BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tár, bros og takkaskór!

07.05.2024 image

Þrátt fyrir að hafa tapað 2:3 fyrir Valsmönnum í Bestu deild karla á Kópavogsvelli í gærkvöldi geta Blikastrákarnir borið höfuðið hátt. Leikurinn hafði allt upp á að bjóða sem prýðir góðan knattspyrnukappleik. Hraða knattspyrnu, glæsileg mörk, töluverðan hita, smá dónaskap og hasar. Munurinn á milli þessara liða í gær var hins vegar að rauða liðið hafði besta knattspyrnumann Íslands um þessar mundir, Gylfa Þór Sigurðsson, innan sinna raða og það gerði gæfumuninn.

Það var spenna í loftinu þegar áhorfendur streymdu á völlinn í gær. Hamborgarar snörkuðu á grillinu, í Græna herberginu stjórnaði Guðjón Már Blikaquizi af mikilli snilld en úti fyrir gátu veðurguðirnir ekki gert upp við sig hvort bjóða ætti upp á sólarglætu eða slagviðrisrigningu. Rúmlega 1.600 áhorfendur koma sér fyrir vel vafðir í teppi og hlýjar úlpur því golan var köld. Greinilegt að vorið er ekki alveg komið! En það er alltaf gaman að sjá þegar hleypa þarf fólki í gömlu stúkuna líka. Þar mætti Hilmar Jökull með sína fylgismenn og hvatti Blikaliðið til dáða. Alltaf gaman að sjá Glazier vísitera gamla helgistaðinn sinn 😊

Blikastrákarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og strax á þriðju mínútu leiksins skoraði Jason Daði gott mark. Dómaratríóið ákvað hins vegar að Mosfellingurin knái væri rangstæðu. En í Bestu mörkunum síðar um kvöldið kom í ljós að þetta var rangur dómur.  Valsmenn eru hins vegar með gríðarlega sterkan leikmannahóp og því miður þurftu þeir að hitta á sinn besta leik á þessu keppnistímabili í gærkvöldi. Smám sama hertu þeir tökin á leiknum og áttum við í erfiðleikum að spila út úr sterkri pressu þeirra rauðklæddu. Þessi pressa skilaði þeim tveimur mörkum og fór þá um margan Blikann í stúkunni. En strákarnir okkar sýndu úr hverju þeir eru gerðir og Kristinn Jónsson skoraði gott mark eftir glæsilega sókn okkar manna. Staðan því 1:2 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

image

Kiddi Jóns skorar, staðan er 1-2 fyrir Val

Margt var spekúlerað í leikhléi. Elítan í fínumannastúkunni var sannfærð að Blikaliðið myndi koma til baka í síðari hálfleik um leið og hún gæddi sér á dönsku smurbrauði frá  Marentzu Paulsen. Pöbullinn gæddi sér hins vegar á pizzum og kleinupungum sem Örn Örlygsson bar fram af mikilli snilld. Þar voru menn ekki alveg eins jákvæðir og töldu helv..hann Gylfa vera hálfgerðan svindkall í þessari deild.  Eins og oft áður má segja að almenningur hafi alltaf rétt fyrir sér!

Síðari hálfleikur hófst með miklu drama. Gamli Blikinn Adam Ægir reyndi að tefja innkast með því að sparka varabolta inn á völlinn en uppskar að launum sitt annað gula spjald. Þar með fauk hann út af með rautt. Þá missti annar gamall Bliki, Arnar Grétarsson  þjálfari Valsara, algjörlega hausinn. Varðandi þá uppákomu sem fylgdi í kjölfarið er gott að vísa í Gumma Ben í Bestu mörkunum sem sagði ,,það kostar ekkert að vera kurteis“. Best að ræða þetta mál ekkert meir!

Glöddust nú Blikar mjög og töldu möguleikana til að ná stigum úr leiknum aukast til muna. En því miður kostaði andartaks einbeitingarleysi í varnarvinnu Blikaliðsins okkur aukaspyrnu skammt fyrir utan vítateig. Að gefa besta spyrnumanni deildarinnar svona tækifæri er nánast að gefa mark. Það reyndist raunin og Gylfi Þór skoraði með hnitmiðuðu skoti í hornið. Þrátt fyrir að Aron Bjarnason minnkaði muninn með glæsilegu marki þá reyndist Valsvörnin ókleyfur múr undir lok leiksins.

 

Þrátt fyrir tapið var margt gott í spilamennsku Blikaliðsins í gær. Norðmaðurinn Benjamin Stokke er slípast til í leikskipulagi liðsins, Kristinn Jónsson er mjög ógnandi í sóknarleik og margir aðrir leikmenn áttu fínan leik. Einnig er ánægjulegt að sjá að bæði Ísak Snær og Patrik Johannesen eru að komast í betra form eftir erfið meiðsli. Við eigum bara eftir að verða betri eftir því sem líður á sumarið! Næsti leikur Blikaliðsins er gegn Fylki í Árbænum á sunnudag kl.19.15. Þar ætla auðvitað allir sannir Blikar að mæta!

-AP

Til baka