Herslumuninn vantaði!
30.05.2023
Blikar urðu að sætta sig við 0:0 jafntefli gegn Keflavík í Bestu deild karla í gærkvöldi. Leikurinn fór fram í roki og rigningu á blautum og þungum grasvelli heimapilta. Spilamennskan bar því keim af aðstæðum og í raun ekki hægt að búast við miklum tilþrifum þegar veðurguðirnir fara hamförum líkt og gerðist í gær. Þrátt fyrir að hafa verið með boltann meirihlutann af leiknum þá náðum við ekki að brjóta sterka Keflavíkurvörn á bak aftur og því fór sem fór. Það þýðir hins vegar ekkert að svekkja sig á þessum úrslitum. Við virðum stigið, fengum ekki mark á okkur og hver veit nema að þetta stig skili okkur titli í haust!
Byrjunarlið Blika var þannig skipað:
Óskar og Halldór ákváðu að hreyfa aðeins við byrjunarliðinu frá síðasta leik. Klæmint, Kristinn Steindórs, Ágúst Eðvald og Davíð komu inn en Jason Daði og Andri Rafn settust á bekkinn. Stefán Ingi og Davíð voru voru hins vegar utan hóps vegna meiðsla. Fjölmiðlar hafa velt sér töluvert upp úr því að Klæmint hafi brennt af úrvalsfæri skömmu fyrir leikslok. En þetta gerist fyrir bestu framherja. ,,Errare humanum est“ sögðu Rómverjar til forna ,,það er mannlegt að gera mistök“ og það má svo sannarlega segja um Færeyinginn geðþekka. En Klæmint hefur marga fjöruna sopið í fótboltanum og lætur þetta ekki slá sig út af laginu. Hann á eftir að reynast okkur vel síðar í sumar og skora mikilvæg mörk!
Annars er ekkert hægt að kvarta undan frammistöðu Blikaliðsins í þessum leik. Við héldum markinu hreinu fjórða leikinn í röð og þrátt fyrir að við höfum ekki náð að troða tuðrunni í markið að þessu sinni þá voru menn svo sannarlega að leggja sig fram. Það vantaði bara herslumuninn og það gerist bara í boltanum af og til! Menn voru ósáttir við dómarann undir lok leiksins þegar hann flautaði leikinn af án þess að leyfa Blikaliðinu að klára sóknina sína. Það má alveg færa rök fyrir því að þetta hafi verið röng ákvörðun hjá óreyndum dómara leiksins en við vorum búnir að hafa 93 mínútur til að klára leikinn! Menn þurfa bara að hafa fleyg orð Þuríðar ríku árið 1467 í huga ,,Eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði“. Við þurfum að safna liði fyrir leikinn mikilvæga gegn Víkingum á föstudag en ekki velta okkur upp úr úrslitunum í gær.
Það hefur lítið upp á sig að rekja gang mála í leiknum í smáatriðum. Við byrjuðum leikinn með miklum látum og yfirspiluðum heimapilta úti á vellinum. En þegar að vítateignum kom blasti við okkur ókleyfur varnarmúr Suðurnesjapilta.
Og í þau fáu skipti sem við komust í gegnum fyrstu vörnina mætti okkur danskur beljaki, Mathias Rosenörn, í markinu. Hann hefur undanfarin ár hent sér á milli stanganna í Færeyjum og því vanur alls konar veðrum. Þess má einnig geta að Mathias þessi hefur undanfarin ár sett met í efstu deild í Færeyjum yfir fæst mörk fengin á sig auk þess að verða færeyskur meistari með KÍ Klaksvík. Með það í huga er spurning hvort Kópavogur eigi ekki að senda formlega kvörtun til Klaksvíkur yfir frammistöðu Danans í gærkvöldið því eins og flestir vita þá er Klaksvík vinabær Kópavogs!
Sem betur fer gerðu Valsmenn okkur mikinn greiða og stöðvuðu sigurgöngu Víkinga. Spennan er því töluverð á toppnum og ekki skemmir fyrir að við eigum Fossvogsliðið í næsta leik á Kópavogsvelli. Við eigum því alla möguleika á því að hleypa enn meiri spennu í toppbaráttuna með því að sigra á föstudaginn.
Spáin er nokkuð góð fyrir helgina, 10 stiga hiti og léttur andvara af suðvestan. Við skorum því á alla Blika að fresta öllum sumarbústaðarferðum fram á að minnsta kosti laugardag og fjölmenna á völlinn.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
-AP
Skýrslan@KeflavikFC ???? @BreidablikFC
— Besta deildin (@bestadeildin) May 30, 2023
Hápunkta leiksins má finna á Youtube rás okkar:https://t.co/chSQTL0Jxb pic.twitter.com/MrIFjSo5n4