BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deild karla 2025. Breiðablik - Valur

16.05.2025 image

Heimaleikur í 7. umf Bestu karla á mánudaginn þegar við fáum sprækt lið Vals í heimsókn á Kópavogsvöll. Flautað verður til leiks kl.19:15!

Miðasala á Breiðablik - Valur er á: Stubb

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Staðan í Bestu deild karla eftir 6 umferðir: 

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Vals í öllum mótum frá upphafi (1965) eru 106 leikir. Valsmenn leiða í tölfræðinni með 44 sigrar gegn 40 - jafnteflin eru 22.

Efsta deild

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru alls 79 leikir. Valsmenn leiða 32 sigra gegn 30 - jafnteflin eru 17.

Í 39 viðureignum liðanna í efstu deild á Kópavogsvelli eru Blikar með yfirhöndina - leiða með 16 siga gegn 14 - jafnteflin eru 9. 

Síðustu 5 viðureignir liðanna á Kópavogsvelli í 22 leikja móti í efstu deild:

Leikmannahópurinn

Anton Ari Einarsson á að baki 36 meistaraflokksleiki með Valsmönnum og Aron Bjarnason á 21 leiki með Val sem lánsmaður frá Újpest. 

image

Leikmannahópur Breiðabliks 2025

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins gegn Val er fæddur og uppalinn í Breiðholtinu 1969 og spilaði með ÍR mest allan ferilinn en söðlaði um og spilaði með Val í þrjú ár og þar kemur tengingin við þennan leik.  Átti góðan tíma í Val árin 1993-1996 þótt gengið hafi verið upp og ofan, en náði að spila með mörgum frábærum leikmönnun, frægastan verður líklega að telja Eið Smára sem jú eins og allir vita er uppalinn í ÍR eins og undirritaður. Undirritaður spilaði marga eftirminnilega leiki gegn Breiðablik og sérstaklega minnisstætt að hafa spilað nokkra leiki á gamla sandgervigrasinu þar sem nú er Fífan – það var mjög krefjandi völlur að spila á og þá er vægt til orða tekið. Mynd 2015: Halldór Atli Kristjánsson og Eiður Smári. 

Eftirminnilegasta rimman við Blika var 1997 þegar ÍR og Breiðablik börðust um að komast í efstu deild við FH og Þrótt.  Læt hjá líða að nefna hvernig sú rimma fór, en áhugavert engu að síður að skoða hvar liðin tvö sem sátu eftir standa í dag gagnvart þeim sem fóru upp í efstu deild þetta herrans ár 1997. Þarna kristallast soldið hversu vel hefur verið staðið að uppbyggingu félagsins síðustu árin því í dag er Breiðablik orðið stórveldi í karlaboltanum, en því var ekki til að dreifa fyrir rúmum 20 árum síðan.

Tengingin við Breiðablik kemur 1991 þegar ég kynnist konunni minni, Sigrúnu Óttarsdóttur, og fór upp úr því að venja komur mínar á leiki kvennaliðsins. Við ákváðum síðan að flytja úr vesturbæ Reykjavíkur í Kópavog, sem er líklega ein af okkar bestu ákvörðunum þar sem börnin okkar þrjú hafa fengið frábært félags- og íþróttalegt uppeldi hjá Breiðablik og gert það að verkum að við tengjumst félaginu sterkum böndum. Þau bönd hafa síðan bara styrkst í gegnum tíðina með ýmsum störfum í foreldrarráðum og dómgæslu og í gegnum allt það frábæra fólk sem við höfum kynnst í þessu starfi.

 

Kristján Halldórsson - Hvernig fer leikurinn?

Þetta verður hörkuleikur, Blikar hafa verið á fínu skriði fyrir utan einhverjar nokkrar mínútur í tveimur leikjum gegn Fram og KR.  Valur hefur hins vegar byrjað mótið nokkuð skrykkjótt og hlotið með réttu nokkra gagnrýni fyrir, en gæði leikmannahópsins komu hins vegar vel í ljós í síðasta leik gegn ÍA.

Blikar vinna þennan leik 2-1, held að þessi leikur verði tiltölulega lokaður en við fáum samt sem áður þrjú mörk í leikinn.  Ætla að spá því að Anton Logi skori annað markið eftir stoðsendingu frá Arnóri Gauta, en Tobias skori hitt markið.

SpáBlikinn Kristján Halldórsson á Pæjumóti í Eyjum 2016 með Vigdísi Lilju, Edith Kristínu og Halldóri Atla - Sigrún Óttarsdóttir (Ída) heldur á myndavélinni.

Dagskrá

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.19:15 á mánudagskvöld. 

Miðasala er á: Stubb

Mætum í stúkuna á Kópavogsvelli og hvetjum okkar menn til sigurs.

Blikasjoppan og Græna stofan opna 17:30. Við bjóðum stuðningsmenn Vals sérstaklega velkomna í upphitun fyrir leik. Þjálfaraspjall kl 18:15 í Grænu stofunni. 

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Klippur úr leik liðanna í Úrslitakeppninni haustið 2024: 

Til baka