BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Baráttusigur á Akureyri

12.05.2025 image

Á fallegum maí sunnudegi skyldi keppt við Knattspyrnufélag Akureyrar. Eftir furðulegheit bráðskemmtilegs síðasta leiks gegn KR yrði fróðlegt að sjá hvort Blikar næðu að skipuleggja sig betur varnarlega í þessum leik. Fjölskyldan var mjög spennt fyrir leiknum. KA er með gott lið þótt illa hafi gengið á þessu tímabili. Blikar eru auðvitað með frábæran hóp þótt tilfinningin sé að þeir eigi miklu meira inni en þeir hafi sýnt. Breiðabliks strákarnir í fjölskyldunni Gabríel Elías Snæland (11 ára) og Jón (13 ára) voru eldhressir og mjög bjartsýnir og spáðu Breiðablik sigri með 5 mörgum gegn 2.  

Byrjunarlið Blika var þannig skipað 1. Anton Ari Einarsson  4. Ásgeir Helgi Orrason 6. Arnór Gauti Jónsson 7. Höskuldur Gunnlaugsson 8. Viktor Karl Einarsson 9. Óli Valur Ómarsson 11. Aron Bjarnason 13. Anton Logi Lúðvíksson 21. Viktor Örn Margeirsson 30. Andri Rafn Yeoman 77. Tobias Thomsen. Sterkt lið og engan veikleika að finna á því. 

Leikurinn byrjaði rólega með stöðubaráttu. KA menn voru grimmir og létu finna fyrir sér. Fyrsta færi Breiðabliks kom á sjöundu mínútu eftir góða spretti Óla Vals og Viktors en sá síðarnefndi kom góðum bolta fyrir á Tobías sem náði ekki í skallann. En strax var ljóst að spilið var byrjað að flæða.

Það var svo Aron Bjarnason sem kom boltanum í markið á þrettándu mínútu eftir flotta sókn í kjölfar stutts horns. Höskuldur komst í boltann inn í teig og náði að renna honum á Aron sem renndi honum mjög snyrtilega í markið. Vel gert.

image

Leikurinn var nú svo tíðindalítill næstu mínúturnar. Mikil barátta á báða bóga en fátt markvert gerðist. Ásgeir Helgi átti reyndar frábæra langa sendingu á Aron Bjarna en ekkert meira kom út úr því. Ég var farinn smá að dotta yfir leiknum satt að segja. Viðar Örn Kjartansson komst svo í gott færi á 38 mínútu og vakti mig en hann skaut framhjá og var hvort eð er rangstæður. Þetta var viðvörunarmerki fyrir Blika að þeir þyrftu að setja meiri kraft í leikinn. KA menn voru nefnilega smám saman að færa sig upp á skaftið. Tóbías átti reyndar hálf skalla á 45 mínútu en satt að segja var þetta ekki fallegur fótbolti sem var í boði. Staðan 1-0 í hálfleik en engin tiki-taka bolti í boði. Tími á kaffi fyrir hálf sofandi áhorfendur. Dómur konunnar minnar eftir fyrri hálfleik. „Blikar höfðu stjórn á leiknum en þurfa að gera miklu betur“. 

Seinni hálfleikur byrjaði nú ekki vel því Höskuldur var eitthvað meiddur og var tekinn út af og Kristinn kom inn á í staðinn og Viktor Karl tók við fyrirliðabandinu. Þrátt fyrir fjarveru fyrirliðans var aðeins meiri kraftur í Blikum í byrjun seinni hálfleiks og eftir nokkrar mínútur átti Óli Valur hættulegt skot framhjá. Blikar reyndu svo hitt og þetta en lítið gekk og leikurinn datt aftur niður. Og einbeitingin fór. Viðar Örn Kjartansson var allt í einu einn í dauðafæri en Anton varði af mikilli snilld. Viðvörun til Blika. Sem sinntu henni ekki því nú tóku við kæruleysislegar mínútur. Aron Bjarna var reyndar nær búinn setja upp mark með baráttu á 66 mínútu og svo aftur nokkrum mínútum seinna en hann vantaði nákvæmni í loka sendingarnar. En annars var ekkert merkilegt að gerast af hálfu Blika og KA menn voru hættulegri. KA fengu svo frábært færi er Jóan Símun Edmundsson átti flottan skalla rétt yfir markið.  Blikar voru bara kærulausir og ég var farinn að verða talsvert stressaður. Ekki gott plan að reyna að hanga á marki á Akureyri. Enda voru KA menn að eflast og fá meira sjálfstraust.  

Ágúst Orri kom svo inn á fyrir Óla Val á 76 mínútu. Obbekjær kom inn á fyrir Andra Rafn á 79 mínútu. En áfram hélt þetta áfram að vera hálf rólegt af hálfu Breiðabliks og alls engin glæsileikur. KA voru nær því að skora og virtust bara vilja þetta meira. En svo allt í einu vöknuðu Blikar á 83 mínútu er Aron átti sendingu á Viktor sem átti frábært skot sem var varið snilldarlega. Það fyrsta sem þeir höfðu gert sóknarlega síðan í byrjun hálfleiksins. Blikar hresstust aðeins við þetta. En KA menn gáfust alls ekki upp og fengu tvö horn með stuttu millibili. Viktor Elmar Gautason kom svo inn á fyrir Aron Bjarnason á 91 mínútu. 

Á 92 mínútu fékk KA svo aftur horn og þar skall sannarlega hurð nærri hælum því þá bjargaði Tobias á línu eftir skalla frá Rodri. Það hefði í raun verið vel sanngjarnt ef KA hefði jafnað þarna. Konan mín var mjög ánægð með Tobias þarna eftir að hafa skammað hann allan leikinn. Hann fékk reyndar litla þjónustu í þessum leik og sást lítið en þarna bjargaði hann tveimur stigum. Og sigurinn hafðist. Mjög mikilvægur sigur og þrjú stig í hús þótt spilamennskan hafi ekki alltaf verið skemmtileg á að horfa. En eftir síðasta leik var mjög mikilvægt að halda hreinu. 

Dómur konunnar minnar eftir seinni hálfleik. „Þetta var alltof kaótískt hjá Blikum. Þurfa að gera betur næst.“ 

-Harri

Til baka