BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hola á veginum

17.06.2022 image

Jæja, þá er landsleikjahléinu lokið og nokkur þúsund sparkspekinga, afar þeirra og ömmur, búnir að taka landsliðið okkar, að ekki sé talað um þjálfarana, KSÍ forystuna, ríkisstjórnina og gott ef ekki Móður Teresu, svo hressilega til bæna að nú hlýtur þetta að fara að lagast. Eða þannig. Hvað um það, ekki ætla ég að blanda mér í þann dapra leðjuslag enda mál að linni og menn fari að róa sig og snúa sér að því sem raunverulegu máli skiptir. Nefnilega Breiðabliksliðinu, sem er búið að vera svona líka glimrandi skemmtilegt og gott það sem af er sumri.
Fyrir leikinn gegn Val í kvöld sátu Blikar verðskuldað á toppnum með fullt hús stiga og það var því með eftirvæntingu sem skundað var niður í Hlíðar. Valsmenn hafa valdið stuðningsmönnum sínum miklum vonbrigðum það sem af er sumri og það var því að duga eða drepast fyrir þá í kvöld. Veður var þokkalegt, ekki sérlega hlýtt, en slapp til með sínar 10°C og smá golu. Dumbungur.
Aðstæður til knattspyrnu alveg prýðilegar og fín mæting á völlinn af hálfu Blika og heyrðist vel í okkar fólki.

Byrjunarlið Blika í kvöld var svona:

image

Viktor Karl, Gísli Eyjólfs og Elfar Freyr allir komnir á ról en Ísak Snær og Omar báðir í leikbanni. Andri Yeoman fjarri góðu gamni af ókunnum orsökum, en alveg örugglega var það ekki vegna agabrots, svo mikið er víst.

Leikurinn fór frekar rólega af stað og fyrstu mínúturnar var eins og heimamenn væru eilítið skarpari og manni fannst boltinn oftar detta fyrir þá en okkar menn og okkur gekk illa að finna góðan takt og talsvert um feilsendingar og að menn hreinlega misstu boltann frá sér. Fátt var um færi hjá okkar mönnum ef frá er talin aukaspyrna utan af kanti sem minnstu munaði að tveir Blikar næðu að reka kollinn í við markteginn en því miður lukkaðist það ekki. Skömmu síðar komust heimamenn í dauðafæri eftir skyndisókn upp vinstri kant en Anton Ari bjargaði frábærlega með góðu úthlaupi. Og nú fór allt i gang og færi og hálffæri á báða bóga allt fram til þess að heimamenn náðu forystunni með afar ljótu marki á 35. mínútu. Blikar voru með boltann og engin hætta virtist á ferðum þegar Damir missti boltann skyndilega frá sér og beint í fætur eins Valsara sem gerði sér lítið fyrir og lúðraði boltanum á markið af löngu færi yfir Anton Ara sem átt sér einskis ills von, enda staddur langt utan vítateigs, og í markið alveg út við stöng. Alveg gersamlega upp úr þurru voru heimamenn komnir í forystu. Áfram hélt leikurinn og skömmu síðar snerist dæmið við. Heimamenn töpuðu boltanum og Blika komust 2 á móti einum, en þessi eini náði að setja tána í boltann þegar Jason virtist vera að sleppa einn í gegn. Skömmu síðar var Viktor Örn í færi eftir hornspyrnu en náði ekki alveg að tímasetja rétt og skallaði boltann yfir markið. Sennilega voru flestir farnir að búa sig undir að heimamenn færu með eins marks forystu inn í hálfleikinn, en það var enn smá blóð í kúnni. Upp úr þurru eftir innkast vinstra megin, þrumaði einn valsarinn boltanum yfir á hægri kantinn þar sem annar var á harðahlaupum og náði boltanum á undan Davíð, komst svo framhjá honum og inn í vítateig skoraði af öryggi með föstu skoti, óverjandi fyrir Anton í markinu. Þarna voru Blikar eilítið sofandi og án þess að taka neitt af heimamönnum sem gerðu þetta virkilega vel, fannst manni að Davíð hefði átt að geta gert betur í varnarleiknum. En um það tjáir lítt að fást. 2 mörk á silfurfati var það sem skildi liðin að þegar flautað var til leikhlés.

