamli refurinn Óli Jóh kann öll trixin í bókinni. Völlurinn var ekki vökvaður fyrir leik þannig að boltinn náði ekki að fljóta jafn hratt og hentar okkar leikstíl. Svo pressuðu FH-ingar okkur framarlega og við náðum ekki að spila nægjanlega vel út úr vörninni. Við áttum að vísu tvo þokkaleg færi í fyrri hálfleik en náðum því miður ekki að nýta þau. Hins vegar færðust heimapiltar allir í aukana og það skilaði sér í marki undir lok hálfleiksins.
Allt annað var að sjá til okkar drengja í síðari hálfleik. Þá fékk boltinn að fljóta hraðar og fljótir sóknarmenn okkar gerðu FH-ingum lífið leitt. Árni Vill sýndi snilli sína á 77. mínútu þegar hann tók lystavel á móti knettinum í vítateig heimapilta og snéri sér eldsnöggt við. Gamli Blikinn Gummi Kristjáns braut á Árna og vítaspyrna dæmd. Kættust þá Blikar um allt land en því miður var einhver allt annar Árni Vill sem tók vítaspyrnuna en venjulega. Í stað þess að skjóta í hornið niðri eins og venjulega þá þrumaði hann langt yfir markið. Til að bæta gráu ofan á svart á eymd Blika klúðraði Jason Daði á ótrúlegan hátt nokkrum mínútum síðar algjöru dauðafæri. Leikurinn rann síðan út án þess að liðunum tækist að bæta við öðru marki. Líflínu var hent til Blika þegar KR-ingar fengu vítaspyrnu á lokaandartökum leiksins í Frostaskjóli. En það var eins og örlaganornirnar væru búnar að ákveða að bikarinn færi ekki í Kópavoginn að þessu sinni og þeir svartröndóttu klúðruðu einnig sinni vítaspyrnu.
Það er þungt yfir Kópavoginum þegar þessar línur eru ritaðar. En menn mega ekki falla í eitthvað megaþunglyndi! Það dó engin og engin slasaðist. Það er enn ein umferð eftir og hver veit nema að Siggi Höskulds og hinir Blikarnir í Leiknisliðinu sýni Víkingum tennurnar í lokaumferðinni. Við þurfum að einbeita okkur að lokaumferðinni og klára þann leik með sóma.
Svo þurfa menn að horfa á framfarir Blikaliðsins á þessari leiktíð. Liðið hefur náð ótrúlega langt síðan í fyrra þannig að við getum horft bjartýn til næstu leiktíðar meðal annars með tilliti til þátttöku í Evrópukeppni. Ekkert lið skoraði fleiri mörk en við á þessari leiktíð og margt annað sem hægt er að horfa jákvætt á. Við munum koma fílefldir til leiks að ári og þá verður jafnvel enn skemmtilegra að vera Bliki!
Sjáumst á Kópavogsvelli í rosalegum Kópavogsslag næsta laugardag kl.14.00!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
-AP