BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: ÍBV - Breiðablik

29.06.2022 image

Grafík - Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

11. umferð en tólfti leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Blikar með 11 stiga forskot á toppnum > Förum til Eyja > Miðasala á Stubbur > Gosloakahátíð í Eyjum > Sagan: 98 mótsleikir > Gamli leikurinn: ÍBV - Breiðablik 1981 > Blikahópurinn 2022  > Tryggvi Hübner er SpáBliki leiksins  > Dagskráin > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

ÍBV - Breiðablik

Breiðabliksliðið er á fljúgandi siglingu í deild og bikar það sem af er keppnistímabilinu 2022. Blikar eru með 11 stiga forskot á toppnum í Bestu deildinni og tryggðu sér á mánudaginn sæti í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ með 2:3 sigri á ÍA á þeirra heimavelli á Skaganum.

40 dagar á milli heimaleikja

Leikurinn gegn ÍA á mánudagskvöld var fyrsti leikur Blika í 5 leikja útileikjahrinu í deild, bikar og Evrópukeppni. Næstu þrír leikir okkar manna í deildinni eru á útivelli gegn: ÍBV, Keflavík og FH. Og 7. júli er útileikur við UE Santa Coloma út í Andorra. Aðeins einn heimaleikur liðsins er nú á dagskrá í næsta mánuði þegar UE Santa Coloma kemur í heimsókn 14. júlí. Næsti heimaleikur Blika í deildinni er ekki fyrr en 2. ágúst þegar við spilum við ÍA á Kópavogsvelli - þá verða liðnir 40 dagar frá síðasta deildaleik okkar manna á Kópavogsvelli.

23 ára met slegið

Eftir sigurleik gegn KR á Kópavogsvelli í síðustu viku var ljóst að Blikaliðið sló 23 ára met í fjölda sigurleikja í deild í röð á heimavelli. Sigurleikurinn gegn KR var sextándi heimasigur okkar manna í röð í efstu deild - síðasti tapleikur Blikamanna var einmitt gegn KR á Kópavogsvelli í fyrstu umferð Pepsi MAX  í maí 2021.

ÍBV átti metið. Eyjaliðið sigraði í 15 heimaleikjum í röð á Hásteinsvelli á árunum 1997-1999 - og á árunum 1997-2000 afrekaði Eyjaliðið að fara taplausir í gegnum 3 1/2 keppnistímabil.

Næsti leikur - "Road trip"

Næsti leikur okkar manna í Bestu deildinni er einmitt gegn ÍBV á Hásteinsvelli í Eyjum á laugardag. Um er að ræða leik í 11. og síðustu umferð fyrri hluta mótsins. Leik Breiðabliks og KR var flýtt um tvær vikur vegna Evrópuleikja beggja liða.  

Kópacabana menn og aðrir stuðningsmenn búnir að pakka og gera sig klára í fjögurra leika útileikjatörn sem hófst á Skaganum á mánudaginn. Næsti viðkomustaður er Hásteinsvöllur í Vestmannaeyjum. Svo verður farið til Keflavíkur. Frá Keflavík verður komið við í Krikanum, og í Kórnum, áður en tekið verður á móti Skagamönnum á Kópavogsvelli í byrjun ágúst. Inn í þetta plan blandast svo að minnsta kosti einn Evrópuleikur á Kópavogsvelli. 

Flautað verður til leiks í Eyjum kl.16:00! 

Goslokahátiðin 2022 er í fullum gangi frá 30. júní til 3. júlí. Dagskráin hér.

Miðasala á leikinn á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 BD fyrir þá sem ekki komast til Eyja.

Staðan í Bestu deild eftir 10 umferðir - Blikar á toppnum með 11 stiga forskot eftir 11 leiki:

image

Sagan & Tölfræði

Fyrsti leikur liðanna var æfingaleikur í Vestmannaeyjum sumarið 1958 þegar Breiðabliksliðið var að stíga sín fyrstu skref á knattspyrnuvellinum - knattspyrnudeild Breiðabliks var stofnuð 1957.

image

Leikur ÍBV og Breiðabliks á laugardaginn verður 99. mótsleikur liðanna frá fyrsta mótsleik árið 1960. Eyjamenn leiða með 42 sigra gegn 37 sigrum Blika í 98 mótsleikjum frá upphafi. Jafnteflin er 19. 

Þessu til viðbótar eru margir óskráðir leikir liðanna í svonefndri Bæjarkeppni - keppni sem var leikin heima og heiman vor og haust í kjölfar eldgossins í Eyjum 1973, en mikill vinskapur er á milli Kópavogs og Vestmannaeyja.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild eru 60. Blikar leiða þar með 24 sigra gegn 21 sigri ÍBV. Jafnteflin eru 15. Markskorun er 163 mörk sem skiptast jafnt: Blikar 82 mörk og ÍBV 81 mörk. 

ÍBV féll niður um deild 2019 en félagið er aftur komið upp í deild þeirra bestu. 

Síðast þegar Blikar léku á Hásteinsvelli í lok september 2019 gekk yfir mikil haustlægð. Töluvert var fjallað um hvort fresta ætti leiknum sem lauk með jafntefli líkt og 2 árin þar á undan. 

Síðustu 5 leikir í Eyjum:

Gamli leikurinn

Fyrsti opinberi keppnisleikur ÍBV og Breiðabliks í Eyjum var 1. júlí 1960 í gömlu 2. deildinni. Eyjamenn unnu þann leik nokkuð stórt og þannig voru úrslit oft í leikjum liðanna alveg fram undir 1980. Blikar vinna reyndar í Eyjum í B-deild árið 1963 og svo næst A-deild árið 1972 - sem sagt tveir 2 deildasigrar í Eyjum af 10 mögulegum (4 í B og 6 í A) frá 1960 til 1980. 

Árið 1981 Breiðablik með mjög gott lið sem var í toppbaráttu allt sumarið.

Gamli að þessu sinni er ÍBV - Breiðablik sem leikinn var á Hásteinsvelli sunnudaginn 27. júní, 1981. 

Morgunblaðið 29. júní 1981 "Blikarnir gefa ekkert eftir í toppbaráttunni í 1. deild og á sunnudaginn nældu þér sér í tvö dýrmæt stig, er þeir sigrðu ÍBV 2-1 í Eyjum. Blikarnir eru því enn taplausir í deildinni og fylgja fast á hæla Víkinga, ákveðnir að hleypa Hæðargarðsliðinu ekki um of fram úr. Sigur Breiðabliks í Eyjum á sunnudaginn var verðskuldaður, en liðið þurfti að hafa fyrir því að innbyrða sigurinn. Mörk þeirra voru ekki í besta gæðaflokki, eins og Blikarnir hafi svo sem nokkuð við það að athuga þegar stigin tvö komu á annað borð þeim til tekna á töflunni

27.06 20:00
1981
ÍBV
Breiðablik
1:2
6
A-deild | 9. umferð
Hásteinsvöllur | #

Það voru Helgarnir, Bentson og Helgason sem sáu um að skora mörk Blika í 1:2 sigri. 

Sá sem skrifar þessa samantekt var á leiknum í Eyjum  og er sérstaklega minnisstætt mark Helga "Basla" Helgasonar í leiknum. Ég var sem sagt staddur fyrir aftan Eyjamarkið og sé mjög vel þaðan hvernig Basli skoraði sitt fyrsta og eina mark í efstu deild með Blikum, en blaðamaður Morgunblaðsins lýsir markinu svona "Það var á 25. mínútu og Breiðablik í sókn. Varnarmenn ÍBV náðu að brjóta þá sókn á bak aftur, en fyrir einhver óskiljanleg atvik barst knötturinn út til Helga Helgasonar bakvarðar UBK, sem var einn og óvaldaður fyrir utan vítateigshornið. Átti Helgi í engu "basli" með að skora". Ég var nú ekki var við neitt basl á Basla - bara geggjað mark og fagnaðarlátum hans sem fylgdu í kjölfarið verður ekki lýst með orðum!

Lið Breiðabliks í leiknum gegn ÍBV 1981: Guðmundur Ásgeirsson (M), Helgi Helgason, Tómas Tómasson, Valdimar Valdimarsson, Ólafur Björnsson (F), Vignir Baldursson, Hákon Gunnarsson, Jóhann Grétarsson, Jón Einarsson, Helgi Bentsson, Sigurjón Kristjánsson.  Af bekknum: Gísli Sigurðsson, Gunnlaugur Helgason.

Leikmannahópur Breiðabliks 1981:

image

Efsta röð frá vinstri: Gunnar Steinn Pálsson liðsstjórn og túlkur, Jóhann Grétarsson, Jón Einarsson, Tómas Tómasson, Fritz Kissing þjálfari, Sigurður Grétarsson, Þorsteinn Geirsson, Þorsteinn Hilmarsson, Jón Ingi Ragnarsson formaður knattspyrnudeildar.

Miðröð frá vinstri: Helgi Basli Helgason, Ómar Rafnsson, Björn Þór Egilsson, Valdimar Valdimarsson, Gunnlaugur Helgason, Ólafur Björnsson, Helgi Bentsson.

Neðsta röð frá vinstri: Hákon Gunnarsson, Vignir Baldursson, Sigurjón Kristjánsson, Árni Dan Einarsson, Guðmundur Ásgeirsson, Gísli Einarsson, Sigurjón Rannversson.

Blikahópurinn 2022

Tveir leikmanna ÍBV hafa spilað í grænu Breiðablikstreyjunni.

Guðjón Pétur Lýðsson lék 156 leiki og skoraði 28 mörk með Blikum á 7 árum á tímabilinu 2007 til 2021. Árin 2013-2015 var GPL mjög öflugur með Blikaliðinu  - 105 mótsleiki og 25 mörk.

Atli Hrafn Andarson spilaði 15 leiki með Blikum 2020-2021. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfarari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkarþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 11. umf er Kópavogsbúi frá fæðingu, búsettur og uppalinn í Vallargerðinu. Fylgdist með þeim grænu frá unga aldri, það var stutt að fara á völlinn og sjá kappa á borð við Dúmma og Daða, Jón Inga, Gvend Þórðar og Halla Erlends ofl. topp menn.  Spáblikinn viðraði sig jafnvel í græna búningnum á æfingum og leikjum en brátt varð um fótboltaferilinn þar sem dvalið var langdvölum á sumrum í sveit. Auk þess bar svo til um þessar mundir að hljómplötur með Jimi Hendrix bárust í Vallargerðið og áhuginn leitaði þar eftir meira í átt að gítarspili og Rokkmúsik. 

Tryggvi Hübner – Hvernig fer leikurinn?

Við þessir gömlu sem höfum fylgst með liðinu og klúbbnum frá byrjun eða svo gott sem vitum það vel að gengið hefur sosem verið misjafnt. Jójó lið, hvað er grænt og fellur á haustin og álíka frasar glumdu á okkur ár eftir ár. Einhvern veginn er það samt alltaf gaman að vera Bliki. Ástæðan er einföld: Framtíðin er björt. Hún hefur alltaf verið björt hjá þessu félagi. 

En eftir 3 fyrstu leikina á þessu tímabili varð ekki hjá því komist að lýsa því yfir: ,,Framtíðin er komin."

Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með liðinu í sumar. Frábær liðsheild, jafnvægi í liðinu og skipulag og vinnusemi til  fyrirmyndar.

Frábærir einstaklingar , það er varla hægt að nefna nein nöfn, maður þyrfti þá að telja upp alla, jafnt í byrjunarliði og þá sem koma af bekknum.  Eins og staðan er þegar þetta er ritað eru Blikar með 11 (ellefu)  stiga forskot á næsta lið  og 23 mörk í plús. Enn sem komið er ótvírætt langbesta lið deildarinnar 2022. Og verða það líklega áfram ef menn halda áfram að taka einn leik í einu og sýna sama baráttuvilja og hingað til.

Framundan er enn einn stórleikurinn, nú gegn Eyjamönnum, ÍBV. Þetta hafa í tímans rás verið stórskemmtilegir leikir, Eyjamenn ávallt baráttuglaðir og með frábæra stuðningsmenn. Ég hef reyndar bara farið á einn leik á Hásteinsvelli en séð marga heimaleiki Breiðabliks gegn ÍBV. Það er eins og mig minni að aðsóknarmet á Kópavogsvelli hafi verið sett í leik gegn ÍBV fyrir fáum árum.

En hvað um það þessi leikur verður á Hásteinsvelli 2. júlí og hefst kl. 16:00.

Við byrjum þennan leik rólega en eftir 22 mínútur skorar leikmaður númer 22 og Blikar taka forystu.

Eyjamenn eru ekki þekktir fyrir að gefast upp og ná að jafna fljótlega eftir leikhlé, með langskoti eftir mikla stórsókn Breiðabliks, þarna var markmaður Blikanna kominn helst til framarlega. Eftir þetta kemur Andri Yeoman inn á og teiknar upp hverja snilldarsóknina eftir aðra, skorar sjálfur tvö og á stoðsendingu á Jason. Mikkel Qvist skorar svo með skalla eftir hornspyrnu í lokin. Úrslit: ÍBV eitt, Breiðablik 5.

image

Dagskrá

Kópacabana menn og aðrir stuðningsmenn búnir að pakka og gera sig klára í fjögurra leika útileikjatörn sem hófst á Skaganum á mánudaginn. Næsti viðkomustaður er Hásteinsvöllur í Vestmannaeyjum. Svo verður farið til Keflavíkur. Frá Keflavík verður komið við í Krikanum, og í Kórnum, áður en tekið verður á móti Skagamönnum á Kópavogsvelli í byrjun ágúst. Inn í þetta plan blandast svo að minnsta kosti einn Evrópuleikur á Kópavogsvelli. 

Flautað verður til leiks í Eyjum kl.16:00! 

Goslokahátiðin 2022 er í fullum gangi frá 30. júní til 3. júlí. Dagskráin hér.

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 BD fyrir þá sem ekki komast til Eyja.

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum Blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

image

Til baka