Besta deildin 2025: Breiðablik - Vestri
17.07.2025
Eftir frábæran sigur á Egnatia frá Albaníu í seinni leik liðanna í undankeppni Meistaradeildar Evrópu á Kópavogsvelli í vikunni, og þá staðreynd að Breiðabliksliðið mætir pólska liðinu Lech Posnan kl. 18:30 á þriðjudaginn kemur, er loksins komið að heimaleik okkar manna í Bestu deildinni - síðasti leikur í deildinni á Kópavogsvelli var fyrir tæpum mánuði.
Breiðablik - Vestri. Flautað til leiks á Kópavogsvelli á kl.14:00 á laugardaginn. Miðasala á leikinn er á Stubb
Blikaborgarar á grillinu. Kaffi og góðgæti í Blikasjoppunni. Græna stofan opin.
Mætum í stúkuna á Kópavogsvelli og hvetjum okkar menn til sigurs. Kópacabana sveitin mætir að sjálfsögðu!
Gríðarlega spennandi staða á toppnum hefur dregist upp þegar 2 leikjum er ólokið í 15. umferð deildarinnar. Þrjú efstu liðin í Bestu deildinni og lið Vestra, sem tryggði sér um daginn sæti í úrslitaleik Mjólkurbikarkeppni KSÍ 2025, eiga leiki um helgina. Breiðablik og Vestri mætast á Kópavogsvelli á morgun, laugardag, og lokaleikur 15. umferðarinnar er svo viðureign Reykjavíkur Víkinga gegn Valsmönnum í Víkinni á sunnudagskvöld. Okkar menn þurfa að fá öll þrjú stigin í leiknum gegn Vestra til að trygga áframhaldandi góða stöðu í einu af toppsæti deildarinnar. Blikliðið getur með sigri á Vestra jafnað topplið Víkings að stigum - að því gefnu að Valur sæki 3 stig í Víkina. Gerist það verða þrjú efstu liðin öll með 30 stig eftir 15 umferðir:
Sagan & Tölfræði
Íþróttafélagið Vestri er ungt félag - stofanð 16. janúar 2016 við sameiningu íþróttafélaganna BÍ88, KFÍ, Skellur og Sundfélagið Vestri, á Ísafirði. En upphaf Vestra má rekja til ársins 1986 þegar BÍ er stofnað. Þegar ÍBI er lagt niður árið 1987, og félagið fært undir Héraðssamband Vestur-Ísfirðinga, færðust flestir leikmenn ÍBÍ yfir til BÍ sem þá breytir nafni félagsins í BÍ 88 fyrir keppnistímabilið 1988. Átján árum síðar (2006) breytist nafn félagsins í BÍ/Bolungarvík og keppir undir því nafni þar til fjölgreinafélagið Vestri er stofnað árið 2016.
Gagnagrunnur blikar.is sýnir 10 innbyrðis viðureignir Breiðabliks og Vestra í öllum mótum - fyrst árið 2011 þegar liðin mættust í 16-liða úrslitum Valitor-bikarsins á Torfnesvelli. Heimaliðið, þá BÍ /Bolungarvík, sló okkar menn út með öruggum 4:1 sigri. Liðin mætast svo aftur ári síðar í bikarnum, þá Borgunarbikarinn, og vinna okkar menn öruggan 5:0 sigur í 32-liða úrslitum á Kópavosgvelli. Liðin mætast svo í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ á Kópavogsvelli 15. maí í leik sem Vestri vann 2:1. Gott gengi liðsins í Mjólkurbikarnum hélt áfram - Vestri vann Þór Ak í 8-liða og Fram í 4-liða úrslitum og er Ísfjarðarliðið komið alla leið í úrslitaleik keppninnar í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Leikir Breiðabliks og Vestra í efstu deild til þessa:






Leikmannahópurinn
Það er ekki lengur Breiðablikstenging í leikmannahópi gestanna eftir að Benedikt V. Warén söðlaði um og fór í Stjörnunna.
Leikmannahópur Breiðabliks verður þunnskipaðri á morgun en oft áður. Þrír leikmenn, þeir Arnór Gauti Jónsson, Ásgeir Helgi Orrason og Valger Valgeirsson taka allir út leikbann vegna fjölda áminninga í leiknum gegn Vestra. Og einhverjir leikmenn eru frá vegna meiðsla og/eða leikjaálags.
Góðar fréttir eru að Damir Muminoviv er aftur mættur í grænu treyjuna: Damir er kominn með leikheimild með Breiðabliki árs dvöl hjá DPMM FC í Brúnei. Það má því búast við að þeir félagar Viktor Örn og Damir manni hjarta varnarinnar í leiknum gegn Vestra. Þau eru ekki ófá sporin sem þeir hafa stigið saman í vörn Breiðabliksliðsins. Báðir eiga þeir að baki yfir 300 mótsleiki í Breiðablisktreyjunni. Viktor Örn náði 300 mótsleikja áfanganum í lok júni á þessu ári, Damir er með 388 mótsleiki fyrir leikinn á morgun. Damir er næst leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi. Leikjahæstur er Andri Rafn Yeoman með 488 mótsleiki. Báða leikmenn vantar aðeins 12 leiki til að ná næstu áföngum; Damir 400! og Andri Rafn 500!.
Breiðabliksteymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Brynjar Dagur Sighvatsson og Dagur Elís Gíslason.
Mynd: Leikmannahópur Breiðabliks 2025
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki leiksins gegn Vestra er fæddur í Kópavogi árið 1956 og hefur búið og starfað þar alla tíð sían. Hann er Bliki í húð og hár og hefur verið frá upphafi. Spáblikinn æfði með með Breiðabliki í gamla daga. Blikinn hefur verið meðlimur í Blikaklúbbnum frá upphafi og reynir að sækja leiki Breiðabliks eins oft og mögulegt er.
Mynd tekin á sigurleileik Breiðabliks gegn Egnatia á Kópavogsvelli á þriðjudaginn var. Á mynd f.v.: Marteinn Bergmann Heiðarsson, Guðmundur Ólafur Heiðarsson og Elín Inga, dóttir Guðmundar. Bræðurnir Marteinn og Guðmundur eru báðir færir blikksmiðir og ráku saman fyrirtækið Mannberg, en núna er Marteinn sestur í helgan stein og Guðmundur fer senn að gera hið sama enda er sonurinn, Ásgeir Ingi, að taka yfir stjórn vélsmiðjunnar.
Guðmundur Ólafur Heiðarsson - Hvernig fer leikurinn?
Mín spá á leik Breiðabliks og Vestra, þar sem við eigum harma að hefna, er 3-0 fyrir Blikum. Held að Vestra menn verði í sigurvímu að vera komnir í úrslit í Mjólkurbikarnum og það verði þeim að falli.
Áfram Breiðablik alltaf og allsstaðar.
SpáBlikinn Guðmundur Ólafur Heiðarsson spáir Blikum sigri í leiknum gegn Vestra
Dagskrá
Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.14:00 á laugardaginn.
Miðasala á leikinn gegn Vestra er á Stubb
Blikaborgarar á grillinu. Kaffi og góðgæti í Blikasjoppunni. Græna stofan opin.
Mætum í stúkuna á Kópavogsvelli og hvetjum okkar menn til sigurs.
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
PÓÁ
Mörk og atvik úr fyrri leik liðanna í Bestu deildinni í sumar: