BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Svekkjandi tap í frábærum leik

06.08.2021 image

Eftir glæsilega frammistöðu gegn Austra Wien var komið að því að Blikar mættu Aberdeen í undankeppni Sambandsdeildar UEFA .

Okkar menn auk þess nýbúnir að leggja Víkinga sannfærandi í PepsiMax deildinni eftir að hafa lifað af erfiðar upphafsmínútur og það má því segja að skammt sé stórra högga á milli hjá okkar mönnum.

Kópavogsvöllur uppfyllir ekki kröfur UEFA þegar komið er svona langt í keppni, ekki frekar en 2013, og því þurftum við bíta í það súra (aftur) að fara með leikinn í Laugardal. Nú þarf að gera átak í því að gera okkar völl löglegan fyrir þessa leiki, þannig að við getum leikið heimaleikina á heimavelli. Það munu ekki líða önnur 8 ár þar til við komumst á þetta stig aftur, spái ég, og því ekki eftir neinu að bíða.

Aðstæður voru engu að síður hagstæðar í dag. Logn og 14° hiti á celsíuskvarðanum, en völlurinn greinilega nokkuð blautur og þungur eftir rigningar síðustu daga og sannkallað steypiregn í dag. Rétt tæplega 1200 áhorfendur mættir á leikinn og máttu ekki vera mikið fleiri útaf svolitlu.

Breyting frá síðasta leik sú að Árni kom inn fyrir Jason. Sem sagt sama lið og gegn Austurríkismönnunum. Byrjunarlið Blika var svona:
 

image

Skotarnir byrjuðu með boltann og höfðu engar vöbblur á sínu uppleggi og dúndruðu boltanum fram. Skömmu síðar fengu svo gestirnir dæmda hornspyrnu og úr henni skoruðu þeir fyrsta markið eftir sambland af óheppni og klaufaskap hjá okkar mönnum í dekkningu. Sá ekki betur en Blikinn sem væri að dekka þann sem skoraði hlypi aftan á samherja í eltingarleiknum. 1:0 fyrir gestina eftir 3 mínútur og það var skellur. Okkar menn fóru í sókn og virtust fljótir að jafna sig og Gísli komst í þokkalegt færi eftir lagleg tilþrif hjá Höskuldi og Árna en skotið yfir. Strax á næstu mínútu kom langur bolti hjá skotunum yfir Davíð og þeir náðu bylmingsskoti á markið sem Anton varði vel, en úr varð önnur hornspyrna.

Og aftur skoruðu gestirnir. Nú með skalla af 7 metra færi sem sigldi yfir varnarmann á marklínunni. Þetta var jafn ódýrt og fyrra markið og útlitið sannarlega ekki gott. Blikum, innan vallar og utan skiljanlega nokkuð brugðið en létu þó þessa ,,smámuni” ekki buga sig. Kópacabana hópurinn gaf hressilega í og okkar menn inni á vellinum hrukku í gang svo um munaði.

image

Boltinn fór að ganga betur og hraðar og Kristinn var hársbreidd frá því að komast í boltann við fjærstöngina eftir fyrirgjöf. Blikarnir búnir að ná fínum tökum á leiknum. Á 16. mínútu kom hár bolti inn að vítateig gestanna. Árni vann boltann og gerði fantavel í slag við varnarmenn gestann og náði að pota boltanum fyrir markið þar sem Gísli kom á ferðinni, tróð sér fram fyrir varnarmann og gat varla annað en skorað. Mjög vel gert hjá báðum, en Árni sýndi mikinn styrk og klókindi þarna.

image

image

Blikar fögnuðu vel og óx nú ásmegin svo um munaði og sóttu nú hart að Skotunum sem virtust slegnir út af laginu en náðu samt af og til að gera sig líklega, einkum í föstu leikatriðum. Áfram héldu Blikar að þjarma að gestunum og spila í kringum þá, auk þess að ógna með fyrirgjöfum sem vantaði eina hársbreidd eða tvær til að skila jöfnunarmarkinu.

En það kom svo á markamínútunni heimsfrægu. Blikar náðu, eins og svo oft í fyrri hálfleik, góðri sókn upp vinstri vænginn og þar átti Davíð sendingu inn í vítateig á Árna sem tók boltann skemmtilega með sér með vinstri fæti í sama mund og varnarmaður brá fæti fyrir þann hægri og felldi okkar mann. Vítaspyrna réttilega dæmd og úr henni skoraði Árni af miklu öryggi. Staðan orðin 2:2 og 42:51 á klukkunni. Hver hefði trúað þvi eftir þessa hörmungarbyrjun nokkar manna? Fögnuður Blika mikill og ósvikinn.

Blikar héldu áfram að þjarma að gestunum en náðu ekki að setja 3ja markið áður en flautað var til leikhlés.
 

image

Stuðningsmenn klöppuðu hraustlega fyrir Blikum þegar þeir gengu til búningsklefa enda höfðu þeir unnið vel til þess eftir hroðalega byrjun og svo sannarlega sýnt úr hverju þeir eru gerðir. Er það ekki annars í Dýrunum í Hálsaskógi sem er hrópað húrra fyrir pylsugerðarmanninum!
 

image

Jæja. Menn voru sannarlega fullir tilhlökkunar fyrir síðari hálfleikinn enda voru Blikar með tögl og hagldir síðasta hálftímann í þeim fyrri og svo sem engin ástæða til að ætla annað en framhald yrði á því í þeim seinni. En gestirnir höfðu aðrar hugmyndir og ætluðu sannarlega ekki að láta valta yfir sig og skelltu í 3falda skiptingu í hálfleik. Út fór m.a stóri leikmaðurinn #14 og inn kom léttari maður fram. Greinilegt að Skotarnir ætluðu að koma framar og pressa okkar öftustu línu.

Síðari hálfleikur hófst á því að okkar menn voru dæmdir rangstæðir, sem var mjög tæpt en sennilega rétt. Og svo dundi ógæfan yfir á ný. Blikar sendu boltann inn á vallarhelming gestanna og keyrðu vörnina fram. Skotarnir negldu langan bolta til baka og yfir varnarmenn okkar. Þar kom sá sem gerði fyrsta markið á ferðinni innfyrir og hirti sendinguna, mjög tæpur og ef til vill rangstæður, honum fylgdi svo annar sem var klárlega rangstæður þegar sendingin kom og hann fékk svo boltann í miðjum vítateignum og skoraði.  Anton var í boltanum en náði ekki að verja. Sá sem skoraði hafði þarna klárleg hag af rangstöðunni sem hann kom úr. Það verður að segjast að aðstoðardómarinn stúkumegin var mjög slakur í kvöld og lét alls konar brot, peysutog, stórar umfaðmingar og allskyns stæla viðgangast af hálfu gestanna. Og svo þetta.
 

image

Þetta mark var afleitt að fá á sig og okkar menn virtust slegnir útaf laginu næstu mínútur. Lítill taktur í spilinu og leikmenn Aberdeen hægðu nú á öllu þegar færi gafst. Okkar menn létu þetta fara örlítið í taugarnar á sér og komust hvorki lönd né strönd á löngum köflum. Mikið puð og miðjuþóf og það hentaði okkur ekki vel. Hratt kantspil sem hafði gengið svo ágætlega í fyrri hálfleik og þá alveg sérstaklega vinstra megin var ekki lengur til staðar og við lentum satt að segja í hálfgerðum eltingaleik. Ekki laust við að kæmu smá þreytumerki eftir því sem leið á leikinn þegar menn fóru að hanga of lengi á boltanum og fyrir vikið var þetta ekki eins beitt, heldur dálítið þungt og ómarkvisst. Jason Daði kom inn fyrir Kristinn þegar tæpur hálftími var eftir og Blikar héldu áfram að puða og reyna en snerpan virtist ekki nægileg til að sprengja upp stöður til að skapa alvöru færi.

image

Fengu þó aukaspyrnu á álitlegum stað þegar brotið var á Árna við vítaeiginn en fyrirliðinn setti boltann yfir markið. Áfram reyndu Blikar og sendu nú Thomas og Andra Rafn inná fyrir Oliver og Gísla sem báðir voru orðnir lúnir eftir mikil hlaup og Davíð Örn kom inn fyrir Alexander Helga. Þær mínútur sem þeir fengu dugðu hinsvegar ekki til að Blikar næðu frumkvæðinu á ný og það voru reyndar gestirnir sem fengu síðasta alvöru færi leiksins en Anton greip örugglega svakalega lélegan skalla úr fínu færi.

Myndaveisla frá HVH og BlikarTV:

image

Þessi leikur var frábær skemmtun en honum lauk með óverðskulduðu eins marks tapi okkar manna og ljóst að það bíður þungur róður ytra eftir viku.

Blikar þurfa hinsvegar ekki að kvíða þeim leik. Skotarnir munu þurfa að verja þetta eina mark sem þeir hafa á okkur og ég hef fulla trú á að strákarnir nái að pressa þá vel frá byrjun og velgja þeim hressilega undir uggum. Þá koma mörkin. Leikurinn í kvöld sýndi að við erum síst lakara lið og á löngum köflum í fyrri hálfleik lék liðið stórvel og sýndi sínar bestu hliðar. Gjafmildin var hinsvegar í allra mesta lagi og það þarf að laga.

Nú gildir að setja hökuna upp og kassan út og hvíla sig vel fyrir leikinn gegn Stjörnunni n.k. mánudag. Það er ekkert sem heitir að við þurfum þau stig sem þar eru í boði í baráttunni á toppi PepsiMax deildarinnar. Þar mætum við og það væri fengur að því fyrir liðið að fá álíka stuðning og var í kvöld. Kópacabana og raunar öll stúkan í banastuði.  

Gott lið á skilið almennilegan stuðning!

Áfram Breiðablik
OWK.

Umfjallanir netmiðla

image

Til baka