Veiðieðli og hið mikilvæga fimmta mark
29.04.2023
Sól skein í heiði á svölu vorkvöldi þegar lið Blika og Fram gengu inn á óvæntan heimavöll Blika í Árbænum föstudagskvöldið 28. apríl. Daginn áður hafði allt verið á kafi í snjó – nú var marauð jörð. Þó voru leifar af þeim hvíta við auglýsingaskiltin. Meira um íslenska fönn síðar.
Eftir að hafa setið í gufubaði með hópi af Frömmurum í yfir tuttugu ár eftir bumbubolta þekkti tíðindamaður Blikar.is vonina sem alltaf ríkti í þeirra herbúðum ár hvert þegar sól tók að hækka á lofti en þurfti jafnframt að sýna árlegum vonbrigðum þeirra að hausti skilning. En nú er þetta sögufræga lið á sínu öðru tímabili í röð í deild þeirra bestu þar sem það á heima.
Öskrandi ljón
Óskar gerði þrjár breytingar á liði okkar manna: Anton Logi, Stefán Ingi og Ágúst Orri komu inn í byrjunarliðið á kostnað Olivers, Viktors Karls og Ágústs Eðvalds. Annars var liðið þannig skipað:
Athygli vakti að Blikar tefldu ekki fram neinum varamarkmanni. Gárungarnir töldu ýmist að Viktor Örn myndi færa sig í falskan ás eða að Höskuldur myndi droppa í markið ef á þyrfti að halda. Fyrir leik talaði Óskar um að liðið þyrfti að ná aftur upp veiðieðlinu. Og er óhætt að segja að okkar menn hafi mætt eins og öskrandi ljón til leiks. Eftir tvær mínútur sendi Damir langan bolta fram á Stefán Inga sem lét verja frá sér í góðu færi. Einni mínútu og tuttugu sekúndum síðar átti Gísli stórkostlega sendingu inn á teig á nefndan Stefán sem skallaði með tilþrifum í netið.
4. STEFÁN INGI SKORAR 1-0 pic.twitter.com/g9EXcpNImm
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) April 28, 2023
Eitt lið á vellinum
Blikar voru með öðrum orðum mættir til leiks. Staðan 1-0 og fjórar mínútur liðnar. Aftur á móti var eins og liðið sem einu sinni var kennt við Safamýri hafi enn verið að leita að réttum velli. Kannski héldu þeir að þeir hefðu átt að mæta í Smárann. Nema hvað. Á elleftu mínútu áttu gestirnir afar vonda sendingu (fyrir þá) aftur á markmanninn. Jason Daði át hana eins og gammur, óð framhjá markmanninum en skaut framhjá fyrir opnu marki. Mínútu síðar geystist Jason upp völlinn en þrumaði naumlega framhjá.
Þegar 23 mínútur stóðu á klukkunni unnu okkar menn boltann á sínum vallarhelmingi, Patrik bar hann upp af festu og öryggi, sendi út á Höskuld sem gaf hann aftur á Færeyinginn knáa sem negldi boltanum í netið. 2-0. Allt að gerast okkar megin. Frammarar enn að leita að vellinum.
24. Færeyskt símtal? Færeyskt mark????????????. 2-0! pic.twitter.com/rC8XVVrMGH
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) April 28, 2023
Gestirnir sýna lífsmark
Áfram hélt stuðið. Alex Freyr átti hörkuskot framhjá eftir 26 mínútur en vallargestir þurftu ekki að svekkja sig lengi á því þar sem varnarmenn Fram ákváðu að prófa á ný vonda sendingu aftur á markmanninn. Að þessu sinni var það Stefán Ingi sem vomaði eins og fálki yfir rjúpu yfir varnarlínu gestanna, náði boltanum og skoraði örugglega framhjá markmanni Fram.
Óvandaðri menn en tíðindamaður Blikar.is hefði á þessu augnabliki talað um „hina visnu bláu hönd“ og vísað þannig með meinlegum hætti í Frammarann þjóðkunna Hallgrím Helgason. En þá gerðist það. Það greindist lífsmark með Fram. Eftir 33 mínútur fengu þeir horn. Mínútu síðar kom skot á mark Blika. Okkar menn héldu þó áfram, áttu skot, fengu horn og þar fram eftir götum. En leikurinn hafði breyst úr Einræðum Starkaðar í tvíhliða samtal. Og gestirnir óðu upp kantinn og gáfu fyrir þar sem þeirra hættulegasti maður stóð einn og óvaldaður á markteig og þakkaði fyrir uppbyggilegar samræður.
Ef lífið er þjáning
Liðin gengu þannig til búningsklefa í stöðunni 3-1. Menn töluðu um að Blikar væru á allt öðru tempói og höfðu ekki miklar áhyggjur af síðari hálfleik en töluðu reyndar um „hið mikilvæga fimmta mark“.
Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri – á suðurenda vallarins. Nema hvað nú voru það gestirnir sem sóttu og heimamenn sem vörðust. Það var engu líkara en Einar Kárason hefði farið inn í klefa til sinna manna í hálfleik og þrumað yfir þeim þessar línur úr Gulleyjunni: „Ef lífið er þjáning þá er líf á þessari eyju.“ Kannski fóru þeir í grunngildin, heim í fannfergin í Safamýri, og rifjuðu upp þessar línur úr samnefndu ljóði annars stuðningsmanns Fram, Gerðar Kristnýjar: „Enginn snjór hefur / ilmað jafn sterkt“. Það var eins og þeir hefðu öðlast trú á lífið í Árbænum, eins og snjórinn við auglýsingaskiltin hefði kippt þeim inn í veruleikann.
Fer eins og það fer
Á 50. mínútu leiksins áttu gestirnir skot að marki sem Anton Ari varði í horn. Viðvörunarljós tóku að blikka. Mínútu síðar hafði saklaust skot utan af velli viðkomu í varnarmanni Blika og fór þaðan í netið. 3-2. Var þetta hið mikilvæga fimmta mark? Var allt að fara til andskotans? Nei. Stefán Ingi fékk langa sendingu við vítateig gestanna á næstu mínútu, skildi tvo varnarmenn eftir í tómu tjóni og skaut glæsilega upp í þaknetið. 4-2. Þarna hefði mátt vitna í vandaða þýðingu annars Frammara, Páls Valssonar, á Gamlingjanum sem skreið út um gluggann: „Þetta fer eins og það fer, því þannig fer það yfirleitt. Næstum alltaf, reyndar.“
Þetta leit með öðrum orðum ágætlega út – aftur. Jason Daði óð í gegnum vörn Fram en lét verja frá sér. Patrik átti skot eftir hornspyrnu og allt að gerast. Nema þá gerðist það – hinum megin. Gestirnir óðu upp í skyndisókn og minnkuðu muninn í 4-3.
Fólskuleg árás
Okkar menn voru ekkert farnir úr veiðigallanum. Jason skaut í varnarmann, Patrik náði frákastinu en skotið endaði í horni. Upp úr því skaut hann yfir. Um sama leyti komu Viktor Karl og Ágúst Eðvald inn á fyrir Ágúst Orra og Jason Daða. Og áfram dunaði dansinn. Alex Freyr óð upp allan völl en skaut yfir. Tveimur mínútum síðar var Patrik felldur fólskulega við vítateigslínuna og héldu allir réttsýnir menn að þetta væri í það minnsta aukaspyrna – ef ekki víti og spjald. Dómarinn var hins vegar á öðru máli og blés ekki í flautuna. Okkar menn mölduðu í móinn en gestirnir höfðu engan áhuga því að eiga uppbyggilegar samræður um þetta augljósa álitamál heldur óðu upp og jöfnuðu leikinn. 75 mínútur á klukkunni.
Tilfinningar
Af því að tíðindamaður Blikar.is er ekki tilfinningalaus maður hugsaði hann hlýtt til sinna gömlu vina í gufubaðinu og sagði við sjálfan sig: það er ekki fallegt að slökkva vonir góðra manna á fallegu vorkvöldi. Hafa þeir ekki þjáðst nóg? Er ekki í lagi að þeir fái eitt stig og losni kannski af botni deildarinnar – amk um hríð? En þá mundi hann eftir bókartitli annars mikils stuðningsmanns Fram, Kamillu Einarsdóttur: Tilfinningar eru fyrir aumingja.
Eftir 81 mínútu skipti Óskar Patrik og Alex Frey út fyrir Davíð Ingvarsson og Klæmint. Klæmint? Átti sá ágæti maður nú að bjarga okkur? Vorum við komin þangað? Maður sem sérfræðingar hafa talað um að væri ekki í formi og væri sennilega best geymdur heima í Færeyjum.
Hrúðrið á bringu mér
Svo voru liðnar 90 mínútur. Frammarar farnir að fá krampa, haltra af velli, hið svokallaða XG var víst 2-1,2 okkur í hag en það vinnur enginn leik með þeirri tölfræði. Staðan laug ekki, hún var eftir sem áður 4-4.
Fimm mínútum bætt við. Spennan var áþreifanleg.
Okkar menn fengu hornspyrnu.
5.37 á klukkunni.
Hár bolti barst inn á teig. Þá var eins og nefndur Klæmint hefði rifjað upp ljóðlínur Frammarans góðkunna, Gerðar Kristnýjar: „Með hófadyn í hjartastað / sting ég mér í strauminn // Nú verður engum þyrmt“. Hann lyfti sér upp svo að gjörvöll Esjan sást undir fótum hans og skallaði boltann glæsilega í netið. En vinir mínir úr gufunni muldruðu örugglega þessar línur Gerðar Kristnýjar: „Birtist úr blánóttinni á hljóðu flugi /og slæmir í mig vængnum // Sorgin er komin / að krafsa upp hrúðrið á bringu mér“.
90+. Klæmint changes. Klæmint time. 5-4 pic.twitter.com/KnjyHN3Yew
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) April 28, 2023
Þar með lauk þessum kaflaskipta leik í Árbænum. Óhætt er að segja að áhorfendur hafi fengið mikið fyrir peninginn á þessum spennutrylli. Okkar menn spiluðu eins og sannkallaðir meistarar fyrsta hálftímann en síðan færðist værð yfir þá og gestunum óx ásmegin. En eins og það er sárt að tapa leikjum á lokasekúndum uppbótartíma er skemmtilegt að fara með sigur af hólmi á þeirri sömu stundu. Veiðieðlið, sem Óskar talaði um fyrir leik, sýndi sig svo sannarlega, sérstaklega fyrsta hálftímann – en ekki síður í hinu mikilvæga fimmta marki.
Framundan er leikur við Stjörnuna á útivelli þann 4. maí. Við bíðum spennt!
PMÓ
Maður leiksins með þrennu var Stefán Ingi❗️
— Breiðablik FC (@BreidablikFC) April 28, 2023
Hlýtur að launum veglegt gjafabréf frá veitingastaðnum Grazie Trattoria á Hverfisgötu 96 ???????? pic.twitter.com/Db6PoBLKFe