Einir á toppnum
27.07.2025
Það var vart óblásinn lúður á suðvesturhorninu í tilefni fyrsta raunverulega heimaleiks KR á tímabilinu. Sjónvarpsfrétt, þjálfaraviðtöl við þá Dóra og Óskar að ógleymdum ofurupphitunarpistli Péturs Ómars á Blikar.is.
Laugardalurinn hefur þó ekki farið verr með KR-ingana en svo að Óskar Hrafn vinur okkar og sebrahestarnir hans hafa fengið 13 af sínum 16 stigum í töflunni í heimaleikjunum en ekki sótt nema þrjú á útivöll.
Eitt þessara stiga fékk KR-liðið á Kópavogsvelli í byrjun maí. Þá var KR eina taplausa liðið í deildinni. „Hann hefði alveg getað endað 6-6 eða 8-8,“ sagði í frétt Blikar.is eftir leikinn. 3-3 varð niðurstaðan og gengi liðanna verið ólíkt síðan. Okkar menn deildu toppsætinu fyrir leik en KR komið í fallsæti.
Hátíð í 107
Sú staða þvældist ekki mikið fyrir gleði heimamanna í hundraðogsjö Reykjavík. Sólin glennti sig meira segja öðru hvoru fyrir leik í andvara og fimmtán gráðum. Leikurinn hafði verið færður frá sunnudeginum og aðstæður voru því viðlíka góðar til að fá sér kollu fyrir leik og fyrir liðin að láta ljós sín skína á vellinum. Öll sem ekki voru í Vaglaskógi eða á Borgarfirði eystra mættu. Á mínu heimili er þetta montréttarleikur þar sem ég kvæntist inn í KR-fjölskyldu og hef oft kallað Áfram KR á börnin mín, stundum með Breiðablikstrefilinn um hálsinn. Strákurinn sem mestur metingur er við var þó í brúðkaupi á Reyðarfirði þannig að taugarnar fyrir leik voru aðeins slakari en fyrir leikinn í vor.
Áhugavert byrjunarlið
Étandi hamborgara og sötrandi bjór á sólpallinum Frostaskjólsmegin fletti ég upp á byrjunarliði Halldórs. Nújá, hugsaði ég, þegar Thomsen, Viktor Karl, Aron og Ásgeir Helgi byrja á bekknum. Við erum náttúrulega í þannig törn þessar vikurnar að það kann að vera skynsamlegt að dreifa álagi. (Ég hugsaði líka hvað þetta eru ungir menn sem hafa vafalaust gaman að því að spila tvo leiki í viku.)
Jafn leikur
Skemmst er frá því að segja að KR átti fyrsta korterið. Á því áttu þeir sláarskot og okkar mönnum virtist sleginn skellur í bringu. Eiður Gauti – Kópavogsdrengurinn af KR-fjölskyldunum – var að vinna Damir í skallaeinvígjum, sendingar okkar bestu manna fumkenndar, jafnvel þótt enginn væri í þeim. Þarna fór þetta þó að breytast og eftir þessa fyrstu hryðju náðum við tökum. Lygilegt að við kæmumst ekki yfir í hríðskotum þarna strax á eftir þegar varið var af stuttu færi frá Valgeiri og Ágústi Orra og svo eitthvert brot dæmt þegar Kiddi setti hann í hornið af yfirvegun. (Ég sá ekkert að þessu en var reyndar gleraugnalaus hinum megin á vellinum.)
Svo tók við barátta sem eftir lifði hálfleiks þar sem mér fannst okkar gaurar stundum gera einfalda hluti illa. Þeirri snerru lauk með því að ein ágæt, en að því er virtist hættulítil, stungusending KR-inga lenti í einhverjum misskilningi milli Damirs og Antons Ara þannig að við vorum 1-0 undir í hálfleik. Skúli Neskirkjuprestur var sérstaklega ánægður með að Præst skyldi hafa skorað.
Toppliðið undir á móti botnliðinu í hálfleik.
Hmmmmm í hálfleik
Nú fóru 3.107 áhorfendur í biðraðir eftir pylsum, borgara, bjór eða við klóið og yðar einlægur var hugsi í einni röðinni. Frá jafnteflinu í maí hefur sjö liðum í deildinni tekist að vinna KR. Á það ekki fyrir okkur að liggja?
Seinni hálfleikurinn var í raun endurtekning þess fyrri. KR byrjaði betur en svo tókst okkur að skora, ekki þeim. Eftir þetta korter sem þeir sem höfðu verið sennilegri gerði Ágúst Orri enn eina árásina og kláraði sjálfur með því að negla tuðruna upp í þaknetið af feikilegu öryggi.

Þarna voru Thomsen og Viktor Karl komnir inn á og að manni fannst tækifæri til að bæta enn í orkuna með fleiri skiptingum og að hamra járnið meðan heitt væri.
Það gerðist hins vegar ekki. Leikurinn fór í svipað far og nú fóru okkar menn að reyna langar sendingar sínkt og heilagt. Ef það komu út úr þeim stöður var þeim klúðrað með ónákvæmum eða ótímabærum sendingum en alla jafna tapaðist nú bara boltinn við löngu sendinguna sjálfa.
Undir lok leiksins beið maður stuldar af hálfu annars hvors liðsins. Það hefði alveg getað gerst hvoru megin sem var. Þó virtust mér KR-ingarnir sennilegri þessar síðustu mínútur.
Áfram gakk
Við stuðningsfólk Breiðabliks njótum þeirra forréttinda að eiga meistaraflokka hvorttveggja í kvenna- og karlaflokki í allra fremstu röð. Kíktu á stöðutöflurnar og njóttu. Við búum líka við þau forréttindi að liðin okkar eru að spila oftar en mörg önnur þar sem stelpurnar eru að berjast í deild og bikar og strákarnir í deild og Evrópu.
Ég er auðvitað rosalega, brjálæðislega, geggjæðislega, heiftarlega sár yfir því að montrétturinn á heimilinu sé ekki minn fram á næsta vor, en lifi það af 😊
Eiríkur Hjálmarsson
@besta_deildin Ágúst Orri skoraði glæsilegt mark gegn KR! ???? KR - Breiðablik | #bestadeildin ♬ Það er gott að búa í Kópavogi - Ingó Veðurguð & Breiðablik