Heilagur Blasíus í Lautinni
13.05.2024
Sunnudagskvöldið 12. maí lögðum við þrír gamlir félagar af stað úr Kópavogi í lautarferð að sjá leik Fylkis og Blika í hinni margrómuðu Bestu deild. Á leiðinni datt upp úr einum (sem nýtur nafnleyndar skv. lögum nr 90/2018 um persónuvernd): „Þið gerið ykkur grein fyrir því að ef við töpum verðum við í neðri helmingi deildarinnar með litla bróður?“ Okkur fannst þetta minna helst til mikið á Eyrnaslapa, hinn svartsýna og þunglynda vin Bangsímons og Grísla. Þó fór ekki hjá því að uggur kviknaði í brjósti okkar. Var þetta allt að fara til andskotans eftir hrakfarirnar á móti Víkingi og Val? Eða myndu okkar menn gyrða sig í brók og landa sigri?
Lið Blika sem gekk inn á heimavöll Fylkismanna í Elliðaárdalnum var þannig skipað:
Byrjunarliðið gegn Fylki í Árbænum ???? pic.twitter.com/QHZLduxxvO
— Blikar.is (@blikar_is) May 12, 2024
„Er leikurinn að snúast?“
Leikurinn fór nokkuð rólega af stað, svo mjög að þegar 4.56 stóðu á klukkunni heyrðist í tveimur valinkunnum stuðningsmönnum fyrir aftan okkur: „Það þarf ekki að spila inn í markið!“ (Hér skal aftur vísað í lög nr 90/2018).
Okkar menn léku vel saman úti á vellinum, gerðu sig nokkuð líklega til þess að skapa hættu við mark heimamanna, án þess að mikið yrði úr. Kannski er ráðleysi ekki rétta orðið fyrir spilamennskuna („það er spilað á hitt markið!“ gall í félögum okkar í næstu sætaröð fyrir aftan) en á 14. mínútu sá Kristinn Steindórsson ástæðu til að halda til fundar við þjálfarateymið á meðan hugað var að meiðslum Arons Bjarnasonar. Þau fundahöld skiluðu ekki beittari sóknarleik, aftur á móti áttu heimamenn gott skot að marki Blika á 25. mínútu sem Anton Ari varði.
Í kjölfarið fengu þeir appelsínugulu sína fyrstu hornspyrnu. „Er leikurinn að snúast?“ spurðu hinir vísu menn að baki okkur. Og það var ekki út í loftið því að í framhaldi af því varði Anton Ari skot af markteig, litlu síðar bjargaði innanverð stöngin okkar mönnum og skömmu síðar varði Anton Ari aftur skot, að þessu sinni frá vítateig. Það lá því nokkuð á liði gestanna.
En þá gerðist það.
Grís og vargur í skógi
Þegar haldið er á leiki í fjarlægum deildum jarðar, eins og í Árbænum, getur verið gott að kynna sér staðhætti, rétt eins og gert er áður en lagt er upp í hættulegar ferðir í óbyggðum. Í stúkunni í Lautinni er boðið upp á veitingar í föstu og fljótandi formi á svokölluðum Blásteini. Líklega er þar vísað til Blásteinshólma sem er á milli Elliðaárkvíslanna, austan Árbæjarstíflu og að Þrengslum. Ýmsir telja að nafnið sé dregið af dökkum steini í hólmanum en önnur skýring (sem er líklegri eftir leik kvöldsins) er að hann hafi upphaflega heitið Blasíushólmi og verið kenndur við dýrling kirkjunnar (bænhússins) í Breiðholti sem var helgað heilögum Blasíusi. Nafninu hafi síðan verið breytt við siðaskiptin.
Það hefur löngum gefist vel að heita á dýrlinga og er Blasíus blessaður þar engin undantekning. Í Heilagra manna sögum segir til dæmis frá gamalli og nokkuð volaðri (fátækri) ekkju í þorpi einu sem átti aðeins einn grís „til atvinnu sér, en vargur einn kom úr skógi og tók grísinn og hljóp aftur í skóginn með feng sinn.“ Hún bað Blasium fulltingis á móti skaða sínum. „Eigi skaltu gráta, kerling, aftur mun vargurinn bera grís þinn.“ Ekki var að sökum að spyrja að vargurinn skilaði hina sömu nótt nefndum grís. Með öðrum orðum: eftir að fulltrúi Eyrnaslapa hafði talað um neðri helming deildarinnar ákváðum við félagar hans að leita fulltingis þessa merka dýrlings sem hólmurinn neðan Lautarinnar var kenndur við.
