BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar áfram í Evrópu

20.07.2024 image

Blikar unnu frækinn 3:1 sigur á Tikvesh frá N-Makedóníu í seinni leik liðanna á Kópavogsvelli í gær.  Þar með eru Kópavogspiltarnir okkar komnir áfram í undankeppni Sambandsdeildar UEFA og mæta Drita frá Kósóvo í næstu umferð. Fyrri leikurinn fer fram í Kópavogi á fimmtudaginn en útileikurinn viku síðar.

Blikaliðið var komið upp að vegg eftir slysalegt 3:2 tap á útivelli í síðustu viku. Leikurinn í Kópavogi byrjaði reyndar ekki nógu vel fyrir okkur því gestirnir komust yfir strax á sjöundu mínútu í fyrstu sókn þeirra.  Fór nú aðeins um áhorfendur í stúkuni sem voru langflestir á bandi Blika. En okkar drengir misstu ekki móðinn og sóttu stíft að marki Tikvesh. Hins vegar gekk erfiðlega að finna glufur á sterkri vörn Makedónana og minnti fyrri hálfleikur á margan hátt á leikinn gegn Vestra í Bestu deildinni. Við miklu meira með boltann en náðum samt ekki að skapa okkur nægjanlega góð marktækifæri. Það vantaði meiri djörfung og dáð í sóknarleikinn og því opnaði vörnin lítið. Sem betur fer eigum við leikmann sem heitir Kristinn Steindórsson. Hann getur skapað mikið og er ótrúlega naskur að nýta færi.  Rétt fyrir leikhlé greip hann tækifærið þegar varnarmaður Tikvesh náði ekki að hreinsa nægjanlega vel frá markinu. Kiddi sendi þá knöttinn með lipri spyrnu í hornið og þar með var allt opið fyrir framhaldið.

Áhorfendur hafa oft verið fleiri á Evrópuleik hjá Blikum en að þessu sinni. En þó nokkuð líf var samt i hópnum. Það má nú fyrst og fremst þakka þeim Hilmari Jökli og Sindra sem eru óþreytandi að hvetja Blikana áfram með Kópacabanahópnum sínum. Þar var reyndar frekar fámennt en bæði Hilmar Jökull og Sindri eru nú reyndar á við heila herdeild í stuðningi sínum. Eru þeim hér með færðar miklar þakkir frá öllum Blikum!

Hinn geðþekki margmiðlunargúru og ritfélagi hjá blikar.is, Kristján Ingi Gunnarsson, ritaði ágætan pistil um slysalegan leik þessara liða út útivellli í síðustu viku. Þar sagði hann að seinni hálfleikurinn væri allur eftir. Sannaðist þá hið fornkveðna að oft ratast kjöftugum satt orð á munn! Blikar komu miklu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og sóttu stíft að marki Tikvesh. Eitthvað hlaut að gefa eftir og fyrirliðinn okkar frábæri, Höskuldur Gunnlaugsson, skaut bylmingsskoti að marki eftir gott samspil Ísaks Snæs og Arons Bjarna. Knötturinn small í markinu og allt orðið jafnt í einvíginu.

Áfram héldum við að sækja en mörkin létu á sér standa.  Reyndar var brotið á Alexander Helga í vítaeignum og allir sanngjarnir menn töldu þetta klára vítaspyrnu. En slakur dómari leiksins lét sem hann sæi ekki þetta augljósa brot. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að tefja og var vandræðalegt að sjá þá henda sér niður eftir hvert einasta návígi við Blikana. Dómarinn hefði átt að stoppa þessa vitleysu en lét þá komast upp með þessi látalæti nánast allan leikinn.

Það var ekki fyrr en Patrik Johannessen og Kristófer Kristinsson, sem komu báðir inn á sem varamenn, spiluðu sig vel i gegnum vörn gestanna. Varnarmaður braut harkalega á Kristófer sem tókst samt að snerta knöttinn og inn fór hann.

Ætlaði nú allt um koll að keyra í stúkunni enda Blikaliðið komið áfram með þessum úrslitum. Því miður greip smá taugatitringur um sig í Blikaliðinu og brutu okkar menn klaufalega af sér fyrir framan vítateig okkar. Við höfum fengið mörk á okkur eftir slík klaufabrot bæði gegn Valsmönnum og lika í útileiknum gegn Tikvesh.  Markvörður okkar, Anton Ari, var hins vegar vandanum vaxinn og varði aukaspyrnuna snilldarlega. En það er áskorun frá stuðningsmönnum til leikmanna Blikaliðsins að hætta að gefa aukaspyrnur á svona stórhættulegum stöðum!

En það var mikill léttir þegar dómarinn flautaði til leiksloka og sanngjarn 3:1 sigur Blikaliðsins í höfn. Þar með höldum við áfram í undankeppni Sambandsdeildar UEFA og mætum liði frá Kósóvó næst. En fyrst fáum við KR-inga í heimsókn á Kópavogsvöll á sunnudagskvöldið og þar ætla allir góðir Blikar að mæta.

-AP

Til baka