BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta Deildin 2023: Fylkir – Breiðablik

06.05.2023 image

Fylkir – Breiðablik

Aftur ferðast Blikaliðið upp í Árbæ en núna til að spila við Fylkismenn á þeirra heimavelli.

Flautað verður til leiks mánudaginn 8. maí á Würth vellinum í Árbæ kl. 20:15!

Miðasala er á Stubbur app: Stubbur

Staðan í deildinni eftir 5 umferðir:

Sagan & Tölfræði

Leikurinn á mánudaginn verður 64. mótsleikur liðanna – fá upphafi. Fyrsti innbyrðis leikur liðanna var í 16-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ árið 1978.

Blikar hafa yfirhöndina í þessum mótsleikjum með 34 sigra gegn 16 - jafnteflin er 13.

Leikir í efstu deild eru 36. Sagan er með Blikum með 18 sigra gegn 10 – jafnteflin eru 8.

Blikar hafa skorað 62 mörk gegn 49 mörkum Fylkis. 

Síðustu 5 viðureignir liðanna í Árbænum:

Leikmannahópurinn

Olgeir Sigurgeirsson - næst leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi - er aðstoðarþjálfari Fylkis. Olgeir, eða Olli, spilaði 321 leiki og skoraði 39 mörk í grænu Breiðablikstreyjunni á 13 árum frá 2003 til 2015. Hann var lengi vel leikjahæsti leikmaður meistaraflokks karla eða allt þar til Andri Rafn Yeoman spilaði sinn 322. mótsleik fyrir félagið í júlí 2019, en  Andri Rafn er nú lang leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi með 409 mótsleiki. 

Töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Blika milli ára.

Komnir: Alex Freyr Elísson frá Fram - Arnór Sveinn Aðalsteinsson kominn heim frá KR - Ágúst Eðvald Hlynsson frá Horsens (var á láni hjá Val) - Ágúst Orri Þorsteinsson frá Malmö - Eyþór Aron Wöhler frá ÍA - Klæmint Olsen á láni frá NSÍ Runavík - Oliver Stefánsson frá Norrköping (var á láni hjá ÍA) - Patrik Johannesen frá Keflavík og Stefán Ingi Sigurðarson frá HK (var á láni).

Farnir: Dagur Dan Þórhallsson til Orlando - Elfar Freyr Helgason í Val - Ísak Snær Þorvaldsson til Rosenborg - Mikkel Qvist - Pétur Theódór Árnason á láni til Gróttu - Sölvi Snær Guðbjargarson í frí - Omar Sowe til Leiknis (var á láni frá NY Red Bulls) - Adam Örn Arnarson í Fram (var á láni hjá Leikni) - Benedikt Warén í Vestra (var á láni hjá ÍA)

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu.  Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 6. umferðar er fæddur árið 1973. Bjó í Víðigrundinni í Snælandshverfinu, þar sem Fossvogsdalurinn var hinn stóri leikvöllur. Byrjaði 6-7 ára að æfa fótbolta með Breiðabliki hjá hinum eina sanna „Sissa“ Lék upp yngri flokka félagsins og lánaðist að spila 270 mótsleiki í meistaraflokki á árunum 1990-2004. SpáBlikinn endaði knattspyrnuferilinn sem spilandi þjálfari í Augnabliki í 4.deildinni með það að markmiði að búa til verkefni fyrir stráka sem vildu spila fótbolta eftir 2.flokkinn. Hann gekk í MK eftir grunnskólagöngu og í kjölfarið Kennó.Var „plataður“ af Reyni, gamla skólastjóranum í Snælandsskóla til þess að koma til baka og taka við „gaurabekk“ eftir útskrift. Auðvelt að samþykkja það þegar búsetan var 50 skref frá vinnustaðnum. Eftir 14 ár í Snælandinu þá tóku við 4 ár í Vatnsendaskóla áður en yfirþjálfarastaða bauðst í Breiðabliki árið 2016. Heiður að fá að vinna sem yfirþjálfari í félagi sem maður hefur sjálfur alist upp í og samhliða kennslu, þjálfað yngstu flokkana frá því seint á síðustu öld.

SpáBliki leiksins er giftur Sigurrós Óskarsdóttur frá Grindavík og saman eiga þau 4 börn á aldrinum 14 – 22 ára. Öll hafa þau leikið fótbolta með Breiðabliki en þau elstu fylgja í fótspor pabba og afa og leika með Augnabliki. Dóttirin, sú yngsta er algjör andstæða bræðra sinna og stundar fimleika af miklum krafti í Gerplu.

Hákon Sverrisson - Hvernig fer leikurinn?

Frábært að fá tækifæri til þess að spá í leik okkar við Fylki.  Aðstoðarþjálfari Fylkis er „stórBlikinn“ Olgeir Sigurgeirsson sem er að vinna frábært starf í Árbænum ásamt Rúnari Páli (gömlum herbergisfélaga úr U17 í gamla daga). Okkur hefur í gegnum tíðina liðið vel í Árbænum og sigurmark á síðustu sekúntu gegn Fram er dæmi um það. En þegar minnst er á Fylki í kringum 73 og 72 árgerðirnar hjá okkur þá kemur alltaf upp súr minning frá 1986 þegar þessir árgangar mættust í úrslitaleik Íslandsmótsins í 4.ka á Laugardalsvelli. Eftir að við komumst yfir þá jöfnuðu Kiddi Tomm og félagar, leikurinn fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni þar sem leikar enduðu 8-9 Fylki í vil. Svekkjandi úrslit en við komum til baka í 3.fl og kláruðum loksins óunnið verk.

image

Áhugaverð mynd, aðallega vegna samstarfsfólksins allt í kring.  Siggi Konn, Saxi læknir, Einar Sumarliða, Konni „gamli“, Bonni, Sævar P., Gummi Karl, Bjarki P. Geggjaðir einstaklingar, fyrirmyndir hver á sinn hátt, þjónuðu félaginu í áraraðir án þess að þyggja nokkra ölmusu, eitthvað sem yngri kynslóðir þyrftu að kynna sér, þekkja og tileinka sér í sinni nálgun á tilveru sinni í félaginu.

En að leiknum á mánudaginn.  Blikaliðinu líður vel í Árbænum, undirritaður spáir logni og smá vætu á mánudaginn sem eru kjöraaðstæður fyrir okkar lið. Tveir sigrar í röð og sá þriðji kemur klárlega í kjölfarið. Liðið hefur skorað mikið af mörkum og einnig fengið slatta á sig, þ.a. að áhorfendur fá mikið fyrir aurinn.

Blikakveðja

Hákon

image

SpáBliki leiksins, Hákon Sverrisson, í kunnuglegri stöði.

Dagskrá

Flautað verður til leiks mánudaginn 8. maí á Würth vellinum í Árbæ kl. 20:15!

Miðasala er á Stubbur app: Stubbur

Áfram Blikar! - Alltaf, alls staðar!

Mörkin úr síðustu viðureign liðanna í efstu deild á Würth vellinum í Árbæ 2021:

Til baka