Fall er fararheill
20.05.2025


Þrátt fyrir að Blikaliðið hafi skriplað á skötu í byrjun leiks tókst liðinu að koma til baka og sigra Valsmenn sanngjarnt 2:1 í Bestu deild karla á Kópavogsvelli í gær. Með sigrinum tyllti liðið sér á topp deildarinnar því önnur úrslit í umferðinni voru okkur hagstæð. Það voru þeir Andri Rafn Yeoman og Óli Valur Ómarsson sem settu mörkin fyrir Blikaliðið í gær.
Veðuraðstæður til knattspyrnuiðkunar voru til fyrirmyndar í gær. Sólin skein í heiði, gamla stúkan var opnuð og Brasserí Kársness seldi naut og bernaise. Ekki er laust við að gömul fortíðarþrá hafi gripið eldri Blika því fjölmenni kom sér fyrir í grasbrekkunni austan við völlinn. Stemmningin því eins góð eins og búast mátti við!
Reyndar var eins og hitinn hefði einhver letjandi áhrif á Blikaliðið því gestirnir frá Híðarenda komust yfir strax á þriðju mínútu leiksins. Fór um einhverja í stúkunni enda höfðu drengirnir hans Sr. Friðriks valtað heldur betur hressilega yfir Skagamennina í síðasta leik.
En sem betur fer hristu okkar piltar af sér slenið mjög fljótlega og tóku smám saman öll völd á vellinum. Við komum okkur oft í góðar stöður en hvað eftir annað vantaði lokahnykkinn til að koma tuðrunni í markið. Þá greip nestorinn á vellinum, Andri Rafn Yeoman, til sinna ráða. Hann geystist upp völlinn, fékk knöttinn eftir skemmtilegt þríhyrningsspil við Kidda Steindórs og Óla Val, sleit af sér varnarmenn Vals og renndi knettinum þéttingsfast undir varnarlausan markvörð gestanna. Andri Rafn skorar ekki oft en þegar hann gerir það þá eru það yfirleitt falleg mörk!

Blikar komu síðan ákveðnir til leiks í síðari hálfleik. Við sundurspiluðum þreytta og þunga varnarmenn Vals hvað eftir annað en það var erfitt að komast í gegnum þétta varnarlínu gestanna inn í eigin vítateig. En á 66. mínútu spiluðu Viktor Karl, Valgeir og Kiddi Steindórs snyrtilega í gegnum Valsvörnina og Óli Valur hamraði knettinum snyrtilega í netið. Staðan orðin 2:1 og sigurinn í augsýn.

Þrátt fyrir að Valsmenn þjörmuðu nokkuð að okkur undir lok leiksins þá var sigurinn algjörlega sanngjarn. Gestirnir skoruðu reyndar mark í uppbótartíma en það var réttilega dæmt af vegna hrindingar í teignum. Við hefðum reyndar átt að skora fleiri mörk en það kemur bara í næsta leik. Mótspyrnan fór nokkuð í taugarnar á gestunum og höfðu þeir ekki markmið leiðtoga síns í huga að ,,láta ekki kappið bera fegurðina ofurliði“ og fengu þrír þeirra gul spjöld fyrir ljót brot. Að ósekju hefði dómarinn getið sýnt fleiri rauðklæddum spjald.
Að vissu leyti skilur maður pirring Valsmanna. Þeir eru með góða leikmenn en liðið nær ekki saman sem heild. Ásgeir Helgi, afmælisdrengur dagsins, hélt til dæmis Patrik Pedersen markahæsta manni Valsmanna alveg í skefjum þannig að hann sást varla í leiknum. Vel gert Ásgeir. Svona á að halda upp á 20 ára afmælið sitt!
Margir atvinnumenn Blika mættu á leikinn og glöddust yfir sigrinum. Í stúkunni mátti til dæmis sjá Willum Þór Willumsson, Jason Daða Svanþórsson og þá bræður Ágúst og Kristian Hlynssyni.
Næsti leikur er gegn FH í Kaplakrika á sunnudaginn kl.19.15. Þar mæta allir sannir Blikar og hvetja þá grænklæddu til sigurs.
AP