BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Svekkjandi í Sambandsdeildinni!

01.12.2023 image

Blikar þurftu að bíta í það súra epli að tapa 1:2 fyrir Maccabi TelAviv í síðasta heimaleiknum í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Úrslitin voru svekkjandi því Blikaliðið var í raun betra liðið í leiknum. En í svona góðri og jafnri keppni má ekki gera mistök og tvenn varnarmistök kostuðu okkur sigurinn í leiknum.

Aðdragandi þessa leiks var dramatískur. Vitað hefur verið í langan tíma að 30. nóvember er ekki heppilegur tími til að spila grasleik á Íslandi. En UEFA var ófáanlegt til að færa leikinn með góðum fyrirvara og vísaði til reglna sambandsins að allir heimaleikir liðs yrðu að vera spilaðir á sama velli. Allt kapp var því lagt á að gera Laugardalsvöll kláran fyrir leikinn. En innan við 48 tímum fyrir leik gaf UEFA út yfirlýsingu að ekki væri hægt að spila í Reykjavík og leikurinn yrði því á Kópavogsvelli. Sama velli og sambandið var búið að dæma óhæfan til leikja í riðlakeppni Evrópu!

En leikurinn fer ekki síður í sögubækurnar fyrir gríðarlega miklar varúðarráðstafanir fyrir og á meðan á leik stóð. Ástæðan var sú að menn bjuggust við mótmælum vegna hernaðar Ísraelsmanna á Gaza ströndinni. Búið var að girða innganginn að leikmannaaðstöðunni af og komst engin þangað inn nema nánast fuglinn fljúgandi. Fílefldir lögregluþjónar ásamt öflugustu mönnum Kidda keðju öryggisstjóra sáu til þess að engin komst nálægt leikmönnunum nema þeir sem höfðu þar til gerð réttindi. Þar að auki beið sérsveit lögreglunnar í Smáranum ef upp úr myndi sjóða fyrir leik.

Andrúmsloftið var því lævi blandið þegar mótmælendur fóru að streyma að skömmu áður en leikurinn hófst. En það verður að hrósa bæði lögreglu og mótmælendum fyrir skynsamlega framkomu. Lögreglan þrengdi ekki að hópnum og fólkið hélt sig við friðsamleg en nokkuð hávaðasöm mótmæli. Um 100 stuðningsmenn Palestínu létu vel í sér heyra en nokkrir veifuðu fána Ísraels. Smá orðaskak var á milli hópanna en lögreglan stýjaði þeim í sundur. Báðir hópar stóðu því utan við girðinguna og reyndu að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með fánum, köllum og tónlist.  Allt fór þetta samt skikkanlega fram og verður að hrósa mótmælendum fyrir prúðmannlega uppákomu.

Því miður sýndu leikmenn Tel Aviv liðsins ekki sömu stillingu. Þegar fyrra mark liðsins kom hljóp markaskorari liðsins að hlíðarlínunni og vafði sig fána Ísraels. Þetta hleypti illu blóði í bæði áhorfendur og leikmenn Blikaliðsins. Einnig var dómari liðsins ekki sáttur við þennan gjörning og sýndi leikmanninum gula spjaldið.  Mjög strangar reglur giltu á leiknum að ekki mætti veifa þjóðfána, hvort sem það var ísraelskur, palestínskur né íslenskur, hvort sem var innan vallar sem utan. Búast má við Tel Aviv liðið fái háa sekt frá UEFA fyrir þessa uppákomu. Til að bæta gráu ofan á svart fögnuðu leikmenn liðsins seinna markinu með því að hlaupa í átt að mótmælendunum og ögra þeim með tilheyrandi handauppréttingum. Eftir leik gerðu síðan varamenn Maccabi liðsins sér far um að teygja og hlaupa nálægt mótmælendum og þannig viljandi að hella olíu á eld mótmælanna. Ekki framkoma til fyrirmyndar!

Það var reyndar grátlegt að við skyldum ekki ná að minnsta kosti einu stigi út úr þessum leik. Jöfnunarmark Gísla í síðari hálfleik var algjör snilld. Strákarnir okkar sundurspiluðu ísraelska liðið og eftir góða sendingu Kristins Steindórssonar renndi Gísli knettinum í markið eftir að hafa skilið markvörð gestanna eftir í moðreyk.

Blikaliðið spilaði á köflum mjög vel og á tímabili í síðari hálfleik virtist Tel  Aviv spila upp á jafntefli. En svo misstum við knöttinn á vondum stað og Anton Ari réð ekki við bylmingsskot gestaliðsins. Á lokamínútunum áttum við að minnsta kosti tvo fín færi en inn vildi knötturinn ekki. Lokastaðan því svekkjandi 1:2 tap.

Veðrið spilaði stóra rullu í aðdraganda þessa leiks en á meðan leik stóð var eins og guð almáttugur hefði gengið i lið með skipuleggjendum og áhorfendum. Hitinn var réttu megin við núllið, hægur andvari að sunnan og sól skein í suðri. Hitastigið var því þægilegt í stúkunni en því miður hafði sólin áhrif á fyrra mark Ísraelanna. En eyðum ekki tíma í að svekkja okkur á því. Aðstæður voru því frábærar til knattspyrnuiðkunar miðað við árstíma. Spilamennska Blikaliðsins var mjög góð fyrir utan þessi tvö mörk og er þetta eitthvað sem liðið tekur með sér inn í framtíðina. Það hlýtur að koma að þvi að lukkudísirnar gangi í lið með okkur og eigum við ekki að spá því að úrslitin detti með okkur í síðasta leiknum gegn úkraínska liðinu Zoria Luhansk í Póllandi 14. desember.

-AP

Til baka