BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Bitlaust gegn Skagamönnum

24.06.2024 image

Með bjartsýnina að vopni arkaði maður á Kópavogsvöll í fínu fótboltaveðri í gær. Úrslit helgarinnar þýddu það að með sigri á Skagamönnum færu grænir á topp Bestu deiildarinnar og því var hugur í manni. 

Kunnuleg andlit mættu manni þegar inn á barinn var komið að venju. Guðjón í blikalopanum. Gylfi á píluspjaldinu og Dagbjartur sem stóð í markinu þegar maður spilaði í 3.flokki undir stjórn Antons Bjarnasonar um árið. Fastagestir. Allt eins og það á að vera. 

Menn kampakátir og flestir sannfærðir um 3 sig úr pokanum góða.

Byrjunarlið blika var frekar hefðbundið. Anton í markinu. Damir og Viktor. Kiddi og Höskuldur. Oliver og Viktor á miðjunni. Kiddi Steindórs, Jason og Aron, og svo Benjamin Stokke uppi á topp. Tvær breytingar frá síðasta leik.

Blikar byrjuðu leikinn mjög vel og réðu lögum og logum á vellinum í fyrri hálfleik. Stýrðu spilinu gjörsamlega og útlit fyrir að Skagamenn væru komnir til þess að verja það stig sem hafði unnist við upphafsflaut. 

Blikarnir náðu þó aldrei að brjóta ísinn og allar sóknir enduðu nánast ekki. Það var lítið um afgerandi færi og þau færi sem sköpuðust voru frekar bitlaus. 

Á 18 min þá verður Kiddi Jóns fyrir einhverju hnjaski sem verður til þess að á endanum þarf hann að yfirgefa völlin, og inn á kom goðsögnin Andri Rafn Yeoman. Við það fór smá ógn af vinstri væng því þrátt fyrir gæði Andra Rafns þá dylst það engum að Kiddi er mikilvægur hlekkur í uppspili Blika. Vonandi verður hann ekki lengi frá. 

Nokkur hálffæri áttu sér stað en í öll skiptin voru þau frekar einföld fyrir Árna markmann Skagamanna og stundum fannst undirrituðum að skotin sem fóru á markið væru meira eins og sendingar frekar en skot. 

Tvisvar komust þeir Jason Daði og Aron Bjarnason inn fyrir vörnina og í bæði skiptin fóru flöggin á loft. Vissulega er ekkert VAR í íslenskum fótbolta en menn sem sátu á betri stað en ég segja að Aron hefði aldrei verið rangur. Erfitt að segja til um það.

Á 38.min eiga svo blikar dauðafæri sem Árni varði, en flestir sem á horfðu eru enn að velta því fyrir sér hvernig Benjamin Stokke náði ekki að klára það færi. Algjör deddari eins og menn segja. 

Þetta gaf svolítil fyrirheit um hvernig þetta myndi þróast. Blikar hefðu með réttu átt að skora 2-3 mörk í fyrri hálfleik og drepa leikinn en þegar hálfleiksflautan gall þá var enn markalaust.

Í hléi hitti maður fleiri góða gesti og allir áhyggjufullir um lélega færanýtingu. Skaginn hafði ekki átt eina tilraun að marki þegar í hálfleikinn var komið. En áfram gakk.

Skagamenn komu ákveðnir til leiks í þann síðari en um leið komu blikarnir værukærir. 

Gulir fengu sitt fyrsta færi þegar liðlega 50min voru á klukkunni og væru að sækja í sig veðrið. Fá svo sína fyrstu hornspyrnu á 57.min og svo aðra strax og þar kom reiðarslagið. Há sending á fjær. Engin dekkun og Marko Vardic þrumar boltanum í netið. 0-1 og Skagamenn skoruðu markið.

Blikar voru mjög bitlausir í 15 minútur eftir þetta mark og maður hefur áhyggjur af bitleysi okkar manna uppi á topp. Gekk illa að búa til færi og koma bolta á fremsta mann og Skagamenn áttu auðvelt með að verjast.

Á 82.mínútu fá Blikar vítaspyrnu sem Kristófer Ingi fiskar með því að setja bolta í hönd skagamanns og Höskuldur skorar af öryggi eins og venjulega.

Að öðru leyti gerðist lítið í leiknum og Blikar voru full værukærir í sínum aðgerðum. Skagamenn hefðu getað tryggt sér sigurinn á lokamínútunum en Anton Ari varði vel frá Ármanni Smára úr dauðafæri. 

Stig er stig og á endanum voru þetta sanngjörn úrslit, en ég hef áhyggjur af því að þegar Breiðablik er komið í svona stöðu í deildinni að þá er eins og liðið forðist toppinn. Það var ekki sú áræðni og barátta sem maður vonaðist eftir að sjá í þessum leik. Þó mótherjinn teljist ekki með toppliðum þá áttu Blikar mjög erfitt með að brjóta á bak vörn gulklæddra og gerðu það reyndar aldrei í leiknum, svo það teldi í það minnsta.

Spurning hvort Dóri og Flosi séu að skoða að bæta í hópinn, en að mínu viti þarf markaskorara í þetta lið. Vissulega eru þarna menn sem geta skorað mörk úr öllum áttum, en mér finnst vanta ógn uppi á topp.

Það munaði mikið um Ísak sem var meiddur og Patrik sömuleiðis, en um leið væri fínt ef Árni Vil mundi færa sínar æfingar úr Sporthúsinu yfir á æfingasvæðið. Það myndi allavega bæta í breiddina og vopnabúrið uppi á topp.

Dveljum ekki við það og tökum stigið.

Næsti leikur er föstudagskvöldið næstkomandi og þá verða FH-ingar heimsóttir í Kaplakrika.

3 stig takk.

Hannes Friðbjarnarson

Til baka