BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Góður sigur í fögrum Pýreneafjöllum

08.07.2022 image

Blikaliðið í nýrri Evróputreyju í upphafi leiks.

Hvers konar land og þjóð er Andorra?  Það er erfitt að lýsa því. Þetta er sjálfsstjórnarhérað í hinum fögru Pýreneafjöllum – á landamærum Frakklands og Spánar (eða Katalóníu öllu heldur).  Sagan nær aftur til Karls mikla á 8. öld sem á að hafa búið til þetta furstadæmi  (principauté) sem átti að hafa það markmið að verjast árásum Mára – arabanna sem réðu stórum hluta Spánar á þeim tíma.  Arabarnir hurfu á braut en þetta smáriki hefur haldið nokkurn veginn sjálfræði æ síðan.  Katalónska er opinbert tungumál og helsti atvinnuvegurinn er ferðaþjónusta. Íbúar eru aðeins rúmlega 70.000 talsins (álíka margir og Kópavogsbúar og Hafnfirðingar samanlagt) en það koma 10 milljónir ferðamanna til örríkisins á hverju ári. 

Eins og Marinó Önundarson,öðlingurinn sem verið hefur ómissandi liðsstjóri meistarflokks karla um árabil, sýndi okkur á fjölda ljósmynda þá eru Pyreneafjöllin ægifögur og heillandi. Skilaboðin hans til blikar.is voru „Andorra er stórkostlegur staður og gullfallegur. Mjög gaman að koma hingað“. 

Andorra er ekki stórveldi í knattspyrnu. UE Santa Coloma hefur 7 sinnum tekið þátt í 1. Umferð Evrópukeppninnar og aldrei farið áfram. Reyndar aldrei unnið leik og því var fyrirfram álitið að Breiðablik ætti góða möguleika í þessu einvígi. En sýnd veiði er aldrei gefin og þrátt fyrir að móttökurnar sem Blikarnir fengu hafi verið mjög góðar var ljóst að leikaðstæður voru okkur óhagstæðar. 

image

Þessir stuðningsmenn, á ferðalgi um Evrópu, komu sáu og sigruðu áhorfendapallana á vellinum í Andorra. Takk fyrir stuðninginn sem heyrðist alla leið inn stofu landsmanna!

Móttökurnar voru góðar að sögn Marinós – en ekki var hægt að segja það sama um völlinn sem leikið er á.  Santa Coloma er smábær (3.000 íbúar) en liðið leikur heimaleikina á þjóðarleikvanginum í höfuðborginni Andorra de Vella. Það er ekki einfalt að leika í tæplega 30 stiga hita á skraufþurrum gervigrasvelli í talsverðum vindi.  Eiginlega eins langt frá kjöraðstæðum fyrir okkar menn og hugsast getur.

Byrjunarliðið var svona:

image

Leikurinn varð aldrei mikið fyrir augað. Framan af var stöðubarátta þar sem Blikarnir reyndu að spila sinn leik en náðu ekki alveg taktinum. Skiljanlegt að mörgu leyti.  Á 16. mínútu dró til tíðinda. Hápressa okkar manna (lykilatriði i góðum árangri okkar í ár að mínu mati) skilaði okkur forystu. Marc Rébes lenti í vandræðum eftir pressu frá Ísak og nafni hans Priego var greinilega í engu talsambandi við félaga sinn. Ísak komst inn í varnartilraunina hjá Rébes og boltinn fór í markið. Leikurinn fjaraði út í fyrri hálfleik en 2 færi litu dagsins ljós. Fyrst náði hinn knái Virgili að plata okkar menn hvern um annan þveran (sjaldgæf sjón) og átti þrumuskot í markslá Blikanna frá vítateig. Þarna hefðu þeir getað jafnað leikinn en sem betur fer bjargaði tréverkið okkur þarna. Stuttu síðar átti Höskuldur fyrirliði magnað fyrirgjöf á Jason sem átti frían skalla en hitti ekki markið. Priego stóð berskjaldaður en boltinn fór framhjá. 0-1 í hálfleik.