Hálfleikskaffið var að vonum ekki gott og flestir á einu máli að Blika væru ólíkir sjálfum sér. Boltinn ekki alveg þeirra besti vinur, og of margar feilsendingar o.sv.frv. Of margir ekki að spila nægilega vel. Vonir bundnar við að Eyjólfur myndi hressast í seinni hálfleik og mikilvægt að ná marki fljótlega. Jamm. Sammála.

Og svo hófst síðari hálfleikur og það var ekki lognmollan þar. Hraustlega tekist á og návígin ófá en dómarinn hafði ágæt tök og leyfði leiknum að fljóta að mestu en lyfti svo spjaldinu loks þegar Höskuldur var felldur á leið í hraðaupphlaup. Skömmu síðar var svo brotið illa á Kristni sem þar með lauk leik, en Valsarinn slapp við spjaldið, við litla hrifningu stuðningsmanna Blika. Og enn minni hrifningu Olivers sem hefndi fyrir brotið svona 30 sekúndum síðar og fékk spjald að launum. Anton Logi komst þá loks inná fyrir Kristinn. Annars var leikurinn vel dæmdur af Þorvaldi og félögum og ber að hrósa fyrir, þó manni sé eiginlega meinilla við það. Áfram hélt fjörið og jafnræði mikið með liðunum. Svo gerðu Valsmenn breytingu á liði sínu og útaf fór #8 sem var búin að vera langbesti maður þeirra og við það breyttist takturinn í leiknum með det samme, að manni fannst. Skömmu síðar komu Blikar boltanum í netið en markið dæmt af vegna rangstöðu. En í næstu sókn minnkuðu okkar menn muninn eftir flotta sókn þar sem Oliver náði boltanum af harðfylgi og rauk upp völlinn, sendi út til hægri á Höskuld og hann svo á Dag sem tók snertingu og þrumaði svo boltanum í netið. 

image

Þriðja mark Dags Dan í Bestu 2022

Vel gert hjá okkar mönnum og nú létu þeir kné fylgja kviði. Anton Logi fékk sannkallað dauðfæri eftir góða sókn upp vinstri kantinn en skaut naumlega framhjá. Galdur kom nú inn fyrir Viktor Karl og áfram herjuðu Blikar á heimamenn, sem náðu þó smátt og smátt vopnum sínum á ný og tókst að hægja á leiknum. En Blikar voru ekki af baki dottnir og 5 mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma kom jöfnunarmarkið eftir flott spil upp hægri vænginn sem lauk með góðum skalla frá Antoni Loga eftir fyrirgjöf Jasonar. Í netinu lá hann og Blika fögnuðu ákaft. Hafi einhver haldið að okkar menn myndu láta þar við sitja þá skjátlaðist þeim hinum sömu.

image

Annað mark Antons Loga í Bestu 2022

Nú átti að sækja sigurinn og maður hafði á tilfinningunni að það myndi bara eitt lið geta unnið þennan leik. Blikar komust í vænlega sókn á 90. mínútu og gerðu harða hríð að marki Vals en inn vildi boltinn ekki. En heimamenn voru ekki dauðir úr öllum æðum og stálu sigrinum í lokin með marki eftir skyndiupphlaup. Það var ári súrt að fá þetta mark í andlitið eftir stórbrotna endurkomu en við því er ekkert að gera. Menn ætluðu að sækja sigurinn og voru svo nálægt því. Baráttan heldur áfram.

Við erum enn á toppnum og á morgun er um að gera að drífa sig í skrúðgöngu og pylsur því strax á mánudag er næsti leikur. Þá koma KA menn í bæinn og leikurinn hefst klukkan 19:15.
Það verður mikið stuð. Við mætum.

Áfram Breiðablik !
OWK

Klippur úr leiknum í boði BlikarTV:

image

Til baka