„Eigi skal haltur ganga“
Og komum við þá aftur að leik kvöldsins. 45 mínútur eða svo á klukkunni. Aron Bjarnason hafði fengið mikla aðhlynningu stuttu áður en staðið upp. Síðar kom í ljós að hann hafði snúið sig á ökkla en varð greinilega hugsað til Gunnlaugs Ormstungu sem sagði. „Eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir.“ Nema hvað okkar maður hljóp. Hann fékk firnafína sendingu upp vinstri kantinn, lék á varnarmann og spyrnti boltanum fagurlega í netið. 1-0.
Skömmu síðar var flautað til leikhlés. Var það mál manna að staðan væri kannski ekki með öllu sanngjörn en það er ekki alltaf spurt um það í knattspyrnu.
Aron Bjarna skorar, staðan er 1-0 fyrir Breiðablik í hálfleik. pic.twitter.com/iVOOFqueAJ
— Blikar.is (@blikar_is) May 12, 2024
„Ég vil fá eitt mark í viðbót“
Degi Erni var skipt inn á fyrir Aron í hálfleik. Fylkismenn voru greinilega staðráðnir í því að jafna leikinn hið fyrsta og áttu skot yfir frá vítateigslínu og mínútu síðar annað úr miðjum teig. En okkar menn voru ekki af baki dottnir. Upp úr hornspyrnu barst boltinn til Obbekjær á fjærstönginni sem lagði hann snyrtilega í netið. 2-0.
2-0 fyrir Breiðablik, Obbekjær með markið! pic.twitter.com/uX4gKbiEU4
— Blikar.is (@blikar_is) May 12, 2024
Eftir þetta voru okkar menn með tögl og hagldir í leiknum og gerðust nokkuð aðgangsharðir við mark heimamanna.
„Ég vil fá eitt mark í viðbót,“ sagði annar kappanna fyrir aftan okkur. „Allavega það,“ svaraði hinn.
Eftir klukkutíma leik fór Ísak út af og inn kom Benjamin Stokke. Það var kannski við hæfi að tefla fram einum Norðmanni á þessum slóðum því að dalurinn og áin eru kennd við Elliða, skip landnámsmannsins Ketilbjarnar gamla. (Þessi sami Ketilbjörn missti öxi sína í þá á sem nú heitir Öxará.) Skömmu síðar fór Kristinn Steindórsson af velli fyrir Patrik.
Allt er þá þrennt er
Nú hófst Jasonar þáttur Daða. Á 77 mínútu fékk hann sendingu inn fyrir vörn Fylkismanna en gaf fyrir í stað þess að skjóta svo úr varð horn. Á 89. mínútu prjónaði hann sig í gegnum vörnina og aftur gaf hann fyrir í stað þess að skjóta en ekkert varð úr. En allt er á þá þrennt er. Á 91. mínútu var hann enn og aftur kominn einn á móti markmanni – en í stað þess að þruma sjálfur gaf hann fyrir og þar var sá norski mættur til að leggja boltann í netið.
3-0 fyrir Breiðablik, Benjamin Stokke með markið. pic.twitter.com/E92GWkTiZE
— Blikar.is (@blikar_is) May 12, 2024
Niðurstaðan í Lautinni var þannig 3-0 sigur okkar manna. Það borgaði sig greinilega að heita á heilagan Blasíus því að heilladísirnar voru sannarlega með okkar mönnum, þó að ekki sé rétt að tala um grís í því sambandi. Blikar eru í öðru sæti og mótið galopið. Þetta er með öðrum orðum ekki allt að fara til andskotans. Okkar menn gyrtu sig sannarlega í brók.
Framundan er leikur í Smáranum við nágranna okkur í Garðabænum þann 21. maí. Það er aldrei að vita nema aftur verið haft samband við heilagan Blasíus um hvítasunnuna.
-PMÓ