BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Birta – bíddu eftir mér

14.05.2023 image

Það var stórmannlegt af KR-ingum að kalla gamla leikvanginn sinn „Meistaravelli“ í tilefni af komu Blika laugardaginn 14. maí. Liðin gengu inn á völlinn kl. 16.00, þremur tímum áður en Söngvakeppni evrópskra sjónvarsstöðva skyldi hefjast í Liverpool. Tíðindamaður Blikar.is hafði einmitt hugsað með sér um morguninn þegar var bjart var yfir: „kannski opnast fagrar gáttir himins“ þegar líður á daginn.

Og það stóð heima. Veðurfræðingar lugu engu um það. 

Um það bil sem leikurinn var flautaður á var komin mígandi rigning og skítakuldi. KR-völlurinn hefur átt betri daga og mun örugglega verða fagurgrænn í sumar – en sá tími er ekki kominn. Ef fréttaritarinn væri embættismaður hefði hann sagt að því fylgdu margvíslegar áskoranir að leika knattspyrnu við þessar aðstæður, jafnvel miklar áskoranir, en í því fælust jafnframt ýmis tækifæri og síðan dregið upp alls kyns sviðsmyndir.

Anton Logi og Viktor Karl voru í banni en lið Blika var þannig skipað:

image

Hertu upp huga þinn

Kannski fylgdi því ákveðin gæfa fyrir okkar menn að mæta til leiks með tólf stig í vasanum á þessum mikla Evróvisjóndegi? Og varla færi Damir að hleypa inn marki á aldarþriðjungsafmælinu sínu. Líkurnar voru aftur á móti ekki með okkar mönnum. Þeir hafa ekki sótt marga sigra í Frostaskjólið á liðnum árum – en það gerðist þó í fyrra.

Leikurinn hófst. KR-ingar voru mættir með eitt stig og ætluðu greinilega að hanga á því með fimm manna varnarlínu. Stefnan var bersýnilega sú að herða upp huga sinn, hnýta allt í hnút, eftir dapurt gengi framan af móti. Þess má geta að íslenskt lag hefur aldrei fengið eitt stig í söngvakeppninni en hins vegar hlaut Birta / Angel þrjú stig árið 2001 og Það sem enginn sér núll stig árið 1989. Líkurnar á jafntefli voru því ekki miklar í ljós þess hvaða dagur var. 

Skemmst er frá því að segja að boltinn rúllaði ekki á vellinum heldur skoppaði, það voru tæklingar um allan völl og tættist „grasið“ upp í réttu hlutfalli við það, ekki reyndi mikið á markmennina, nema hvað KR-ingurinn var stöðugt að sparka í stöngina til að hreinsa undan skónum áður en hann tók markspyrnur – sem voru nokkrar.

Lalalalifandi inní mér

Eftir hálftíma leik átti Gísli gott skot fyrir utan teig en það var varið. Tveimur mínútum síðar skapaðist stórhætta við mark KR-inga eftir ítrekaðar hornspyrnur Höskuldar. (Hvað varð um gömlu góðu regluna um að eftir þrjú horn í röð fái lið víti?). Stefán Ingi átti skot yfir. Þar með eru færin upp talin í fyrri hálfleik. Það var meira um tæklingar og pústra, menn runnu á rassinn við öll tækifæri og ef þeir væru ekki í svona góðu formi hefði mátt vísa í naut í flagi. Okkar menn voru þó ágengari og hættulegri. Kannski blundaði í KR-ingum að með tapi færu þeir í fallsæti, mögulega sögðu þeir einbeittir við kvíðann sem Diljá söng um tveimur dögum áður á stóra sviðinu: „þú ert ekki lalalalifandi inní mér“. En þegar þeir nálguðust mark Blika gerðist engu að síður afar fátt. Þeir voru svolítið „all out of luck“.

Þegar liðin gengu til búningsherbergja hugsuðu líklega flestir: vonandi eru liðin með varabúninga!

