BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fýrverkerí og konfettí

15.10.2022 image

Það var blásið til sannkallaðrar sigurhátíðar á Kópavogsvelli í kvöld. „Blásið“ er lykilorð í þessu samhengi. Norðanáttin var býsna hvöss, það var hrollkalt í stúkunni og aðstæður til knattspyrnuiðkunar vondar. Engu að síður var fjöldi gesta mættur í báðar stúkur og allar brekkur fullar. Röðin eftir borgurunum náði nánast út á götu, græna stofan troðin af fólki á þessu vonglaða haustkvöldi. Kópacabana komu sér fyrir í gömlu stúkunni og sungu börðu bumbur fyrir leik, meðan á leik stóð og eftir leik. Kópavogsbúar voru mættir til að hylla nýbakaða Íslandsmeistara Breiðabliks í viðureign við KR.

Eftir að Stjarnan lagði Víking að velli á mánudagskvöldið var ljóst að titillinn væri í höfn hjá okkar mönnum. Síðustu leikirnir þrír skipta því ekki máli í heildarsamhengi mannkynssögunnar – ekki nema fyrir stolt leikmanna og þjálfara. Fyrir utan hvað það er skemmtilegra að sigra en tapa í fótbolta.

Sigurhátíð

Fyrir þremur árum og tveimur vikum betur skrifaði sá sem hér heldur á penna um leik Blika og KR. Í minningunni var mikið óbragð í munni þegar þessi orð voru sett á blað: „Blikar stóðu heiðursvörð fyrir Íslandsmeistara KR fyrir leik á Kópavogsvelli í dag og færðu þeim blómvönd. Í hátölurunum söng Bubbi Morthens: „Við erum KR og berum höfuðið hátt“. Bubbi á mörg stórkostleg lög sem hafa fylgt manni frá unglingsárum. Þetta klastur er ekki  í þeim hópi og vona ég að ég þurfi aldrei að heyra það aftur í Smáranum.“ Í kvöld snerist þetta við. Bubbi var hvergi nærri. KR-ingar stóðu heiðursvörð þegar meistararnir gengu inn á völlinn og gáfu blóm. Yngri leikmenn mynduðu fánaborg, flugeldum var skotið upp og konfettí fauk yfir í Fífu. Líklega hefur skoteldum ekki verið beitt í Kópavogsdal utan áramóta síðan 28. júlí 1662.

Með öðrum orðum: það var hátíð í bæ. Jafnvel mætti vísa í sálm númer 147 eftir Pál Jónsson: Sigurhátíð svöl og blíð.

Fyrir leikinn fékk snillingurinn Andri Rafn Yeoman viðurkenningu fyrir 400 mótsleiki fyrir uppeldisfélagið. 400 !!!! Flosi Eiríksson formaður knattspurnudeildar afhenti Andra blóm og áritaðan platta. 

image

Lið okkar manna var þannig skipað:

image

Bros í hverju andliti

KR-ingar byrjuðu með látum undan sterkum vindinum en fljótlega náðu Blikar vopnum sínum og sýndu glæsilega takta. Það var ekki mikið um færi í fyrri hálfleik, nema hvað Ísak skoraði mark sem dæmt var af vegna rangstöðu. Okkar menn áttu nokkur skot að marki en inn vildi boltinn ekki. Gestirnir virtust ekki átta sig á því að í roki fýkur boltinn undan vindi því að þeir lúðruðu honum fram hvað eftir annað eða út á kantana, með þeim afleiðingum að Blikar fengu fjölmörg innköst eða hann lenti í greipum Antons Ara.

Í hálfleik var bros í hverju andliti. Sigurgleði ríkjandi, hugur í mönnum, lið gestanna þótti ekki burðugt, og bjartsýni um að vindurinn yrði tólfti maðurinn í seinni hálfleik. En aðallega var fólk komið til að fagna Íslandsmeistaratitlinum með okkar mönnum.

Meistarabragur

Í síðari hálfleik var eins og hefði aðeins lægt en það má heita að aðeins eitt lið hafi verið á vellinum. Þótt KR-ingar ógnuðu marki Blika í fáein skipti var mikill meistarabragur á leik okkar manna. Ísak komst í gegnum vörnina en skaut í stað þess að gefa boltann á Viktor sem var í enn betra færi, Gísli dúndraði í samskeytin, Höskuldur átti hörkuskot utan af velli, Andri Rafn skaut rétt framhjá, Jason Daði setti boltann yfir osfrv. Það lá sem sagt á gestunum. En þótt ég sé ekki með elstu mönnum man ég ekki hvenær okkar menn gengu síðast af velli í Smáranum án þess að hafa skorað mark.

Grand finale

Í leikslok var þó mikið fagnað og okkar menn hylltir í báðum stúkum, enda full ástæða til. Þeir hafa gefið okkur ótalmargar gleðistundir frá því að mótið hófst í apríl. Yfirburðirnir hafa verið óumdeildir, spilamennskan glæsileg, mörkin hafa komið á færibandi, nýir menn hafa blómstrað – og gamlir farið á kostum.

Framundan eru tveir leikir. Að viku liðinni mætum við Val á Hlíðarenda og loks Víkingum í Smáranum. Mótið er því ekki búið – þótt það sé búið – og full ástæða til að hlakka til lokaþáttarins sem vonandi verður sannkallaður grand finale.

PMÓ

PS. Rétt er að geta þess í nafni sannleikans, sem er helsta leiðarljós tíðindamanns Blikar.is, að KR-ingar náðu að skora eitt mark í kvöld.

Blikar fjölmenntu á Kópavogsvöll í gærkvöldi til að fagna Íslandsmeisturunum:

Myndaveisla í boðið BlikarTV:

image

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka