Þegar vonin ein er eftir!
19.10.2025


Árið 1978 gaf bókaútgáfan Iðunn út söguna ,,Þegar vonin ein er eftir“ eftir franska höfundinn Jeanne Cordelie í snilldarþýðingu Sigurðar Pálssonar. Án þess að fara út í söguþráðinn eitthvað nánar þá kom titill sögunnar upp i huga pistlahöfundar eftir sorglegt 1:2 tap Blikaliðsins fyrir Víkingum í efri hluta Bestu deildar karla á Kópavogsvelli. Þessi úrslit þýða að við Blikar verðum að treysta á vini okkar í Úlfarsárdalnum að þeir leggi nágranna okkar í Stjörnunni annað kvöld.
Þróun leiksins gegn Víkingum var eins og margir aðrir leikir Blikaliðsins í sumar. Við spilum ágætlega út á vellinum en náum ekki skapa okkur nægjanlega góð tækifæri upp við mark andstæðinganna. Svo erum stundum opnir aftur og gefum andstæðingunum tækifæri til að komast yfir. Það gerðist tvisvar sinnum í fyrri hálfleik og getum við þakkað góðri markvörslu Antons Ara að við lentum ekki undir í hálfleiknum. Undir lok hálfleiksins gerði reyndar Viktor Karl vel þegar hann setti knöttinn í netið hjá Víkingum. Staðan þvi ágætlega vænleg fyrir okkur Blika þegar gengið var til búningsherbergja.

Leikurinn var í jafnvægi fyrstu mínútur síðari hálfleiksins og vorum við Blikar með ágæt tök á leiknum. En þá dundi reiðarslagið yfir. Slök útfærsla á hornspyrnu gaf Víkingum tækifæri á skyndisókn og náði einn Víkingur að hlaupa nánast allan völlinn með knöttinn og skora mark framhjá Antoni Ara. Óskiljanlegt kæruleysi hjá Blikaliðinu og skiljanlega sló þetta liðið út af laginu. Skömmu síðar komust gestirnir yfir þegar of margir Blikar voru komnir inn í eigin vítateig og náðu ekki að stöða langskot eins Fossvogspiltsins.
Þrátt fyrir ágætleg færi í lokin tókst þeim grænklæddu ekki jafna leikinn og því fór sem fór. Hundsvekktir Blikar héldu heim og nú er Evrópusæti á næsta ári eingöngu fjarlægur draumur. Ekki þannig að þessi leikur hafi eingöngu gert útslagið. Við erum búin að tapa allt of mörgum stigum í sumar, sérstaklega gegn liðum í neðri hluta deildarinnar. Nú fer fókusinn á Evrópuleikinn gegn Kupsio frá Finnlandi á fimmtudaginn á Laugardalsvelli. Þar gefst Blikaliðinu tækifæri að bæta fyrir vonbrigðin i gærkvöldi. Við hvetjum að sjálfsögðu alla góða Blika að mæta í Laugardalinn á fimmtudag kl.16.45!
Áfram Blikar- alla leið!
-AP