BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deild karla 2025 - Efri hluti: Stjarnan - Breiðablik

24.10.2025 image

Hvetjum allt stuðningsfólk Breiðabliks til að fylla stúkuna í Garðabæ og styðja liðið í baráttunni í úrslitaleiknum um Evrópusæti á næsta keppnistímabili, en karlalið Breiðabliks hefur til þessa spilað 56 Evrópuleiki frá árinu 2010 gegn 28 evrópskum félagsliðum frá 23 löndum. 

Miðasala á leikinn er á: Stubb 

Flautað verður til leiks á Samsungvellinum í Garðabæ á sunnudag kl.14:00! 

Leikurinn verður sýndur á Sýn Sport Ísland.

Staða sex efstu liða fyrir lokumferðina. Blikaliðið í 4. sæti 3 stigum á eftir heimaliðinu - tveggja marka Blikasigur á sunnudaginn og Evrópusæti 2026 er okkar (staðfest).

image

Mjög mikið undir í innbyrðis viðureignum liðanna í lokaumferð Íslandsmóta síðustu 30 ár

Bestu deildinni árið 2025 lýkur á sunnudag með leik Stjörnunnar og Breiðabliks. Okkar menn þurfa að leggja Stjörnuna með minnst tveggja marka mun á sunnudaginn til að vinna Evrópusætið af Garðbæingum og enda mótið í 3. sæti með 42 stig. Leikurinn er jafnframt 6. úrslitaleikur liðanna af 9 um Evrópusæti að ári eða fall milli deilda. Nánar um innbyrðis viðureignir liðanna í lokaumferðum Íslandsmóta frá 1991- fyrsta ár Stjörnunnar í A-deild var árið 1990:

26. október 2025 / 27. umferð / Stjarnan ? - Breiðablik ?. ....... 

8. október 2023 / 27. umferð / Breiðablik 0 : Stjarnan 2. Hvorugt liðið hafði að miklu að keppa. Stjarnan endar keppnistímabilið í 3. sæti með 46 stig, Blikar enda mótið í 4. sæti með 41 stig. Leikurinn er merkilegur í sögulegu samhengi því Óskar Hrafn Þorvaldsson var að stýra Breiðabliksliðinu í síðasta sinn. Þetta var upplýst í fréttatilkynningu eftir leikinn og jafnframt að Halldór Árnason væri nýr aðalþjálfari meistarflokks karla. Meira.

29. september 2012 / 22. umferð / Breiðablik 2 : Stjarnan 0. Leikurinn var hreinn úrslitaleikur um Evrópusæti. Eftir 21 umferð var Stjarnan með 35 stig í 3. sæti, Blikar með 33 stig í 4. sæti og ÍBV með 35 stig í 2. sæti. Markmið okkar manna var að vinna 3. sætið af Garðbæingum. Það tókst og gott betur því ÍBV tapaði sínum leik gegn Fram og annað sætið því okkar manna. Leikurinn gegn Stjörnunni vannst með 2 mörkum frá Nichlas Rohde. Meira.

1. október 2011 / 22. umferð / Breiðablik 4 : Stjarnan 3. Stjarnan búin að eiga mjög gott tímabil 2011. Garðabæjarliðið er með 37 stig í 4. sæti fyrir lokaumferðina – aðeins 3 stigum á eftir ÍBV. Evrópusæti í boði fyrir Stjörnuna með sigri gegn Blikum og tapi ÍBV gegn Grindavík. Tap ÍBV gegn Grindavík raungerðist en það voru Blikar sem gerðu út um vonir Stjörnunnar um Evrópusæti með 4:3 sigri. Arnar Már Björnsson skoraði 2 mörk fyrir Blika og þeir Guðmundur Pétursson og Andri Rafn Yeoman eitt mark hvor. Kristinn Steindórsson var í stuði í leiknum og átti stoðsendingu í þremur markanna. Athyglisvert að skoða leikskýrslu KSÍ Meira.

25. september 2010 / 22. umferð / Stjarnan 0 : Breiðablik 0. Stjarnan á lygnum sjó fyrir lokaumferðina en snúin staða hjá Blikum, með bæði FH og ÍBV "á bakinu" og máttu alls ekki tapa leiknum. Þegar nokkuð var liðið á leikinn vissi Blikaliðið að ÍBK var að vinna ÍBV í Keflavík. Blikar þéttu raðirnar og leikurinn endaði með 0:0 jafntefli sem tryggði Breiðabliki fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki. Tæplega 3000 manns - flestir úr Kópavogi - fylltu völlinn í Garðabæ og taugaspennan var rosaleg. Meira.

13. september 2003 / B-deild 18. umferð / Breiðablik 3 : Stjarnan 0. Þýðingarlítill leikur sem Breiðablik vinnur 3:0. Ívar Sigurjónsson skoraði 2 mörk fyrir Blika í leiknum. Hiti var í leiknum því tveir Stjörnumenn fengu að líta rauða spjaldið í seinni hálfleik. Stjarnan endar mótið í 4. sæti með 26 stig og Blikar í því 7. með 21 stig.  

28. september 1996 / 18. umferð / Stjarnan 3 : Breiðablik 3. Blikar að strögla árið 1996 og enda keppnistímabilið með falli. Hefðu getað haldið sér uppi með sigri gegn Stjörnunni en þurft að treysta á tap eða jafntefli Keflvíkinga gegn ÍBV. Meira.

24. september 1994 / 18. umferð / Stjarnan 1 : Breiðablik 3. Sigur okkar manna í lokaleiknum gegn föllnum Stjörnumönnum gulltryggði áframhaldandi sæti Blika í A-deild. Spennan var feykileg í Garðabænum. Þórsarar urðu að vinna Keflavík og treysta á að við Blikar myndum tapa gegn Stjörnumönnum sem voru þegar fallnir. Þór komst yfir á 9. mínútu og gullu þau tíðindi við í viðtækjunum. Spenna komin í gang, tap myndi senda okkur lóðbeint niður. Stjarnan byrjaði leikinn vel enda alþekkt að lið sem eru þegar fallin leiki vel í lokin. Vilhjálmur Kári Haraldsson fékk boltann fyrir utan teig og lét vaða á markið; boltinn sveif í fjærhornið og söng þar í netinu. Hans fyrsta – og eina – mark í efstu deild og kom það á góðum tíma. Okkar piltar létu kné fylgja kviði og þeir Kristófer Sigurgeirsson, Arnar Grétarsson og Willum Þór Þórsson fóru mikinn á vellinum.Meira.

14. september 1991 / 18. umferð / Stjarnan 0 - Breiðablik 1. Blikar í með 23 stig í 6. sæti efti 17 umferðir. Stjarnan í fallsæti fyrir lokaleikinn 1991 með 18 stig í 9 sæti - 4 stigum á eftir KA. Blikar vinna leikinn með marki Arnars Grétarssonar og enda mótið i 5. sæti. Meira.

Sagan & Tölfræði

Leikurinn á sunnudaginn er önnur viðureign liðanna á Samsungvellinum í Garðabæ á þessu ári. Fyrri leikurinn var 27. júní og lauk með öruggum 1:4 sigri Breiðabliks. 

Innbyrðis mótsleikir

Innbyrðis mótsleikir Breiðabliks og Stjörnunnar eru 77. Blikar leiða með 37 sigra gegn 27 - jafntefli eru 13.

Efsta deild

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild eru 44. Staðan er okkar mönnum í vil með 24 sigra gegn 11 - jafnteflin eru 9. Markaskorun í þessum 42 leikjum er: Breiðablik 87 mörk, Stjarnan 59 mörk. Samyaæs 146 mörk. 

Stjörnuvöllur

Leikir liðanna í efstu deild á Samsungvellinum í Garðabæ eru 20. Blikar leiða með 9 sigra gegn 6 - jafteflin eru 5.

Fimm síðustu viðureignir liðanna í efstu deild í Garðabæ:

Leikmannahópur

Þjálfari Stjörnunnar - Jökull Ingason Elísarbetarson lék 116 mótsleiki með Blikum á árunum 2010-2013 og  varð Íslandsmeistari með Blikaliðinu árið 2010. Blikinn Benedikt V. Warén leikur nú með Stjörnunni eftir félagaskiti frá Vestra á Ísafirði. Benó spilaði 31 mótsleik og skorðai 5 mörk á árunum 2019 til 2022. Uppalinn Bliki, Guðmundur Kristjánson, leikur með Stjörnunni. Guðmundur spilaði 136 mótsleiki og skoraði 36 mörk með Breiðabliki á árunum 2006-2012 og var sterkur póstur í Bikarmeistaraliði Breiðabliks 2009 og Íslandsmeistaraliðinu 2010. Og varnarmaður Stjörnunnar, Sindri Þór Ingimarsson, er uppalinn Bliki.

Kristófer Ingi Kristinsson er uppalinn hjá Stjörnunni en hélt mjög ungur út í atvinnumennsku og náði þ.a.l. aðeins einum mótsleik með Stjörnuliðinu. Óli Valur Ómarsson, fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar, kom til Breiðabliks fyrir keppnistímabilið frá sænska félaginu Sirius og skrifaði undir 4 ára samning við Breiðablik til ársins 2028. Í þjálfarateymi Breiðabliks eru einn fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar. Haraldur Björnsson markmannsþjálfari með 138 leiki fyrir Stjörnuna á árunum 2017-2022.

image

Leikmannahópur Breiðabliks

Breiðabliksteymið: Ólafur Ingi Skúlason er nýr aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Brynjar Dagur Sighvatsson og Dagur Elís Gíslason.

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins gegn Stjörnunni á sunnudaginn flutti í Kópavoginn frá Vestmannaeyjum þegar hún var 12 ára og fór auðvitað beint í Breiðablik. SpáBlikinn er uppalin Bliki – ekki spurning. Blikinn hefur unnið alla titla í boði með yngri flokkunum og svo með meistaraflokki Breiðabliks.Og blikakonan er enn að. Meistaraflokksleikir í grænu treyjunni eru 260 og mörkin komin á þriðja hundraðið enda leikmaðurinn verðlaunaður fyrir stuttu fyrir að vera markahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi.

Blikinn var einnig lengi í atvinnumennskunni og spilaði með liðum eins og PSG og AC Milan. Hún varð síðan ólétt þegar hún var í Frakklandi og flutti heim.

Planið var að koma beint í uppeldisklúbbinn en það gekk ekki upp akkúrat þá, en skrifaði svo undir heima í byrjun janúar 2025 og átti frábært tímabil, tvöfaldir meistarar og gullskór.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir – Hvernig fer leikurinn?

Hreinn úrslitaleikur á sunnudegi kl.14:00 - það gerist ekki betra! Ég trúi því að Blikar verði í meirihluta í stúkunni við að hvetja strákana áfram, því þeir þurfa á öllum stuðningi að halda. Það er mikið búið að ganga á síðustu daga og það verður spennandi að sjá hvernig uppleggið hjá nýja þjálfaranum, Ólafi Inga, verður fyrir þennan leik. Þetta verður mjög erfiður leikur en Breiðablik vinnur 0-2. Höskuldur skorar úr víti og Damir eftir hornspyrnu og tryggir sigurinn!

Áfram Breiðablik!

SpáBliki leiksins Berglind Björg Þorvaldsdóttir ánægð árangurinn 2025. 

Dagskrá

Hvetjum allt stuðningsfólk Breiðabliks til að fylla stúkuna í Garðabæ og styðja liðið í baráttunni í úrslitaleiknum um Evrópusæti á næsta keppnistímabili, en karlalið Breiðabliks hefur til þessa spilað 56 Evrópuleiki frá árinu 2010 gegn 28 evrópskum félagsliðum frá 23 löndum. 

Miðasala á leikinn er á: Stubb 

Flautað verður til leiks á Samsungvellinum í Garðabæ á sunnudag kl.14:00! 

Leikurinn verður sýndur á Sýn Sport Ísland fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓA

Mörk og atvik úr síðusti heimsókn okkar manna á Samsungvöllin í Garðabæ.

Til baka