Hársbreidd frá heiðursborgaratitli
26.10.2025
Langt inní uppbótartíma. Breiðablik vantaði eitt mark til að tryggja sér Evrópusætið. Fyrirliðinn hafði þegar skorað tvö mörk í leiknum. Mikil pressa og vörn Stjörnunnar búin að skjálfa á beinunum um hríð (ekki bara af kulda). Boltinn berst fyrir. Þar er fyrirliðinn. Bakfallsspyrna. Fótbolti.net:
Höskuldur þarf að bíða aðeins lengur eftir að verða útnefndur heiðurborgari Kópavogs og Breiðabliksliðið þarf að sýna það í þeim leikjum sem enn eru eftir á árinu að það eigi erindi í Evrópubolta. Það verður enginn slíkur næsta árið.
Baráttan um Nónhæð
Styrjaldarsaga mannkyns geymir heiti nokkurra hóla sem barist hefur verið um oftar en einu og oftar en tvisvar í sama stríðinu. Þær bera ekki allar svipmikil nöfn. Hæð 60 við Ypres í Belgíu og Hæð 937 í Víetnam bera svipminnstu nöfnin en Suribachi á Iwo Jima það skarpasta. Það er einmitt vettvangur hinnar þekktu fánareisingarmyndar bandarískra hermanna í síðari heimsstyrjöld.
Nónhæð er landamerki milli Kópavogs og Garðbæjar og í frábærum pistli á Blikar.is eru ótrúlega margar merkar viðureignir Breiðabliks og Stjörnunnar síðustu áratugi raktar. Í dag var níunda skiptið á rúmlega þrjátíu árum sem liðin eigast við í lokaumferðinni og oft hefur mikið verið undir.
Þessi mynd var tekin af tíðindamanni og fjölskyldu á lokaleiknum 2010. Þá unnu Breiðabliksstrákar sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil með hrútleiðinlegu jafntefli í baráttunni um Nónhæð.
Baráttan um Nónhæðina í dag snerist við frá 2010. Verðmætt Evrópusæti tapaðist í bráðskemmtilegum leik. Aðeins færri fjölskyldumeðlimir voru mættir í alræmdum skítakulda Samsung-stúkunnar.
Mjög margt gott
(bara ekki alveg nógu margt og ekki alveg nógu gott)
Það var meiri orka í Breiðabliksliðinu í dag en sést hefur í deildarleikjum um hríð. Það var engu líkara en að það væri eitthvað undir í leiknum. Uppstillingin var áhugaverð. Báðir Stjörnustrákarnir í Breiðabliksliðinu byrjuðu inná, þeir Kristófer og Óli Valur, og tveir fyrrum Breiðabliksstrákar byrjuðu inn á hjá heimamönnum, þeir Benedikt og Sindri Þór.
Okkar menn voru sennilegri allan hálfleikinn þrátt fyrir að hafa fengið á sig mark frá Warén á 12. mínútu. Anton nokkur Logi svaraði nokkrum mínútum síðar með marki sem kostaði svolitla aukavinnu hjá sjónvarpsfólkinu sem var að taka saman flottustu mörk tímabilsins eftir leikinn. Sá smurði hann upp undir vinkilinn eftir að hafa tekið hann fagmannlega niður með kassanum.
Varnarleikurinn var samt svolítið tæpur hjá okkur mönnum og skortur á festu á boltann. Flumbrugangur kostaði annað mark fyrir hálfleik. Það er stundum eins og okkar menn elski brekkur en eins og þarna var komið þurfti að vinna seinni hálfleikinn með þremur mörkum.
Meiri fegurð
Að skapa færi hefur ekki alveg legið fyrir okkar mönnum í sumar. Alls urðu mörkin okkar í sumar 46 talsins. Þau voru 63 í fyrra. Þetta vantaði þó ekki í leikinn í dag en kannski er það þannig að þegar sköpuð færi eru ekki mjög mörg, þá er mannskapurinn í minni æfingu að nýta þau. Það er áhugavert að sjá þessar tölur Livescore.com um gang leiksins.
Okkur tókst semsagt að vinna seinni hálfleikinn með tveimur mörkum Höskuldar fyrirliða, því seinna einkar glæsilegu og Höggalegu með skoti utan teigs.
Nokkrar skiptingar skiluðu enn aukinni orku og Stjörnumenn voru komnir í ansi handboltalega 10-0 vörn undir lokin. Það var í þeim slag öllum að téður Höskuldur í miðri þvögu á teignum með bakið í markið neglir tuðrunni í slána – en yfir.
2-3 var niðurstaðan og sjaldan hef ég heyrt fægilagarlegna Silfurskeiðina fagna tapi jafn innilega og stuðningsmenn Stjörnunnar gerðu í leikslok. Fyrir okkur – skemmtilegur leikur en skellur.
Í mótslok
Ef við hefðum – þetta er staðlað orðalag í pistlum eftir vonbrigðatímabil – ef við hefðum bætt okkur frá í fyrra værum við Blikar Íslandsmeistarar. Efstu liðin voru öll slakari í ár en í fyrra en það slaknaði meira á okkur en hinum. Það munar sléttum 20 stigum á niðurstöðunni milli ára. Við fengum 11 fleiri mörk á okkur og skoruðum 17 færri, sem áður segir. Það má þó færa rök fyrir því að þrátt fyrir meiðsli hafi hópurinn verið breiðari núna í fyrra. Það sást ágætlega í fyrstu innáskiptingunni í leiknum í dag. Hvaða lið í deildinni hefði ekki viljað eiga inni menn á borð við Kidda Jóns, Viktor Karl og Ágúst Orra?
Mikið er talað um þjálfaraskipti undir lok tímabilsins. Þar sem ég koppur úti á túni í málefnum deildarinnar – ekki innsti koppur í búri semsagt – hef ég ekki náð að koma mér upp sterkri skoðun á þessari ráðstöfun. „Ætlum við að verða svona klúbbur, sem rekur bara þjálfarann?“ spurði einn vinur minn. Annar sá strax mun á orkunni sem strákarnir lögðu í fyrsta leik þess nýja, Evrópuleikinn á móti Kuopio. Það var líka meiri þróttur í þeim í dag.
Í fyrra áttum við fjóra leikmenn í liði ársins hjá ýmsum miðlum. Nú engan. Þetta snýst ekki bara um þjálfara.
Deildakeppninni er lokið. Ég missi ekkert svefn yfir niðurstöðunni enda orðinn svo gamall að ég man nokkur grænt-og-fellur-á-haustin tímabil.
Það eru framundan a.m.k. fjórir Evrópuleikir.
-
6. nóvember úti á móti úkraínskum baráttuhundrum í Shatkar Donetsk.
-
27. nóvember heima á móti Samsunspor.
-
11. desember á móti hinum írsku Shamrock Rovers hér heima.
-
18. desember úti í Frakklandi á móti Strassburg.
Fjögur frábær tækifæri til að vera stolt af okkar strákum.
-Eiríkur Hjálmarsson