Er meistaraheppnin gengin í lið með okkur?
09.05.2023
Blikar unnu torsóttan en mjög ánægjulegan 1:2 sigur gegn baráttuglöðum Fylkismönnum í Árbænum í gærkvöldi. Sigurmarkið kom skömmu fyrir leikslok þegar Damir sogaði til sín fjölmarga appelsínugula leikmenn og einhvernveginn fór knötturinn í netið úr þvögunni. Ekki fallegasta mark í heimi til skilar okkur samt 3 stigum í Kópvoginn. Það á færa rök fyrir því að meistaraheppnin sé gengin í lið með okkur enda er þetta annar leikurinn sem við troðum inn marki á lokaandartökum leiks.
Óskar Hrafn þjálfari Blika var hins vegar allt annað en ánægður í viðtalið við fréttamenn eftir leik. Hann sagði liðið sitt hafa verið værukært og kærulaust. Auðvitað væri gott að fá stigin en mikið hefði vantað upp á gæði í leik Blikaliðsins. Í sama streng tók Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði. Sagði hann leikmenn geta mun meira en þeir hefðu sýnt í þessum leik. Þetta er rétt hjá þeim báðum. Þrátt fyrir að vera miklum meira með knöttinn þá náðum við ekki að skapa okkur nógu mörg marktækifæri. Sérstaklega var seinni hálfleikurinn slakur og áttu Fylkismenn í raun auðvelt með að loka á allt spil hjá okkar mönnum. Þetta þarf að laga fyrir KR leikinn á laugardaginn því gamla ljónið er nú komið upp að vegg og er í raun komið í fallbaráttu. Það má því búast við þeim dýrvitlausum í Frostaskjólinu. En okkar drengir vita þetta og má búast við góðri frammistöðu frá Blikaliðinu á laugardaginn.
Það má hins vegar ekki gleyma jákvæðu punktunum varðandi leikinn í gær. Fyrsta markið sem færeyska markavélin Klæmint Andrasson Olsen gerði í gær var algjör snilld. Uppspilið var af heimsklassa og sending Jasonar Daða á Klæmint var hárnákvæm.
Þetta er annað mark Færeyingsins fyrir okkur og á hann örugglega eftir að nýtast okkur vel í öllum keppnum í sumar. Þrátt fyrir að séum að hökta þessa dagana þá eigum við örugglega eftir að koma upp úr djúpinu á hárréttum tíma!
-AP