Tap þrátt fyrir hetjulega baráttu!
07.11.2025
Blikaliðið varð að sætta sig við 2:0 tap gegn stórliði Shaktar Donetsk frá Úkraínu í Sambandsdeild Evrópu í gær. Leikurinn fór fram á hlutlausum velli í Póllandi vegna stríðsins í Úkraínu. Þrátt fyrir tapið geta Blikar borið höfuðið hátt eftir þessa viðureign því úkraínska liðið er hálf-gert svindlið í þessari keppni. Shaktar hefur nefnilega undanfarin níu ár í röð keppt í Meistaradeildinni og í heild átján sinnum komist í þessa toppkeppni evrópskrar knattspyrnu. Það má því segja að Blikar hafi þurft að glíma við ókleifan hamarinn.
Eins og við mátti búast blésu heimapiltar til sóknar strax í byrjun. Með fullt af brasilískum léttleikandi mönnum innanborðs skullu sóknirnar á Blikavörninni. En okkar drengir vörðust vel með Ásgeir Helga í broddi fylkingar. Þessi efnilegi miðvörður fékk traustið hjá Ólafi Inga í þessum leik og sýndi það og sannaði að hann getur staðið í stafni Blikavarnarinnar. Þrátt fyrir að Shaktarliðið væri með knöttinn meirihluta fyrri hálfleiksins þá sköpuðu þeir sér ekki mörg færi. En við gleymdum okkur eitt andartak eftir hornspyrnu og því miður fór knötturinn inn.
Reyndar áttum við að fá vítaspyrnu þegar Arnór Gauti var gróflega togaður niður eftir hornspyrnu en rúmensku dómararnir voru skyndilega lostnir skyndiblindu og því ekkert dæmt. Einnig er vert að geta þess að Höskuldur átti lúmskt skot á 10. mínútu leiksins en knötturinn fór hárfínt framhjá. Þar með eru færi okkar í hálfleiknum upptalin.
Við komum aðeins meira upp úr skotgröfunum í síðari hálfleik og reyndum að halda í knöttinn lengur. Það gekk þokkalega og með smá heppni hefðum við getað skorað eitt mark. En þess í stað bættu heimapiltar við einu marki eftir smá glundroða í vörninni hjá okkur. En í heildina getur Blikaliðið verið þokkalega sátt við þennan Evrópuleik. Leikmenn okkar börðust eins og ljón allan leikinn en andstæðingarnir voru því miður einu númeri of stórir að þessu sinni. Við verðum því að líta á þennan leik sem inneign í reynslubankann.
Næsti leikur í Sambandsdeildinni hjá Blikaliðinu er heimaleikur gegn Loga Tómassyni og félögum hans í Samsunspor frá Tyrklandi fimmtudaginn 27. nóvember á Laugardalsvelli. Tyrkneska liðið er mjög sterkt en leikurinn í gær lofar góðu um framhaldið.
Áfram Blikar- alla leið
-AP