BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Flugeldasýning á Kópavogsvelli!

26.05.2022 image

Blikar buðu upp á eina flottustu flugeldasýningu sem sést hefur á Kópavogsvelli frá upphafi þegar þeir lögðu Valsmenn að velli 6:2 í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni karla. Pistlahöfundur, sem hefur marga fjöruna sopið í knattspyrnumálum, er tilbúinn að fullyrða að síðari hálfleikur er sá besti sem Blikaliðið hefur nokkurn tíma sýnt frá upphafi knattspyrnu í Kópavoginum! Vel mannað Valslið  átti engin svör við frábærum sóknarleik Blikaliðsins og sterkir miðju og varnarmenn heimapilta sáu til þess að þeir rauðklæddu frá Hliðarenda áttu í raun ekki eitt einasta færi í hálfleiknum. Ákefðin jókst með hverjum nýjum leikmanni sem Blikar settu inn á en á sama tíma hentu Hlíðarendapiltar hverjum leikmanni á fætur öðrum inn á án nokkurs árangurs.

Leikmannahópur Blikamanna í leiknum:

image

Þrátt fyrir að staðan hafi verið 2:2 í leikhléi og Blikar undir hluta af fyrri hálfleiknum þá var í raun bara eitt lið inn á vellinum allan leikinn. Blikar héldu sig við sitt klassíska stutta snarpa spil frá aftasta manni og það býður stundum upp á taugastrekkjandi andartök fyrir áhorfendur. Þá þarf ekki nema eina slaka sendingu og andstæðingarnir fá tækifæri til a refsa okkur. Það gerðist tvisvar í fyrri hálfleik en það verður að hrósa Blikaliðinu að fara ekki í taugum. Liðið hélt áfram að sækja af fullum krafti og Viktor Örn jafnað með harðfylgi undir lok hálfleiksins eftir frábæran undirbúning Höskuldar og Jasons Daða.

Það eru varla til nægjanlega sterk lýsingarorð til að lýsa síðari háflleiknum. Þrátt fyrir að tveir lykilmenn, Gísli og Viktor Karl, hafi verið fjarverandi vegna meiðsla og þrír aðrir lykilmenn, Oliver, Kristinn Steindórs og Jason Daði, hafi farið út af í leikhléi þá var nægjanlegt eldsneyti á Blikahraðlestinni til að gersamlega rúlla yfir gestina. Það er erfitt að taka einhverja leikmenn út fyrir sviga og hrósa þeim sérstaklega. En það verður þó að minnast á stórleik Ómars Sowe sem fékk tækifæri í byrjunarliðinu í fyrsta sinn á þessu tímabili. Hann svaraði kallinu vel, skoraði fyrsta mark leiksins með harðfylgni og barðist gríðarlega vel allan leikinn. Það kom því ekki á óvart að hann var valinn maður leiksins af Blikum.

Einnig verður á hrósa hinum unga og efnilega miðjumanni, Antoni Loga Lúðvíkssyni, sem kom inn á eftir leikhlé í stað Olivers Sigurjónssonar. Hann tók yfir miðjuspil Blikaliðsins með góðri yfirferð og áferðarþokka á velli. Besti maður Íslandsmótsins hingað til Ísak Snær Þorvaldsson kom inn á og skoraði tvö mjög góð mörk.

Og hvað er hægt að segja um 16 ára snillinginn Galdur Guðmundsson sem lék listir sínar gegn þaulreyndum varnarmönnum Valsliðsins. Mark Galdurs var auðvitað tær snilld! Þess má líka geta að með þessu marki bætti Galdur met Ágústar Hlynssonar um að vera yngsti Bliki frá upphafi sem hefur skorað mark í mótsleik með meistaraflokki. Ágúst Hlynsson, sem kom reyndar inn á fyrir Val í þessum leik, skoraði sitt mark gegn Kríu í 32 liða úrslitum 26. maí 2016 og var þá 16 ára og tveggja mánaða. En Galdur skorar gegn Val, núna 26. maí 2022, þegar hann er 16 ára og sex vikna gamall! Galdrar gerast enn 😊

Kópacabana með Hilmar Jökul fremstan í flokki gáfu tóninn í byrjun leiks með frábærum stuðningi. Eins og flestir Blikar vita er ,,Big Glacier“ fluttur austur á land þar sem hann knýr túrbínur álversins á Reyðarfirði áfram af fullum krafti . Það er hins vegar ljóst að Blikar þurfa að fara í söfnun á Karólína Fund til að fá Jökulinn heim aftur! Leikmenn meistaraflokks hafa oftar en einu sinni talað um mikilvægi þess að fá svona stuðning úr stúkunni og Jökullinn er mikilvægt púsl í þeirri vegferð.

Þrátt fyrir þennan frábæra sigur má Blikaliðið ekki gleyma sér í fagnaðarlátunum. Við eigum snúin leik gegn Leiknismönnum í Breiðholti á sunnudaginn. Breiðhyltingar hafa farið frekar illa af stað en eru alltaf sterkir á heimavelli. Vonandi fáum við að sjá flottan leik en það er kalt á toppnum og við erum liðið sem allir ætla sér að sigra.

-AP

Fyrir leikinn fékk markahrókurinn okkar Kristinn Steindórsson veglega viðurkenningu fyrir að ná þeim áfanga spils 200 mótslieki með Breiðabliki. Það var Flosi Eiríksson formaður knattspyrnudeildar sem afhenti Kristni viðurkenninguna. Áfanganum náði hann í leiknum gegn Fram um daginn. Kristinn hefur skorað 70 mörk í þessum 200 mótsleikjum með Blikum - þar af 53 í efstu deild. 

image

Það var markaveisla á Kópavogsvelli í Mjólkurbikarnum þegar okkar menn unnu stórsigur á Val 6:2. Mörk, atvik og viðtal hér í boði Bliakr TV:

image

Til baka