BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2024: Breiðablik - Valur

03.05.2024 image

Breiðablik - Valur

Valsmenn koma í heimsókn á Kópavogsvöll á mánudaginn í 5. umferð Bestu deildar karla 2024. Valsvélin hefur hikstað í undanförnum leikjum en þeir mæta örugglega dýrvitlausir til leiks á mánudaginn. 

KópaCabana boðar mikinn fögnuð! Sjáumst næsta mánudag og styðjum strákana okkar til sigurs  #KópacaComeback

Flautað verður verður til leiks á Kópavogsvelli kl.19:15! Pub kvizz í Grænu Stofunni kl 18:15, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala er á Stubbur.

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Stigataflan eftir 4 umferðir - Blikar í 2. sæti með 9 stig. Valsmenn í 9. sæti með 5 stig. 

image

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Vals í öllum mótum frá fyrsta leik eru 103. Tölfræðin fellur með Valsmönnum sem eru með 43 sigra gegn 39 - jafnteflin eru 21.

Efsta deild

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild - fyrst árið 1971 - eru 76 leikir. Valsmenn leiða með 31 unna leiki gegn 29 - jafnteflin eru 16. Nánar

Innbyrðis leikir liðanna eru oftast miklir markaleikir. Samtals skora liðin 232 mörk í þessum 76 leikjum - Valsmenn skora 119 mörk gegn 113 Blikamörkum.

Síðustu 5 viðureignir liðanna í efstu deild á Kópavogsvelli:

Leikmannahópurinn

Í Blikahópnum eru tveir leikmenn sem hafa leikið með Val. Anton Ari Einarsson á að baki 36 meistaraflokksleiki með Hlíðarendaliðinu. Sumarið 2020 var Aron Bjarnason með Val sem lansmaður frá Újpest. Hann spilaði 21 leiki með Hlíðarendaliðinu og skoraði 7 mörk. 

Elfar Freyr Helgason söðlaði um haustið 2022 og hefur nú leikið 37 leiki með Valsliðinu.

Þjálfari Valsmanna, Arnar Grétarsson er uppalinn Bliki. Hann byrjaði að spila með meistaraflokki Breiðabliks í B-deildinni 1988 þá aðeins 16 ára gamall. Arnar er nú 6. leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi með 285 mótsleiki og 61 mark.

Í október 2023 var Viktor Unnar Illugason, fyrrum leikmaður og síðar yngri flokka þjálfari hjá Blikum, ráðinn til starfa hjá Val.

Leikmenn sem komu til okkar fyrir keppnistímabilið:

Kristinn Jónsson (KR) Kiddi Jóns kominn heim * Aron Bjarnason (Ungverjaland) Aron Bjarna mættur í grænt * Arnór Gauti Jónsson (Fylkir) Arnór Gauti mættur í Kópavoginn * Benjamin Stokke (Noregur) Norski framherjinn Benjamin Stokke til Breiðabliks * Daniel Obbekjær (Færeyjar) Daniel Obbekjær gerir 3 ára samning við Breiðablik * Ísak Snær Þorvaldsson á láni (Noregur) Ísak Snær aftur í Kópavoginn.

Leimenn Breiðabliks sem voru á láni hjá öðrum liðum 2023: Dagur Örn Fjeldsted (Grindavík) - Eyþór Aron Wöhler (HK) - Pétur Theódór Árnason (Gróttu). Í mars rifti Pétur samningi sínum við Breiðablik og íhugar að hætta í fótbolta, en meiðsli hafa sett risastórt strik í feril hans undanfarin 2-3 ár. - Tómas Orri Róbertsson (Grindavík) - Tumi Fannar Gunnarsson (Augnablik) - Viktor Elmar Gautason (Augnablik)

Leikmenn Breiðabliks á láni hjá öðrum liðum keppnistímabilið 2024: Ásgeir Helgi Orrason (Keflavík). Tómas Orri Róbertssson (Grótta). 

Farnir: Alex Freyr Elísson (Fram...var á láni hjá KA) - Anton Logi Lúðviksson (Noregur) - Arnar Númi Gíslason (Fylkir...var á láni hjá Gróttu) - Ágúst Eðvald Hlynsson (Danmörk) - Davíð Ingvarsson (Danmörk) - Gísli Eyjólfsson (Svíþjóð) - Hilmar Þór Kjærnested Helgason (Fylkir) - Klæmint Olsen (Færeyjar ...var á láni frá NSÍ) - Oliver Stefánsson (ÍA). - Eyþór Aron Wöhler (KR)

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur Héðinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson. 

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins er fæddur og uppalinn austfirðingur og þar liggja ræturnar en árið 1998 flutti ég í Kópavoginn og hef verið Bliki alveg frá fyrsta degi. Þrír af fjórum sonum mínum hafa æft fótbolta upp alla flokka með Breiðabliki og þjálfar nú sá yngsti þeirra 5. flokk karla samhliða námi í íþrótta- og heilsufræði við HÍ. Það má því segja að æfingasvæði Breiðabliks hafi verið okkar annað heimili um áratuga skeið. Ég tók mikinn þátt í foreldrastarfi hjá þeim öllum, ferðaðist með þeim á mót bæði innanlands og einnig erlendis. Meðal verkefna sem ég hef tekið að mér er að vera liðstjóri, hjásvæfa með þeim í skólastofum, fjáraflanir, sjoppuvaktir, passa upp á að það sé til nóg af nesti og svo allt þar á milli. Þetta hefur verið mjög gefandi starf og frábært að kynnast öllum þessum stákum að ég tali nú ekki um öllum foreldrunum sem hafa fylgt þessum ungu fótboltaiðkendum.

Ásgerður Ásgeirsdóttir – hvernig fer leikurinn?

Þetta verður hörku leikur og klárlega leikur umferðarinnar. Bæði lið eiga mikið undir en ég tel að Blikar nái að landa sigrinum 3:2. Benjamin Stokke hinn norski opnar markareikning leiksins og þeir Höskuldur og Viktor Karl verða með sitt markið hvor. Þeir sem skora mörkin fyrir Val verða Tryggvi Hrafn og Gylfi Sig.

ÁFRAM BREIÐABLIK

Göngugarpurinn og SpáBliki leiksins, Ásgerður Ásgeirsdóttir

Dagskrá

 Pub kvizz í Grænu Stofunni kl 18:15, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni.

Miðasala er á Stubbur.

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á mánudagskvöld kl.19:15! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Hápunktar úr leiknum gegn Val í Bestu 2024 á Kópavogsvelli 2023:

Til baka