Enginn strýkur blítt um vanga mér

Á grasvöllum birtist vanalega her starfsmanna í leikhléi með alls kyns tól og tæki til að laga það sem aflaga hefur farið í fyrri hálfleik. Því var ekki að heilsa í Frostaskjóli að þessu sinni. Líklega hugsaði vallargreyið með sjálfum sér: „enginn strýkur blítt um vanga mér“. Aftur á móti virtust heimamenn vera farnir að ákalla æðri máttarvöld í hlénu því að í hátalarakerfinu ómaði Heyr mína bæn (sem einmitt sigraði í söngvakeppninni árið 1964).

Síðari hálfleikur hófst með nokkrum látum, „með ekta sveiflu og hér / þreytist enginn“ – amk ekki framan af. Gísli átti hörkuskot framhjá þegar mínúta var liðin og tveimur mínútum síðar fengu heimamenn sitt besta færi þegar einn af ungu piltunum brenndi af á markteig. Nærstaddir fullyrða að þegar hann skokkaði þungur á brún til baka hafi hann raulað fyrir munni sér: „Is it true? / Is it over? / Did I throw it away?“

Þú ert eins og eldur

Svo sem kunnugt er hafa Blikar stundum gengið til liðs við KR og sumir snúið aftur. Leikmenn þekkjast því vel, sumir hverjir. Eftir 52 mínútur hófst mikil rimma á milli Andra Rafns og Atla Sigurjónssonar sem þó var nokkuð einhliða. Sá ungi lét sinn gamla dagfarsprúða félaga finna fyrir því nokkrum sinnum á fárra mínútna kafla og uppskar réttilega gult og hefði jafnvel átt skilið að fá annað gult. Óskar sá sér þann kost vænstan að skipta Andra Rafni út af í kjölfarið og setja Alexander Helga inn á. Þá færðist fjörið yfir á hinn vænginn þar sem hinir gömlu samherjar, bæði í Breiðabliki og KR, Kristinn Jónsson og Arnór Sveinn, áttust við en árásirnar voru samt nokkuð einhliða á hinn léttleikandi Blika. 

Færin létu sem fyrr á sér standa. Baráttan var í torfærunni á miðjum velli. Tíðindamaður Blikar.is komst ekki í Vesturbæinn í tæka tíð fyrir leik og varð því að horfa á hann í sjónvarpi. (Kuldinn barst meira að segja heim í stofu.) Þegar 80 mínútur stóðu á klukkunni hóf sérfræðingurinn með lýsandanum að greina stöðuna, sagði að það væri ekkert mark í kortunum og hélt síðan þeirri ígrunduðu ræðu áfram. Þarna fór ekki saman hljóð og mynd, svo gripið sé til klisjunnar góðu (og mætti líka vísa í Steve McLaren á leik Íslands og Englands á EM forðum). Undir tölunni gátu áhorfendur nefnilega notið þess að skyndilega brast á með fögrum samleik hjá Jasoni Daða og Höskuldi utan af hægri kanti þar sem boltinn endaði hjá Gísla fyrir framan teiginn. „Þú ert eins og eldur,“ hugsaði tíðindamaðurinn, með íslenska textann af Paper með Svölu í huga. Enda skipti engum togum – Gísli sveiflaði vinstri fæti af alkunnri snilld og lagði boltann í hægra hornið fjær. 1-0. Þetta var sennilega eina dæmið um eiginlega knattspyrnu í Vesturbænum á þessu hrollkalda síðdegi.

image

Yfir fjöllin há

Eftir þetta má segja að leikurinn hafi fjarað út. Það var nokkurt afrek að ná einum fallegum spilkafla á Meistaravöllum við þessar aðstæður og það á móti vindi. En eins og segir í kvæðinu: „þegar móti mér blæs yfir fjöllin há ég klíf“ og það gerðu okkar menn svo sannarlega í Vesturbænum að þessu sinni. Því fylgdu vissulega „miklar áskoranir“ að leika knattspyrnu við þessar aðstæður en Blikum dugði eitt tækifæri til að taka Birtu á þetta og fara heim með stigin þrjú.

Og Damir gat glaður fagnað afmælinu eftir að hafa haldið hreinu.

Framundan er bikarleikur við Þróttara sem eru sýnd veiði en ekki gefin.

PMÓ

image

Til baka