BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tindarnir þrír frá San Marinó ekki mikil fyrirstaða!

28.06.2023 image

Tindaliðið Tre Penne frá San Marinó var ekki mikil fyrirstaða fyrir Blikaliðið í fyrsta leik forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Lokatölur voru 7:1 fyrir þá grænklæddu og mætum við vinum okkar Budućnost Podgorica frá Svartfjallalandi í úrslitaleik þessa riðils áföstudagskvöldið á Kópavogsvelli kl.19.00

Tre Penne þýðir þrír tindar á ítölsku og liðið spilar í svokallaðri Sammarinese deild sem er áhugamannadeild með 15 liðum í San Marinó. Leikmennirnir í liðinu kunna alveg knattspyrnu og eru með ágæta boltameðferð. En líkamlegur styrkur þeirra var ekki mikill og strax ásjöttu mínútu skoraði fyrirliðinn okkar Höskuldur Gunnlaugsson fínt mark eftir góðan undirbúning Ágústar Hlynssonar. En þá slakaði Blikaliðiðaðeins á klónni. Varnarvinnan var ekki nægjanlega góð og fengu gestirnir 2-3 þokkaleg færi til að jafna leikinn. Sem betur fer gekk þaðekki eftir og þess í stað bætti Ágúst Eðvald, sem var einn besti maður Blikaliðsins í leiknum, við fyrra markinu sínu. Héldu nú flestir áhorfendur að björninn væri unninn en það var nú ekki raunin. San Marinó liðið minnkaði muninn í 2:1 eftir fyrirgjöf utan af kanti. Fór nú um nokkuð marga Blika í stúkunni og hugsuðu margir með hryllingi til martraðarinnar í Kórnum fyrir nokkrum dögum. En færeyski bjargvætturinn, Klæmint Olsen, sá til þess aðmenn gátu farið nokkuð afslappaðir inn í leikhléið.

San Marinó drengirnir reyndu hvað þeir gátu að verjast í síðari hálfleik. Blikaliðið hélt reyndar boltanum auðveldlega en sóknarleikurinn var ekki mjög kraftmikill fyrstu tuttugu mínútur hálfleiksins. En þá skipti Óskar þjálfari þungavigtarmönnunum Kidda Steindórs, Jasoni Daða, Viktori Erni og Stefáni Inga inn á. Þar með hrundi varnarmúr gestanna enda voru þeir gersamlega búnir á sál og líkama. Stefán Ingi bætti fljótlega við fjórða markinu enda má hann varla vera inn á leikvellinum án þess að skora mark! Svo bættu Viktor Karl, Höskuldur og Ágúst Hlyns við marki hver. Öruggur 7:1 sigur og stærsti Evrópusigur íslensk karlaliðs í knattspyrnu staðreynd.

Þessi öruggi sigur er gott vegarnesti fyrir úrslitaleikinn gegn Svartfellingunum á föstudaginn. En það lið er mun sterkara en þetta San Marinó lið. Við þurfum því að þétta varnarvinnuna og ná upp Blikaandanum og þá eigum við góða möguleika. Það var nokkuð góð mæting á leikinn í gær en vonandi verður stúkan pakkfull á föstudaginn. Blikaliðið á svo sannarlega skilið stuðning og vonandi svara Kópavogsbúar kallinu með því að mæta vel á þennan mikilvæga leik.

-AP

Til baka