BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Grasið er alveg jafn grænt!

29.06.2024 image

Blikar lutu í gras 1:0 gegn baráttuglöðum FH-ingum í Hafnarfirði í gærkvöldi. Okkar drengir virkuðu hikandi og óöruggir meirihluta leiksins og voru svo sannarlega ólíkir kraftmiklu Blikaliðinu sem við fengum að kynnast fyrr í sumar. Auðvitað hafa vallaraðstæður eitthvað um það að segja. Grasvöllurinn í Hafnarfirði er frekar þungur en þetta er samt sama íþróttin. Grasið er til dæmis alveg jafn grænt! Eftir þrjá frekar slaka leiki í röð verða drengirnir okkar að horfa inn á við og finna þennan eina sanna Blikaanda sem svo sannarlega býr í þessu liði. Næsti leikur er gegn særðum Vestramönnum á Ísafirði og það verður ekki létt verk að ná í stigin þrjú fyrir vestan.

Fimleikadrengirnir byrjuðu leikinn miklu betur og lá heldur betur á okkur fyrstu 20 mínútur leiksins. Við komust varla fram fyrir miðju og það var ekki oft sem boltinn fór á milli 2-3 Blika á þeim tíma. Leikstíll Blika einkenndist mest af háloftaspyrnum og háum sendingum fram völlinn sem litlu skiluðu. Pistlahöfundur hefur hrósað þjálfarateymi Breiðabliks á þessu tímabili fyrir að þora að breyta út af hefðbundnu leikskipulagi og prófa eitthvað nýtt eftir því hver andstæðingurinn er. En að þessu sinni gekk leikskipulagið og liðsuppstilling ekki upp. Þrátt fyrir að gera fjórfalda skiptingu í síðari hálfleik þá áttum við varla eitt einasta skot sem hitti á rammann hjá FH-ingum. Þetta var fyrsti leikur Blikaliðsins í sumar sem við skorum ekki mark enda var XG (vænt mörk) aðeins 0,5 og hefur aldrei verið lægra á þessu Íslandsmóti.

Varnarlína, þá sérstaklega bakverðirnir voru í miklum basli allan tímann. Miðjumennirnir fundu í raun aldrei taktinn í leiknum þó það hafi skánað eftir stóru skiptinguna í síðari hálfleik. Sóknarleikurinn var bitlaus og hugmyndasnauður. Norðmaðurinn Stokke verður að gera sér grein fyrir því að sóknarmenn verða að skjóta á markið til að vinna fyrir kaupinu sínu! Áhorfendur voru aðeins rúmlega 700 og sérstaklega var dauft yfir stuðningsmönnum Blika. Meira að segja ung-Blikarnir sem hafa yfirleitt látið vel í sér heyra voru hvergi sjáanlegir. Þetta verður að laga!

Halldór Árnason þjálfari hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að menn verða ekkert allt í einu lélegir í fótbolta á einni viku. Það er orð að sönnu! Það býr miklu meira í þessu Blikaliði en það hefur sýnt í undanförnum þremur leikjum. Auðvitað sakna menn ákveðinna lykilmanna en það er vandamál sem öll lið glíma við. Nú þurfa Blikar, bæði innan vallar sem utan, að hrista af sér slenið og koma eins og grenjandi ljón í næstu leiki. Þá verður aftur gaman að koma á völlinn til að sjá kraftmikið Blikaliðið sýna listir sínar!

Það gladdi þó Blika eftir leikinn að fá þau tíðindi að norðan að stúlkurnar  okkar unnu góðan 1:2 sigur á Þór/KA í Mjólkurbikarkeppninni. Þar með er Blikaliðið komið í úrslit keppninnar fjórða árið röð! Svona á gera þetta!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka