Taktísk skák í Dóra Árna lestinni
31.05.2024
Einn stærsti leikur sumarsins fór fram á Kópavgosvelli þetta ágæta fimmtudagskvöld er Víkingur Reykjavík kom í heimsókn. Þeir hafa ekki riðið feitum hesti frá Kópavogi og norður til Reykjavíkur síðustu misseri, töpuðu meira að segja gegn HK inn í Kórnum núna í byrjun móts.
Það var fín dagskrá fyrir leik og opnaði Græna stofan vel fyrir leik með köldum, pílu og þjálfaraspjalli. Undirritaður fékk að sjá uppgjör barsins í lok kvölds og fékk svimakast, glæsileg straujun á kortunum. Sjálfur náði ég ekki að komast á galeyðuna þar sem ég stóð í brimróti venjulega fólksins; sendur út í apótek að kaupa endaþarmsstíla fyrir lasinn soninn kom í veg fyrir stífa bjórdrykkju fyrir leik en einnig er ég ábyrgur leikmaður Augnabliks í 3. deild og það er stórleikur daginn eftir gegn ÍH inn í Fífu kl. 19:15, allir Blikar velkomnir þangað!
Ég frétti af byrjunarliðinu og fékk strax smá áhyggjur. En það leit svona út:
Byrjunarliðið okkar í stórleiknum gegn Vík R. ???? pic.twitter.com/Ak0AJAFoOV
— Blikar.is (@blikar_is) May 30, 2024
Andri Yeoman og Kiddi Steindórs komu inn fyrir Patrik Johannesen og Benjamin Stokke sem var tekinn úr leikmannahópi liðsins, en hann hefur ekki heillað. Ég taldi að þessir kraftmiklu rumar sem Víkingsmiðjan og vörnin er myndi éta okkar léttu miðju og sóknarmenn, en það var nú ekki raunin. Því við fórum á þeirra plan og vorum alveg jafn harðir og gáfum ekki tommu eftir sem var frábært að sjá.
Ef það er einhverntímann viðeigandi að tala um taktíska skák þá var þessi leikur nákvæmlega það. Bæði lið skíthrædd við að tapa og mikið í húfi. Miðað við fyrri hálfleikinn þá var 0-0 lykt af leiknum. Baráttan var mikil og bæði lið í góðum varnarstöðum og riðlaðist varnarleikurinn lítið til. Við spiluðum maður á mann pressu sem útskýrði af hverju Viktor Örn var alltaf kominn lengst upp á miðju að dekka Aron Elís og Damir stóð einn eftir í baráttunni við Nikolaj Hansen. Allir Blikar kláruðu sína menn vel í maður á mann og pressan hjá fremstu mönnum var mjög árangursrík enda komst Víkingur lítið upp völlinn nema með kýlingum fram á við. Í raun og veru var þetta saga leiksins hjá báðum liðum, mikið kýlt fram á við úr þvingaðri stöðu en við naskari að ná að byggja upp spilkafla og hrifsa seinni bolta og hefja sókn. Það voru ekki mörg færin í fyrri hálfleik helst má nefna frábært skot Arons Bjarnasonar sem krakkinn í Víkingsrammanum varði ansi vel og hlaut að launum markspyrnu frá annars mjög góðum dómurum kvöldsins. Þeir fá stórt hrós fyrir að hafa ekki fallið í neinar gildrur sem Víkingar eru mjög gjarnir að leggja í götu þeirra.
Sömu lið komu út í seinni hálfleik og gengu inn. Ísak Snær kom þó inn á fyrir Kidda Steindórs á 52. mínútu og honum fylgdi loksins krafturinn og baráttugleðin sem maður hefur beðið eftir að hann komi með inn í Blikaliðið. En hömrum á því sem Óskar Hrafn, tryllt að heyra aftur í honum í settinu á Stöð 2 vel gert, Ísak þarf að fara á djúskúrinn og vera klár í 90 mínútur. Hann var stuttu eftir að hann kom inn á kominn í færi sem Víkingsdrengurinn í rammanum varði mjög vel, aftur. Eftir að Ísak kom inn á heyrði það til undantekninga að við reyndum að spila okkur upp völlinn meðfram jörðinni sem var byrjað að fara í taugarnar á undirrituðum enda fannst manni eins og plássið væri til staðar til þess að spila sig upp völlinn. Er leið á seinni hálfleikinn fór maður á mann pressan fór að segja til sín hjá okkur, Andri Yeoman og Alex Helgi voru orðnir mjög þreyttir og skipt útaf fyrir Arnór Gauta og Oliver Sigurjónsson. Oliver hefur komið mjög vel inn í þá leiki sem hann hefur spilað núna í sumar, hann færir liðinu ró á bolta en er alltaf klár í návígin og vinnur þau yfirleitt og er smá tuddi í sér. Kudos á Oliver.
Loks á 77.mínútu brotnaði ísinn eftir að Höggi vann seinni boltann eftir þrusu fram og kom honum á Aron Bjarna sem fann Viktor Karl (1997) úti í breiddinni hægra megin og hann kom boltanum frábærlega fyrir á Jason Daða sem réðst á boltann og skóflaði honum inn. Frábært mark og maður sá stigin þrjú í hyllingum.
1-0 fyrir Breiðablik! Jason með markið pic.twitter.com/dNlN3LAs1A
— Blikar.is (@blikar_is) May 30, 2024
Eftir markið kom smá skjálfti strax í okkar menn við vorum í vandræðum með að koma boltanum frá og fengum langa Víkingssókn í andlitið og þá rann kalt vatn milli skins og hörunds. Svo... ekkert. Við vorum að verjast óaðfinnanlega. Allt var í toppstandi. 90.mín sigldu á klukkuna og maður var lítið stressaður fannst eins og Dóri væri að sigra þessa taktíska skák. Fótboltaleikir eru 90mínútur plús uppbót og skákir geta sennilega verið eitthvað lengur en Kiddi Jóns og Viktor Karl seldu sig sem endaði með að Víkingar komust upp að endamörkum og sendu út á Gísla Gottskálk sem tók frekar þægilegt skot sem Anton Ari missti einhvernveginn inn. Ótrúelga dýrt í þessari stöðu, á þessum tímapunkti gegn þessum andstæðingi að klúðra þessu svona. Getum þó okkur sjálfum kennt um, varnarleikurinn var óaðfinnanlegur þegar við mættum Víkingi ágætlega hátt uppi á vellinum en við vorum búnir að detta neðar og neðar og buðum þannig hættunni heim. Víkingar komust því í fyrstu færin sín í uppbótartíma og fengu eitt besta færi leiksins eftir að hafa jafnað leikinn ef Valdimar Þór fær frían skalla sem Anton varði þægilega. En fleiri urðu atvikin ekki og rann leikurinn út í sandinn og saknaði Óskar Hrafn þess að engin læti voru í lok leiks, þrælgóð ummæli vel gert Óskar.
Niðurstaða leiksins þýðir að við erum enn þremur stigum á eftir Víkingum í 2. sæti deildarinnar. Það var mjög mikilvægt að missa þá ekki lengra framúr okkur ef við ætlum okkur að verða Íslandsmeistarar en það var aldrei hætta, Víkingar ætluðu aldrei að sigra þennan leik það var augljóst. Því er ég ekki sammála Arnari Gunnlaugssyni um að þeir séu Man City og við Liverpool, þeir eru frekar Arsenal, fara á erfiðasta útivöllinn og þora ekki að sækja sigurinn.
Ég vil hrósa Blikaliðinu fyrir stígandann í frammistöðunum, við erum að finna taktinn og erum að líma lengri og betri kafla í leikjum. Þessi leikur var sennilega ein okkar besta heildarframmistaða í leik og því er það svekkjandi að það skilaði bara einu stigi. Liðið er að finna taktinn og þessi taktíska skák gerði mann bjartsýnni fyrir sumrinu heldur en maður var í byrjun maí. Byggjum ofan á þessum góðu köflum og þá erum við til alls líklegir því það var himinn og haf á milli liðsins sem spilaði gegn Víkingi í Víkinni og sem spilaði núna á Kópavogsvelli. Allir um borð í Dóra Árna lestina, þar sem taktískar skákir verða í hverjum lestarvagni.
-Freyr Snorrason
Geggjað stuð í stúkunni pic.twitter.com/7zs8cHNHiC
— Blikar.is (@blikar_is) May 30, 2024