Smella hér til að sjá markið sem Ísak skoraði. 

Santa Coloma byrjaði mun betur fyrsta korterið í síðari hálfleik. En við stóðumst það áhlaup og eftir það fjaraði leikurinn út smám saman. Það var talsvert mikil harka í þessum leik. Alls gaf moldóvíski dómarinn Banari 8 sinnum gult spjald – sem er talsvert yfir landsmeðaltali og segir nokkra sögu um hörkuna.  Einn góður blikar.is maður mislas nafn dómarans og taldi hann bera hið tignarlega heiti „Brandari“ þegar hann var að undirbúa gagnaöflun fyrir leikinn – en það var snarlega leiðrétt.  Veacevis þessi slapp alveg bærilega frá sínu í leiknum, ólíkt landa sínum og kollega í Malmö gegn Víkingi á þriðjudag.

Vonandi koma allir okkar menn heilir heim úr þessari ferð. Damir þurfti að fara af velli haltrandi en það ku ekki vera alvarlegt.

Niðurstaðan var því eins marks sigur okkar manna. Erfiðu en góðu dagsverki var lokið.    

Sigurinn var ekki bara mikilvægur fyrir okkur – heldur líka fyrir íslenska knattspyrnu í Evrópusamhengi. Íslensk félagslið safna saman stigum fyrir árangur þjóða í knattspyrnu og Blikar hafa staðið sig firnavel þar – ekki síst á síðasta ári. Bjarni Bergsson, formaður meistaraflokksráðs bendir á að Ísland er komið í betri stöðu til að fá aftur 4. liðið í Evrópukeppnina og er það vel.

Þessi úrslit eru mjög mikilvæg fyrir okkur. Síðari leikurinn verður á Kópavogsvelli á sjálfan Bastilludaginn, fimmtudag 14. júlí. Veðbankar og við Blikar segja að sá leikur ætti að vinnast – en við vitum öll að knattspyrnan verður seint talin einhver númerísk vísindi. Allt getur gerst.

Þegar Charles Darwin setti fram þróunarkenninguna var lykilhugtakið „The survival of the fittest“.  Margir misskildu þessa kenningu. Á íslensku þýddu menn þetta meira að segja þannig að „hinir sterkustu munu lifa“ Ekkert er fjær sanni. Darwin sagði að þeir myndu lifa af sem hafa mestu aðlögunarhæfnina. Ekki þeir stærstu eða sterkustu, heldur þeir sem kunna best að laga sig að breyttum aðstæðum. Risaeðlurnar dóu út þrátt fyrir að vera stærri og sterkari en aðrar tegundir sem dæmi.

Í undanförnum 2  leikjum hefur reynt mikið á Blikaliðið.  Það hefur búið við ótrúlega sigurgöngu við sínar kjöraðstæður, Kópavogsvöllinn eins og hann gerist bestur. Þar stenst enginn liðinu snúning.  Við erum núna hinsvegar að fara í gegnum erfitt prógram þar sem reyndir verulega á liðið. Við áttum leik gegn ÍBV við erfiðar aðstæður. Síðan þessi leikur í Andorra. Eftir leikinn gegn Santa Coloma eftir vikur eru framundan 2 erfiðir útileikir á grasi í júlí gegn Keflavík og FH.  Við vitum öll hvernig þessir leikir fóru á síðasta ári. Við töpuðum 3 leikjum í Keflavík og Kaplakrika í fyrra og kostaði okkur titil eða titla, þrátt fyrir frábæra spilamennsku allt keppnistímabilið. Núna reynir á aðlögunina eins og Darwin benti á.  

Við stuðningsmennirnir þurfum að fjölmenna á þessa leiki og styðja við Óskar og strákana – sem eru að takast á við knattspyrnuverkefni lífs síns.

Áfram Breiðablik

Hákon Gunnarsson

image

Myndir frá Andorra á leikdegi

Til baka