BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2024: Fylkir - Breiðablik

09.05.2024 image

Það er komið að 6. umferð í Bestu deild karla 2024. Blikaliðið ferðast upp í Árbæ á sunnudaginn til etja kappi við Fylkismenn á þeirra heimavelli - Würth vellinum. 

Flautað verður til leiks á sunnudaginn kl.19:15!

Miðasala á leikinn er á Stubbur.

Leikurinn verður sýndur á BD rás Stöðvar 2 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Uppaldir

Fylkisliðið er það lið í Bestu deild karla sem teflt hefur fram flestum uppöldum leikmönnum, en 194 íslenskir leikmenn frá 32 uppeldisklúbbum hafa spilað í deildinni til þessa. Fylkismenn hafa notað 12 uppalda Leikmenn, HK 10 uppalda. ÍA og Fram nota 9 uppalda leikmenn. Breiðablik á flesta uppalda leikmenn í deildinni eða, 22 leikmenn, en 8 af þeim spila núna með Breiðabliki. T.d. eru FH-ingar og Víkingur Reykjavík með 3 uppalda Blika hvort félag. Heimild: Leifur Grímsson og Mbl/Víðir Sigurðsson

Staðan í Bestu deild karla eftir 5 umferðir. Blikar í 4. sæti með 9 stig, Fylkismenn í neðsta sæti með 1 stig:

image

Fylkir - Breiðablik

Leikurinn á sunnudag verður 66. mótsleikur liðanna frá upphafi. Blikar leiða í öllum mótsleikjum með 35 sigra gegn 16 - jafnteflin er 13.

Efsta deild

Leikir í efstu deild eru 38. Blikar leið þar líka með 20 sigra gegn 10 - jafnteflin eru 8. Blikar hafa skorað 69 mörk gegn 51 mörkum Fylkis.

Nítján sinnum í efstu deild hafa Blikar heimsótt Árbæjarliðið. Sigar okkar manna í Árbænum eru 11 gegn 4 sigrum heimaliðsins

Síðustu 5 viðureignir liðanna í Árbænum:

Leikmannahópurinn

Arnar Númi Gíslason, sem kom til Breiðabliks frá Haukum fyrir keppnistímabilið 2021, söðlaði um í vetur og leikur nú með Fylkisliðinu. 

Arnór Gauti Jónsson kemur til okkar Blika úr Árbænum þar sem hann var fastamaður í liði Fylkis með 89 leiki Pepsi Max deildinni 2020 og 2021, í Lengjudeildinni 2022 og Bestu deildinni 2023. Í janúar skrifaði Arnór Gauti Jónsson undir samning við Breiðablik. Arnór er uppalinn hjá Aftureldingu en skipti yfir í Fylki um mitt sumar 2020.

Olgeir Sigurgeirsson - þriðji leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi - er aðstoðarþjálfari Rúnars hjá Fylki. Olgeir, eða Olli, spilaði 321 leiki og skoraði 39 mörk í grænu Breiðablikstreyjunni á 13 árum frá 2003 til 2015. Hann var lengi vel leikjahæsti leikmaður meistaraflokks karla eða þar til að Andri Rafn Yeoman tók fram úr honum árið 2019 og Damir Muminovic í fyrra. 

Leikmenn sem komu til okkar fyrir keppnistímabilið:

Kristinn Jónsson (KR) Kiddi Jóns kominn heim * Aron Bjarnason (Ungverjaland) Aron Bjarna mættur í grænt * Arnór Gauti Jónsson (Fylkir) Arnór Gauti mættur í Kópavoginn * Benjamin Stokke (Noregur) Norski framherjinn Benjamin Stokke til Breiðabliks * Daniel Obbekjær (Færeyjar) Daniel Obbekjær gerir 3 ára samning við Breiðablik * Ísak Snær Þorvaldsson á láni (Noregur) Ísak Snær aftur í Kópavoginn.

Leimenn Breiðabliks sem voru á láni hjá öðrum liðum 2023: Dagur Örn Fjeldsted (Grindavík) - Eyþór Aron Wöhler (HK) - Pétur Theódór Árnason (Gróttu). Í mars rifti Pétur samningi sínum við Breiðablik og íhugar að hætta í fótbolta, en meiðsli hafa sett risastórt strik í feril hans undanfarin 2-3 ár. - Tómas Orri Róbertsson (Grindavík) - Tumi Fannar Gunnarsson (Augnablik) - Viktor Elmar Gautason (Augnablik)

Leikmenn Breiðabliks á láni hjá öðrum liðum keppnistímabilið 2024: Ásgeir Helgi Orrason (Keflavík). Tómas Orri Róbertssson (Grótta). 

Farnir: Alex Freyr Elísson (Fram...var á láni hjá KA) - Anton Logi Lúðviksson (Noregur) - Arnar Númi Gíslason (Fylkir...var á láni hjá Gróttu) - Ágúst Eðvald Hlynsson (Danmörk) - Davíð Ingvarsson (Danmörk) - Gísli Eyjólfsson (Svíþjóð) - Hilmar Þór Kjærnested Helgason (Fylkir) - Klæmint Olsen (Færeyjar ...var á láni frá NSÍ) - Oliver Stefánsson (ÍA). - Eyþór Aron Wöhler (KR)

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur Héðinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson. 

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins er Bliki frá blautu barnsbeini og hefur búið í Kópavogi alla ævi ef frá eru talin stutt stopp í síðri bæjarfélögum og háskólanám í Bandaríkjunum. Hann er fæddur árið 1980 og spilaði knattspyrnu með yngri flokkum og meistaraflokki Breiðabliks samfleytt yfir 25 ára tímabil sem endaði með Íslandsmeistaratitlinum 2010. Meistaraflokksferill hans hófst hjá Sigga Donna og hann hefur spilað með Sigga Grétars og fleirum sem eru að nálgast sextugt, sem og mönnum sem enn eru að spila með Blikum í dag.  Eftir árs pásu frá boltanum sneri hann aftur á völlinn, en þá í gulri treyju í Grafarvoginum þar sem hann spilaði með Fjölni í þrjú ár. Ferlinum lauk svo að sjálfsögðu í Kópavogi þar sem hann tók síðasta dansinn með Augnabliki.

Blikar voru ekkert sérstaklega sigursælir í yngri flokkum drengja á síðustu öld, fyrir utan einn og einn árgang. Besti árangur ´80 árgangsins í yngri flokkum var bronsmedalía á Esso-mótinu á Akureyri og því var einstaklega sætt að vera hluti af liðinu sem vann fyrstu stóru titlana í meistaraflokki karla. Að plokka grjót úr olnbogunum eftir æfingar á Vallargerðisvelli, fara úr hnjálið á Smárahvammsvelli og missa helming húðarinnar af lærunum á sandgrasinu gamla varð allt þess virði þegar loksins tókst að landa þeim stóru.

SpáBlikinn er meiri Bliki í dag en nokkru sinni fyrr. Hann er fastagestur á vellinum og missir sjaldan af leik hjá strákunum. Hann á þrjá syni sem allir eru Blikar og æfa knattspyrnu, körfubolta og frjálsar með félaginu. Hann eyðir því sennilega meiri tíma í Smáranum í dag en þegar hann var sjálfur að spila.

Árni Kristinn Gunnarsson – Hvernig fer leikurinn?

Þessi lautarferð er gríðarlega mikilvæg fyrir bæði lið. Slæmt tap okkar manna gegn Val á heimavelli í síðustu umferð sveið illilega. Þeir munu því mæta dýrvitlausir til leiks og verða að kreista út sigur til að halda sig við toppinn. Fylkismenn sitja á botninum án sigurs en gætu hæglega verið með fleiri stig en taflan segir til um. Þeir eru með Blika-goðsögnina Olgeir Sigurgeirsson í aðstoðarþjálfaraúlpunni og hann þráir sjálfsagt fátt meira en að leggja sína gömlu félaga að velli. Ég er viss um að hann nái að smita þeirri þrá í leikmannahópinn, enda eru þeir komnir með bakið upp við vegg og hreinlega verða að ná einhverju út úr þessum leik. Því miður fyrir Olla og Fylkismenn verður það ekki raunin, en þeir munu þó selja sig dýrt og þetta verður því virkilega erfiður leikur fyrir okkar menn. Ég spái 1-3 sigri Blika þar sem Fylkismenn komast yfir snemma leiks. Olli rífur sig úr úlpunni en fer snögglega í hana aftur þegar Jason Daði prjónar sig í gegnum Fylkisvörnina og jafnar rétt fyrir hálfleiksflautið. Við fáum svo víti um miðbik seinni hálfleiks sem Höggi skorar örugglega úr. Það verður síðan hinn bráðefnilegi Dagur Fjeldsted sem rekur smiðshöggið á lokamínútunum.

SpáBliki leiksins, Árni Kristinn Gunnarsson, spilaði 255 mótsleiki með Breiðabliki á 14 ára tímabili frá 1997 til 2010. Hér er hann sigurleik gegn FH á Kópavogsvelli árið 2008.

Dagskrá

Miðasala á leikinn er á Stubbur.

Flautað verður til leiks í Würth vellinum á sunnudagskvöld kl.19:15!

Leikurinn verður sýndur á BD rás Stöðvar 2 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Mörkin í erfiðum sigri okkar manna á Würth vellinum 8. maí í fyrra:

Til baka