BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Gísli kom, sá og sigraði!

28.06.2022 image

Mynd: Breiðablik

Gísli Eyjólfsson kom, sá og sigraði líkt og Júlíus Sesar í orustunni um Zela forðum. Blikinn kom inn á sem varamaður á 72. mínútu og á síðustu mínútu leiksins setti hann knöttinn í net þeirra gulklæddu með þéttingsföstu skoti óverjandi í hornið og tryggði þar með sæti okkar í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar 2022. Sigur okkar manna var sanngjarn en það var algjör óþarfi að hleypa heimamönnum inn í leikinn í síðari hálfleik! Óskar Hrafn þjálfari Blika orðaði þetta ágætlega þegar hann notaði orðið værukærð um spilamennsku síns liðs í síðari hálfleik. En aðalatriðið var að við unnum leikinn og erum komnir nær bikarnum.

image

Blikar réðu lögum og lofum í leiknum í fyrri hálfleiknum. Við vorum með knöttinn meira eða minna allan hálfleikinn en heimapiltar lágu aftarlega og þrumuðu knettinum fram við fyrsta tækifæri. Á tólftu mínútu gleymdi annar miðherji Skagamanna sér og tók á rás fram völlinn. Okkar piltar voru nú ekki lengi að stöva hann og þar með riðlaðist varnarleikur þeirra gulklæddu. Dagur Dan tók mikinn sprett fram völlinn með knöttinn og renndi honum síðan á Kristinn Steindórsson sem skoraði flott mark með hörkuskoti.

Áfram héldum við að þjarma að Skagavörninni. Helstu varnir þeirra fólust í því sparka í okkar menn eða toga í treyjur. Ótrúlegt var að sjá hve dómarinn leyfði þeim oft að komast upp með peysutog og annan ófögnuð. Við létum það hins vegar ekki slá okkur út af laginu og á 36. mínútu sýndu Ísak Snær og Kristinn Steindórsson enn og aftur hve góðir knattspyrnumenn þeir eru. Ísak Snær fékk háa sendingu inn í vítateiginn og smellti knettinum yfir á Kristinn. Þar tók Kristinn nokkur létt dansspor og renndi boltanum á Anton Loga sem settti knöttinn með þokkafullri spyrnu óverjandi í hornið hjá Skagamarkverðinum.

Staðan orðin 0:2 og kættust nú fjölmargir Blikar í stúkunni með Hilmar Jökul fremstan í flokki. Héldu nú flestir að leiknum væri lokið og Blikar myndu láta kné fylgja kviði.

En það varð okkur Blikum næstum því að falli að vanmeta Akranesliðið í síðari hálfleik. Það gerðu einnig æðstu embættismenn þjóðarinnar á 18. öld þegar þeir vanmátu einn frægasta Skagamann sögunnar Jón Hreggiviðsson, bónda að Rein í Akrahreppi. Þrátt fyrir að búið væri að loka hann inn í þrælakistunni á Bessastöðum tókst honum að sleppa úr haldi og komast til útlanda til að berjast fyrir frelsi sínu. Þessum atburðum gerði Nóbelsskáldið Halldór Laxness vel skil í hinni frægu bók sinni ,,Íslandsklukkunni“ sem ætti auðvitað að vera skyldulesning fyrir hvern Íslending að minnsta kosti einu sinni á ári. En látum það liggja á milli hluta að þessu sinni.

Ekki ætlar að pistlahöfundur að líkja núverandi Skagaliði við snæraþjófinn alræmda frá Rein en allir eiga þessir Skagamenn þó það sameiginlegt að gefast aldrei upp. Að þessu sinni fékk Skagaliðið aðstoð frá Færeyingnum Kaj Leo Í Bartalstovu en hann tók forföður sinn víkingahetjuna Þránd í Götu til fyrirmyndar. Litlum munaði að þessi Þrándur frá Götu yrði okkur myllusteinn um hálsinn í leið að bikarmeistaratitli. Í upphafi hálfleiksins dæmdi títnefndur dómari vafasama vítaspyrnu á okkur en allir Blikar og óvilhallir knattspyrnuáhugamenn sáu að það var hin mesta firra. En úr spyrnunni skoraði Færeyingurinn. Og nokkru síðar varð óheppilegur misskiliingur milli varnarmann og Antons Ara markvarðar þess valdandi að Kaj Leo jafnaði leikinn.

Tengdasonur Akraness, Gísli Eyjólfsson, sá hins vegar til þess að sigurinn lenti réttu megin. Hann kom inn á og tryggði að honum verður ekki boðið í afmæli, fermingarveislur eða aðrar fjölskylduuppákomur á Akranesi næstu misserin.  Pistahöfundi grunar hins vegar að honum sé alveg sama því þetta var fyrsta markið hans á þessu sumri og hvílík snilld það var!

Við erum því komnir áfram í hinn fræga bikarpott og þar bíða ýmsir áhugaverðir andstæðingar. Draumamótherji pistlahöfundar hlýtur að vera spútniklið Ægis frá Þorlákshöfn enda er þjálfari liðsins Blikinn geðþekki Nenad Zivanovic.

image

Nenad Zivanovic í leik með Blikum 2008

Hann gerði garðinn frægan með Blikaliðinu árin 2006-2008. Spilaði 71 leik í græna búningnum og gerði 25 mörk fyrir okkur.

En þetta kemur í ljós í hádeginu á fimmtudaginn.

Næsti leikur er hins vegar í Bestu deildinni gegn ÍBV í Eyjum á laugardaginn. Verðugt verkefni sem menn munu takast á við með krafti og áræðni!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

image

Til baka