Besta deildin 2024: Breiðablik - Stjarnan
18.05.2024Stjörnumenn koma í heimsókn á Kópavogsvöll á þriðjudaginn í 7. umferð Bestu deildar karla 2024.
Upplýsingar um breytt fyrirkomulag miðasölu á Kópavogsvelli hér. Miðasalan er á Stubbur. Hægt er að kaupa árskort hér.
Flautað verður verður til leiks á Kópavogsvelli kl.19:15! Græna stofan opin fyrir leik. Börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni.
Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Staðan í deildinni eftir sex umferðir - Blikar í 2. sæti með 12 stig. Stjarnan í 5. sæti með 10 stig.
Sagan & Tölfræði
Mótsleikir
Innbyrðis mótsleikir Breiðabliks og Stjörnunnar eru 71. Blikar leiða með 32 sigra gegn 27 - jafnteflin er 12.
Efsta deild
Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild eru 39. Staðan er okkar mönnum í vil með 20 sigra gegn 11 - jafnteflin eru 8.
Markaskorun í þessum 39 leikjum er: Breiðabli 75 mörk, Stjarnan 53 mörk.
Leikir liðanna í efstu deild í Kópavoginum eru 21. Blikar leiða þar með 12 sigra gegn 5 - jafteflin eru 4.
Síðustu 5 viðureignir liðanna í efstu deild á Kópavogsvelli;
Leikmannahópurinn
Aðalþjálfari gestaliðsins, Jökull Ingason Elísarbetarson, hefur spilað í grænu Breiðablikstreyjunni. Jökull lék 116 mótsleiki með Blikum á árunum 2010-2013. Jökull varð Íslandsmeistari með Blikaliðinu 2010.
Uppalinn Bliki, Guðmundur Kristjánson, leikur nú með Stjörnunni. Guðmundur spilaði 136 mótsleiki og skoraði 36 mörk með Breiðabliki á árunum 2006-2012 og var sterkur póstur í Bikarmeistaraliði Breiðabliks 2009 og Íslandsmeistaraliðinu 2010. Og Sindri Þór Ingimarsson er uppalinn hjá Breiðabliki.
Í þjálfarateymi Breiðabliks eru tveir fyrrverandi leikmenn Stjörnunnar. Eyjólfur Héðinsson aðstoðarþjálfari með 126 leiki á árunum 2016-2021. Og Haraldur Björnsson markmannsþjálfari með 138 leiki á árunum 2017-2022.
Okkar maður Kristófer Ingi Kristinsson er uppalinn hjá Stjörnunni en hélt mjög ungur út í atvinnumennsku og náði þ.a.l. aðeins einum mótsleik með Stjörnuliðinu.
Leikmenn sem komu til okkar fyrir keppnistímabilið:
Kristinn Jónsson (KR) Kiddi Jóns kominn heim * Aron Bjarnason (Ungverjaland) Aron Bjarna mættur í grænt * Arnór Gauti Jónsson (Fylkir) Arnór Gauti mættur í Kópavoginn * Benjamin Stokke (Noregur) Norski framherjinn Benjamin Stokke til Breiðabliks * Daniel Obbekjær (Færeyjar) Daniel Obbekjær gerir 3 ára samning við Breiðablik * Ísak Snær Þorvaldsson á láni (Noregur) Ísak Snær aftur í Kópavoginn.
Leimenn Breiðabliks sem voru á láni hjá öðrum liðum 2023: Dagur Örn Fjeldsted (Grindavík) - Eyþór Aron Wöhler (HK) - Pétur Theódór Árnason (Gróttu). Í mars rifti Pétur samningi sínum við Breiðablik og íhugar að hætta í fótbolta, en meiðsli hafa sett risastórt strik í feril hans undanfarin 2-3 ár. - Tómas Orri Róbertsson (Grindavík) - Tumi Fannar Gunnarsson (Augnablik) - Viktor Elmar Gautason (Augnablik)
Leikmenn Breiðabliks á láni hjá öðrum liðum keppnistímabilið 2024: Ásgeir Helgi Orrason (Keflavík). Tómas Orri Róbertssson (Grótta).
Farnir: Alex Freyr Elísson (Fram...var á láni hjá KA) - Anton Logi Lúðviksson (Noregur) - Arnar Númi Gíslason (Fylkir...var á láni hjá Gróttu) - Ágúst Eðvald Hlynsson (Danmörk) - Davíð Ingvarsson (Danmörk) - Gísli Eyjólfsson (Svíþjóð) - Hilmar Þór Kjærnested Helgason (Fylkir) - Klæmint Olsen (Færeyjar ...var á láni frá NSÍ) - Oliver Stefánsson (ÍA). - Eyþór Aron Wöhler (KR)
Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur Héðinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki leiksins á rætur sínar að rekja til Siglufjarðar en hann er fæddur árið 1954. Hann flutti á Víghólastíginn í Kópavogi árið 1960 þar sem hann ólst upp á fjörugu heimili þar sem bræðurnir voru 6 talsins, allir tiltölulega ofvirkir en móðir hans stýrði málum af mikilli röggsemi. Hann gekk strax til liðs við Breiðablik og hefur verið einn dyggasti stuðningsmaður félagsins æ síðan. Spilaði sjálfur frá 1963 og æfingarnar voru á Vallargerðisvelli – en hann kom líka við á Kópavogstúninu og fylgdist með Ármanni Lárussyni glímukappa, Sigurði Geirdal síðar bæjarstjóra í árdaga frjálsra íþrótta í bænum.
Blikinn lærði til múrara en var mikið á sjó og því hætti hann snemma íþróttaiðkun en réði sig til Kópavogsbæjar sem húsvörður í Lindaskóla 2002. 2009 réði hann sig sem yfirhúsvörður hjá Kópavogsbæ þar sem hann hefur verið síðan en er að undirbúa starfslokin eftir farsælan feril hjá bænum. Það vita allir að hann er besti ambassador sem Breiðablik hefur á bæjarskrifstofunum og sækir alla leiki félagsins þegar hann hefur tök á og hefur gert í áratugi. Jói er alltaf reiðbúinn að leggja félaginu lið ef óskað er eftir og þau eru mörg viðvikin sem hann hefur sýnt gegnum áratugina. Aðspurður segir SpáBlikinn „Breiðablik er ekki bara íþróttafélag – það er samfélag og ég er stoltur af að tilheyra því“
Jóhannes Ævar Hilmarsson - Hvernig fer leikurinn?
„Leikurinn endar 2-1 eftir harða baráttu – enda eru leikir þessara félaga alltaf mjög spennandi. Það verður gaman að fylgjast með gamla Blikanum Guðmundi Kristjánssyni etja kappi við gamla félaga úr Íslandsmeistarliði okkar frá 2010. Kiddi Jóns mun leggja upp bæði mörkin – sem Aron Bjarnason og Höskuldur fyrirliði skora.
SpáBliki leiksins ásamt dótturinni í stúkunni á Kópavogsvelli.
Dagskrá
Græna stofan opin fyrir leik, börger á útigrilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni.
Upplýsingar um breytt fyrirkomulag miðasölu á Kópavogsvelli hér. Miðasalan er á Stubbur. Hægt er að kaupa árskort hér.
Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á mánudagskvöld kl.19:15!
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
PÓÁ
Blikar TV klippur frá fjörugum 3:2 leik þegar Stjarnan kom í heimsókn í maí 2022:
Hvað finnst leikmönnum um nýju Bestu deildar myndirnar sem eru komnar í sölu: